Sigurður Líndal
Sigurður Líndal
„Ef ráðherrann er að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í haust þar sem tæplega 49% landsmanna tóku þátt – og þar sem 64,2% lýstu sig fylgjandi tillögum stjórnlagaráðs – þá er algjörlega rangt að ræða um að þjóðarvilji hafi birst í...
„Ef ráðherrann er að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í haust þar sem tæplega 49% landsmanna tóku þátt – og þar sem 64,2% lýstu sig fylgjandi tillögum stjórnlagaráðs – þá er algjörlega rangt að ræða um að þjóðarvilji hafi birst í málinu. Þetta er lítill minnihluti atkvæðisbærra manna. Hvernig í ósköpunum getur kosningin birt þjóðarvilja þegar helmingur kjósenda lætur hana lönd og leið?“ spyr Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögfræði við Háskóla Íslands, í tilefni af þeim ummælum Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, að Alþingi þurfi að afgreiða tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi „þjóðarviljinn“ birst í málinu.

„Það er ekki um annað að ræða en að fara að honum,“ sagði Steingrímur um þjóðarviljann í samtali við Morgunblaðið í gær.

Birtist í stjórnarskránni 1944

Sigurður gagnrýnir þennan málflutning. „Ég sé ekki að þjóðarviljinn hafi birst í atkvæðagreiðslunni 20. október sl. Hann birtist í stjórnarskránni árið 1944. Hún var samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum. Ég er ekki þar með að segja að hér þurfi „rússneska kosningu“ til en það þarf að minnsta kosti ríflegan meirihluta kjósenda.“

– Steingrímur segir að það sé ekki um annað að ræða en að fara að þjóðarviljanum. Hafa áður verið færð rök fyrir því að það verði að breyta lögum með vísan til þjóðarvilja?

„Ég kannast ekki við það. Þetta eru að mínu mati pólitísk slagorð sem einkenna stjórnmálin alltof mikið. Almennt er mér ekki kunnugt um að lagasetning byggist á svokölluðum þjóðarvilja. Ég kannast ekki við það. Það er þá í algjörum undantekningartilfellum sem slíkt er. Þegar kosið er til Alþingis er kosið um býsna margt, ekki satt?

Það er erfitt að segja að ein lög séu í betra samræmi við þjóðarvilja en einhver önnur. Á meðan menn voru að hrista af sér einveldið var gjarnan vísað til þjóðarvilja um þetta og hitt.“ baldura@mbl.is