Barnabörnin Baltasar og Kristjana með öllum barnabörnum sínum á góðri stund.
Barnabörnin Baltasar og Kristjana með öllum barnabörnum sínum á góðri stund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baltasar fæddist 9. janúar 1938 í Barcelona í Katalóníu á Spáni og ólst þar upp. Hann stundaði nám við listadeild Háskólans í Barcelona og útskrifaðist þaðan 1961.

Baltasar fæddist 9. janúar 1938 í Barcelona í Katalóníu á Spáni og ólst þar upp. Hann stundaði nám við listadeild Háskólans í Barcelona og útskrifaðist þaðan 1961. Auk þess stundaði hann nám í grafík við Institut del llibre og sem gestanemandi við Beaux Arts í París 1960, fór í eins árs reisu um Evrópu 1962 til að skoða og kynna sér listasöfn, stundaði síðar rannsóknir í grafík í Bandaríkjunum og fór í rannsóknarferðir til Mexíkó vegna áhrifa jarðskjálfta á fresku og tæknilegrar lausnar á þeim vanda.

Að loknu háskólanámi í Barcelona 1961 ferðaðist Baltasar til Norðurlandanna og kom þá til Íslands. Hann dvaldi þá í átta mánuði hér á landi og var á síldveiðum.

Baltasar varð mjög hrifinn af Íslandi eftir dvöl sína hér. Hann kom hingað aftur að lokinni Evrópureisu en þá kynntist hann Kristjönu konu sinni. Hann hefur síðan búið á Íslandi samfellt frá 1963.

Myndlist Baltasar

Baltasar er í hópi virtustu myndlistarmanna hér á landi. Hann hefur haldið á fjórða tug einkasýninga eða sýningar ásamt Kristjönu, hér á landi, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Danmörku. Þá er hann m.a. þekktur fyrir hinar stóru veggmyndir sínar sem eru veggskreyting í Flateyjarkirkju; altaristafla á Ólafsvöllum á Skeiðum; veggskreyting í kapellu Landakotsspítala sem nú er að hluta til komin í klaustrið í Garðabæ; freska í Víðistaðakirkju sem er stærsta kirkjuskreyting hér á landi; freska í Húnavallaskóla, og útifreska á Eskifirði.

Baltasar og íslenski hesturinn

Baltasar var leiktjaldahönnuður á vegum Þjóðleikhússins og fleiri leikhúsa á árunum 1966-80, var kennari við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1975-77 og við Handíða- og myndlistarskólann 1977-80. Þá annaðist hann myndskreytingar í Morgunblaðið og fyrir Ríkisútgáfu námsbóka um skeið.

Baltasar er mikill áhugamaður um íslenska hesta, hefur átt hesta um árabil og ferðast á hestum, ásamt fjölskyldu sinni, víða um land og er heiðursfélagi hestamannafélagsins Andvara.

Baltasar hefur verið sæmdur borgaralegri heiðursorðu af spænska konunginum.

Hann var valinn heiðurslistamaður Kópavogs 2007.

Fjölskylda

Kona Baltasars er Kristjana Samper, f. 12.10. 1944, myndhöggvari. Hún er dóttir Guðna Guðbjartssonar, stöðvarstjóra að Ljósafossi, og k.h., Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem eru látin, en þau voru bæði ættuð úr Dýrafirði.

Börn Baltasars og Kristjönu eru Mireya, f. 9.8. 1964, myndlistamaður í sambúð með Víði Árnasyni, dóttir hennar er Asra Rán Björt; Baltasar Kormákur, f. 27.2. 1966, leikari og leikstjóri, giftur Lilju Pálmadóttur, börn þeirra eru, Baltasar Breki, Stella Rín, Sóllilja, Pálmi og Stormur; Rebekka Rán, f.5.5.1967,myndlistamaður í sambúð með Geir Þorsteinssyni, sonur hennar er Baltasar Darri.

Systkini Baltasars eru Jóhann, búsettur í Reykjavík; Mireya, búsett í Valencia; Núría, búsett í Manresa.

Foreldrar Baltasar: Ramiro Bascompte de La Kanal efnaverkfræðingur og María Samper de Cordada. Seinni maður hennar var Joan Colom læknir, þau eru öll látin.