Fræðimaður Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Fræðimaður Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is Persónukjör í stað kjörs milli stjórnmálaflokka og fulltrúa þeirra gæti aukið áhrif hagsmunaafla á þinginu, enda væri auðveldara að hafa áhrif á sundurlausan hóp þingmanna en samstæða þingflokka. Þetta er mat dr.
Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Persónukjör í stað kjörs milli stjórnmálaflokka og fulltrúa þeirra gæti aukið áhrif hagsmunaafla á þinginu, enda væri auðveldara að hafa áhrif á sundurlausan hóp þingmanna en samstæða þingflokka.

Þetta er mat dr. Stefaníu Óskarsdóttur, lektors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en hún er einn þeirra fræðimanna sem lagst hafa yfir tillögur stjórnlagaráðs.

Með því vísar Stefanía til 39. greinar stjórnlagafrumvarpsins, nánar tiltekið 5. málsgrein en þar segir orðrétt: „Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja.“

Þetta er talsverð breyting frá núverandi stjórnarskrá þar sem segir í 31. grein að í „hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu“.

Úthlutun þingsæta fer svo fram samkvæmt sérstakri aðferð og fer eftir atkvæðastyrk flokka.

Persónur fremur en stefnur

Stefanía telur að með þessu verði sú eðlisbreyting að kjósendur horfi meira til einstaklinga í framboði en stefnu stjórnmálaflokkanna verði persónukjör þvert á flokka tekið upp. Um leið geti þetta leitt til þess að þingmenn fari fyrst og fremst að hugsa um eigin hag, líkt og algengt sé um þingmenn í Bandaríkjunum, sem rói öllum árum að því að tryggja sér endurkjör.

„Einstaklingsmiðuð stjórnmál hafa þótt ýta undir spillingu, en aftur á móti benda rannsóknir til að hefðbundið þingræði dragi úr henni,“ segir Stefanía.

„Þegar ekki er lengur kosið um stefnu flokka er ekki ljóst hvaða stefna á að ráða við stjórn landsins. Um leið verða skilaboð frá kjósendum óljósari. Hlutverk stjórnmálaflokka er einmitt að búa til valkosti fyrir kjósendur,“ segir Stefanía sem telur þetta kunna að draga úr áhuga á stjórnmálum til lengri tíma og þannig vinna gegn markmiðum frumvarpsins um aukna lýðræðislega þátttöku almennings.

Veikir flokkana

Þá telur Stefanía það munu veikja hlutverk flokkanna að forysta framkvæmdavaldsins hverju sinni, þ.e. ráðherrarnir, komi mögulega ekki úr röðum stjórnmálamanna, heldur verði þeir sérfræðingar skipaðir af Alþingi. Á Stefanía þar m.a. við 89. grein stjórnlagafrumvarpsins þar sem segir að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Ráðherrar mæli fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svari fyrirspurnum og taki þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en sitji að öðru leyti ekki á þingi.

Annað atriði sem veiki stjórnmálaflokkana sé að almenningur þurfi síður á þeim að halda til að koma málum á dagskrá þingsins. Vísar Stefanía þar m.a. til þeirrar tillögu að 10% kjósenda geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög og 2% kjósenda fengið frumvörp á dagskrá.

Þetta frumkvæði almennings veiki þingið, líkt og sá möguleiki að vinsælir þingmenn verði ráðherrar og hverfi þar með af þingi.

Völd forsetans séu aukin

Það er jafnframt mat Stefaníu að völd forseta aukist með því að hann staðfestir skipun dómara og tilnefnir forsætisráðherra.

Á hún þar við 90. grein stjórnlagafrumvarpsins um stjórnarmyndun en þar segir að forsetinn geri tillögu til þingsins um forsætisráðherra, eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn. Meirihluta þingmanna þurfi til samþykkis.

Fáist það ekki geti forsetinn gert nýja tillögu að forsætisráðherra.

„Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands,“ segir í frumvarpinu.

Er sá fyrirvari hafður á að ef þetta leiðir ekki til þess að þingið hafi kosið forsætisráðherra, innan tíu vikna frá kosningum, skuli Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Telur Stefanía að breytingarnar geti haft ýmsar ófyrirséðar afleiðingar. „Þannig eykst flækjustigið við myndun ríkisstjórna, erfiðara verður að fylgja eftir stefnumálum og stjórnmálin verða einstaklingsmiðaðri. Allt kann þetta að draga úr stjórnmálalegum stöðugleika og grafa undan lýðræðislegri ábyrgð.“

FORSETINN HVETUR TIL SAMSTÖÐU

Þjóðarviljinn ráði för

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hvatti í nýársávarpi sínu ríkisstjórnina til að skapa sátt um tillögur stjórnlagaráðs.

„Á fundi ríkisráðs í gær hvatti ég til samstöðu allra flokka með víðsýni og sáttavilja að leiðarljósi, að vegferð stjórnarskrármálsins yrði mörkuð á þann hátt að tryggð væri vönduð meðferð og í forgang settar breytingar sem ríkur þjóðarvilji veitir brautargengi. Aðeins þannig næðist farsæl niðurstaða,“ sagði Ólafur Ragnar sem telur tillögur stjórnlagaráðs m.a. auka völd forsætisráðherra og áhrif forsetans við stjórnarmyndun.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vildi ekki tjá sig um ávarp forsetans.

Ósammála túlkun Ólafs Ragnars

„Ég er ekki sammála því að það sé gengið mjög langt í þessari stjórnarskrá. Þetta er stjórnarskrá sem breytir vissulega örlítið okkar stjórnskipun og skýrir ýmis mörk,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður þingflokks Hreyfingarinnar, spurð út í þau ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að tillögur stjórnlagaráðs feli í sér „tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum“.

Margrét telur frumvarpið í góðu samræmi við stjórnskipan þeirra ríkja sem Íslendingar beri sig saman við. Það sé því ekki róttækt.

Í raun fremur íhaldssamt

„Öll valdhlutverk, nema ef til vill forsetans, eru mun betur afmörkuð og skýrari í tillögum stjórnlagaráðs en í gömlu stjórnarskránni. Þær eru jafnframt í góðum takti við þá stjórnskipun sem við höfum haft og til dæmis stjórnskipun Norðurlanda og annarra vestræna ríkja. Þannig að ég er ekki sammála forsetanum um þessa túlkun. Ýmsir fræðimenn hafa líka bent á að tillögur stjórnlagaráðs séu fremur íhaldssamar í raun og veru. En það fer eftir því hvaðan maður horfir, hvað er íhaldssamt og hvað ekki.“

„Ágætis leiðsögn um þjóðarviljann“

• Formaður VG segir nýja stjórnarskrá ekki verk fárra

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Ég ætla ekki að tjá mig um endursögn forsetans af ríkisráðsfundi, enda eru fundargerðir þess trúnaðarmál, það best ég veit,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, um þau ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í nýársávarpi, að hann hafi á fundi ríkisráðs „hvatt til samstöðu allra flokka með víðsýni og sáttavilja að leiðarljósi“, ekki síst í stjórnarskrármálinu.

„Almennt er um þessi mál að segja að það er auðvitað ekki ágreiningur um það við nokkurn mann að markmiðið er að stjórnarskráin endurspegli vilja þjóðarinnar. Það hefur enda mikið verið gert í því að virkja þjóðina í þessu ferli, miklu meira en nokkru sinni áður, m.a. með þjóðfundum, kosningu til stjórnlagaþings, síðar -ráðs, ráðgefandi ferli og nú síðast þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Steingrímur og heldur áfram.

Leiðsögn um vilja þjóðarinnar

„Út úr þeirri atkvæðagreiðslu höfum við ágætis leiðsögn um þjóðarviljann, að minnsta kosti í lykilþáttum. Það er ekki um annað að ræða en að fara að honum. Það reyndist yfirgnæfandi stuðningur við sameign á auðlindum og beint lýðræði, en vilji til að halda þjóðkirkjuákvæði inni, svo eitthvað sé nefnt. Það er mjög gott að ráðamenn átti sig á því að þetta er stjórnarskrá þjóðarinnar. Þetta er fyrir þjóðina en ekki fyrir flokkana, stjórnkerfið eða einstök embætti. Þannig að það er að sjálfsögðu þjóðarviljinn sem hér á fyrst og fremst að ráða för.“

Með „óhemju af gögnum“

– Forsetinn gagnrýnir að áhugamenn um tillögur stjórnlagaráðs skuli gera lítið úr þeirri gagnrýni sem fræðasamfélagið hefur sett fram. Tekurðu undir þetta?

„Ég held að það sé ekki gert lítið úr málefnalegum sjónarmiðum og áliti fagaðila og sérfræðinga, heldur er þvert á móti óhemja af slíkum gögnum með í farteskinu og verið að vinna úr þeim núna af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Menn hafa haft sérfræðinga sér við hlið í þessu máli alveg frá byrjun...Þannig að það er ekki hægt að benda á það með neinum gildum rökum að menn hafi ekki einmitt leitað álits ýmiss konar sérfræðinga og það verður væntanlega áfram gert.“

– Telurðu að áhyggjur fræðimanna gefi tilefni til að staldra við og endurskoða tillögurnar?

Lagfæri einstök atriði

„Að sjálfsögðu er ljóst að einstök atriði í þessu geta að sjálfsögðu þarfnast lagfæringa við. Þess vegna er nú þetta ferli allt saman. Ég hef sjálfur sagt í umræðum á Alþingi að ég setji spurningar við ákveðna þætti en um leið átta ég mig á því að allir verða að vera viljugir til að finna málamiðlanir. Stjórnarskráin verður aldrei skrifuð nákvæmlega samkvæmt ýtrasta vilja einhverra tiltekinna fárra einstaklinga. Hún verður að vera niðurstaða af mjög víðtæku samráði þar sem menn bræða saman sjónarmið. Stjórnlagaráð var fjölskipaður vettvangur sem bar ýmis sjónarmið fram í málinu.“

Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, telur rétt að velja einstök atriði úr tillögum stjórnlagaráðs fyrir kosningar en geyma önnur.

„Ef staða málsins er metin og sá skammi tími sem er til stefnu hljóta menn að huga að því að leggja áherslu á tilteknar breytingar á stjórnarskránni fyrir alþingiskosningarnar og vinna svo frekar að málinu á næsta kjörtímabili. Því miður hefur ekki farið fram það mikil efnisleg umræða á Alþingi um einstök atriði að maður átti sig á því um hvað geti náðst breið sátt á þessu stigi.“