Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins , gaf út fróðlega bók fyrir jólin um valdabaráttuna, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum við skyndilegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og lauk í rauninni ekki, fyrr en Davíð Oddsson varð...

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins , gaf út fróðlega bók fyrir jólin um valdabaráttuna, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum við skyndilegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og lauk í rauninni ekki, fyrr en Davíð Oddsson varð formaður vorið 1991. Styrmir var mjög við þá sögu riðinn, enda vinur og samverkamaður Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1973-1983. Við lesturinn rifjaðist margt upp fyrir mér, sumt skemmtilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn beið mikla ósigra í tvennum kosningum 1978. Eftir það settust ungir sjálfstæðismenn á rökstóla og komust að þeirri niðurstöðu, að endurnýja þyrfti forystu flokksins. Ekki áræddu þeir þó að biðja formanninn, Geir Hallgrímsson, að víkja, heldur sendu nefnd á fund varaformannsins, Gunnars Thoroddsens. Hann tók þeim vel og kvaðst reiðubúinn til að víkja, en þó aðeins eftir að eftirfarandi grein hefði verið tekin upp í skipulagsreglum flokksins: „Nú verða formanni á mistök, og skal þá varaformaður víkja.“ Ekki heyrðist eftir það meira af endurnýjuninni.

Gunnar Thoroddsen var vígfimur, en með afbrigðum mjúkmáll, og í hvert skipti sem hann lagði til Geirs Hallgrímssonar, talaði hann um, að nú vildi hann rétta fram sáttarhönd. Þá sagði Davíð Oddsson eitt sinn við mig: „Í Sjálfstæðisflokknum er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.“

Hinn gamli knattspyrnukappi Albert Guðmundsson tók mikinn þátt í þessum átökum, oftast við hlið Gunnars. Eitt sinn deildu þeir Davíð á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Þá var Davíð ungur maður. „Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni,“ sagði Albert hinn reiðasti. Davíð svaraði: „Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi.“

Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins haustið 1983. Undir forystu hans klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn, og Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn vorið 1987. Mörgum vinum Alberts fannst Þorsteini hafa farist illa við Albert. „Borgaraflokkurinn verður ekki langlífur. Menn senda aðeins samúðarskeyti einu sinni,“ sagði þá Friðrik Sophusson, og reyndist hann sannspár.

Eftir ósigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1987 urðu þær raddir háværari, að Davíð Oddsson yrði að taka að sér formennsku. Vildi Davíð sjálfur sem minnst um það tala. Í veglegu jólaboði Vífilfells í desember 1987 vatt Lýður Friðjónsson, þáverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, sér að Davíð og sagði: „Jæja, Davíð, hvenær ætlarðu að taka við þessu?“ Davíð svaraði að bragði: „Hvað segirðu, ertu að hætta?“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is