Náttúrufegurð Leifur Örn kleif fjallið Cho Oyu á landamærum Tíbets og Nepals árið 2007 en það er sjötta hæsta fjall jarðar.
Náttúrufegurð Leifur Örn kleif fjallið Cho Oyu á landamærum Tíbets og Nepals árið 2007 en það er sjötta hæsta fjall jarðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leifur Örn Svavarsson, einn stofnenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna, hefur klifið nokkra af hæstu tindum heims og farið í gönguferðir víða um heiminn.

Leifur Örn Svavarsson, einn stofnenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna, hefur klifið nokkra af hæstu tindum heims og farið í gönguferðir víða um heiminn. Hann er nú nýkominn af suðurpólnum en stefnir næst á að klífa Mount Everest í vor og ætlar að þjálfa sig fram að því með leiðsögumannastarfi í verkefninu Toppaðu með 66°Norður og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Leifur Örn Svavarsson, fjallagarpur með meiru, er nýlentur heima á Íslandi þegar blaðamaður hittir hann í miðbæ Reykjavíkur. Leifur Örn er nýkominn af suðurpólnum þar sem hann eyddi jólunum í hátíðarskreyttu tjaldi með göngufélögum sínum. Leifur Örn hélt af stað frá Íslandi 10. desember en hann hefur áður komið á Suðurskautslandið og kleif þá hæsta tind þess, Vinson-Massif.

Sörur á suðurpólnum

„Ég fór sem leiðsögumaður gangandi á suðurpólinn með þrjá menn frá mismunandi heimshornum. Við fórum nú ekki jafn langt og Vilborg heldur flugum inn á 89° gráður suður og gengum þaðan. Það er eðlilegt að mæla þetta í lengdarmínútum sem eru 60 og hver lengdarmínúta verður þarna 1,8 km sem gerir þá 111 km sem við gengum á pólnum. Við lentum í 2.800 metra hæð og fundum því strax fyrir því hvað loftið er þunnt til pólanna. Fyrstu dagana tókum við það rólega en samferðamenn mínir eru allir vanir menn sem vissu út í hvað þeir væru að fara. Markmið fyrsta dagsins var bara að svitna ekki, næsta dag gengum við í fimm tíma og svo settum við smám saman í gír og fórum að ganga hraðar,“ segir Leifur Örn. Jólin héldu þeir félagar hátíðleg á pólnum en Leifur Örn hafði tekið með sér jólaskraut að heiman sem hann skreytti tjaldið með og einnig hafði hann meðferðis jólapakka handa hópnum frá Íslandi sem allir innihéldu eitthvað gott að borða. Í einum pakkanum voru t.a.m. sörur frá tengdamömmu hans. Áramótunum var hins vegar fagnað á Union Glacier þar sem flogið er inn á Suðurskautslandið með einkafyrirtæki. Þar voru áramót haldin eftir staðartíma þjóðlandanna og hófu Rússarnir hátíðarhöld klukkan 17 og buðu í heljarmikið snjóhús sem búið var að hlaða.

„Þetta var skemmtileg upplifun þó ég myndi ekki vilja eyða öllum hátíðum svo langt í burtu frá fjölskyldunni. Ég þurfti að sækja um leyfi hjá yngstu dóttur minni, sem er sjö ára, til að vera úti yfir jólin með því skilyrði að ég yrði kominn heim fyrir afmælið hennar núna í janúar sem og stóðst,“ segir Leifur Örn.

Kuldinn venst illa

Hópurinn deildi flugi með tveimur Bretum en annar þeirra er Jeff Summers sem varð nokkuð þekktur árið 1990 fyrir að fara þvert yfir heimskautið á hundasleðum. Nú eru hvorki dýr né plöntur leyfðar á pólnum og allir skór sótthreinsaðir auk þess sem flogið er með allan úrgang frá pólnum. Langt flug er til og frá pólnum og þar er ferðast með skíðavél og síðan gengið á skíðum með allan farangur sem til þarf. Þeir Leifur Örn og félagar gengu 111 km að pólnum og voru þá einir í viku en einnig gekk Leifur Örn á tinda sem aldrei hafa verið klifnir áður.

„Þarna ríkir nú viss gullaldarstemning þar sem menn keppast við að ná klifurleiðum og fjöllum sem ekki hafa verið klifin áður. Almennt séð var hagstætt veður fyrir pólfara síðastliðið ár og í okkar ferð var frostið nokkuð stöðugt frá -20 en kaldast 26-28, hægur vindur og heiðskírt. Líkaminn venst lítið kuldanum og í gegnum árin finnur maður að blóðrásin í fingrum versnar og maður þarf að passa sig betur. En í sjálfu sér er merkilegt að þegar maður fer hér yfir Sprengisand á veturna eða Vatnajökul að vori þá er maður nánast eins klæddur nema á pólnum er maður með meiri einangrun á höndum og fótum og talsvert með andlitsgrímu til að fá ekki kal í andlitið,“ segir Leifur Örn og bætir við að einkafyrirtæki sem sjái um allan aðflutning á pólinn sjái einnig um að fylgjast vel með göngufólki, t.d. með föstu vaktakerfi.

Öll hreyfing af hinu góða

Næst stefnir Leifur Örn á að ganga á Mount Everest í apríl og segir hann bestu æfinguna fyrir fjallgöngu vera fjallgöngur. Reynslubankinn geymi líka það sem fólk hafi gert en um leið verði að viðhalda líkamlegu formi og stunda fjallgöngur. Hluti af æfingarferli Leifs Arnar á næstunni er leiðsögumannastarf í verkefninu Toppaðu með 66°Norður og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum en hann er einn af stofnendum fyrirtækisins. Dagskráin miðar að því að undirbúa fólk fyrir göngu á Hvannadalshnúk með stigmögnuðum fjallgöngum.

„Miðað við hæstu fjöllin í nágrannalöndum okkar er Hvannadalshnúkur mjög erfitt verkefni og sjaldan sem maður sér svo mikla hækkun, 2.000 metra, án þess að það séu skálar í miðjum hlíðum. Þetta er því krefjandi verkefni sem nauðsynlegt er að æfa sig fyrir en hingað til hefur þeim sem tekið hafa þetta alvarlega og tekið þátt í öllum æfingum gengið vel. Það er allt annað að ganga á ósléttu landi miðað við að æfa inni í líkamsræktarstöð þó að öll hreyfing sé auðvitað af hinu góða. Hvað varðar mataræði er hóf best í öllu og almennt mataræði finnst mér best en dagana fyrir Hnúkinn borgar sig að borða vel og líka að hvíla sig vel,“ segir Leifur Örn. Hann segir ferðirnar hingað til hafa gengið vel og margir hafi haldið áfram að ganga allt árið um kring í föstum gönguhópum. Sjálfur segist hann vera orðinn heilmikið spenntur fyrir Mount Everest þó hann hafi vissulega lítið leitt hugann að þeirri ferð síðastliðinn mánuð á pólnum. Hann sé því enn frekar afslappaður en fari þó að huga að ferðinni fljótlega enda að mörgu að huga en auk þess er Leifur Örn ekki viss um að geta gengið norðanmegin á fjallið líkt og hann ætlar sér.

„Gengið er norðanmegin á fjallið frá Tíbet sem er nú hluti af Kína og þar er pólitískt ástand fremur óstöðugt. Kínverjar vilja fjölga Kínverjum í Tíbet og tíbetska þjóðin er því orðin í minnihluta. Tíbetar hafa reynt að malda í móinn og munkar m.a. kveikt í sér í mótmælaskyni. Þessu vilja Kínverjar ekki að almenningur komist að og hafa því við og við lokað landamærunum fyrirvaralaust eins og t.d. síðastliðið sumar. Þetta gerir því allt skipulag mun erfiðara en nú er verið að ganga frá tilskildum leyfum og greiðslum og ekki þægileg staða að vita að þeir gætu fyrirvaralaust dregið það til baka. Ég hef því þann varnagla að klífa fjallið hugsanlega sunnanmegin,“ segir Leifur Örn.

TOPPAÐU MEÐ 66°NORÐUR OG ÍSLENSKUM FJALLALEIÐSÖGUMÖNNUM

Hraðaskiptar göngur

Toppaðu með 66°NORÐUR og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum er nú haldið í sjötta skipti en verkefnið veitir fólki tækifæri til að ganga á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands (2110 m), sem er á suðurhluta Vatnajökuls, stærsta jökuls í Evrópu. Þjálfunin hefst í janúar og nær hámarki með ferð á Hvannadalshnúk, en þátttakendur geta valið um tvær dagsetningar, 25. maí eða 1. júní. Áætlun verkefnisins er í tveimur þáttum. Annars vegar eru sextán göngur, m.a. á Fimmvörðuháls, sem ætlað er að efla kunnáttu, líkamlegt form og reynslu þátttakenda áður en haldið er á Hvannadalshnúk. Hins vegar eru fyrirlestrar og námskeið, þar sem þátttakendur eru fræddir um næringu, klæðnað, búnað, öryggi og umhverfislega ábyrgð. Í fyrra náðu hátt í 100 manns að standa á hæsta tindi Íslands en dagskráin er hugsuð fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Undirbúningsgöngum er hraðaskipt og getur fólk flakkað á milli hópa ef vill. Dagskráin hefst með kynningarfundi annað kvöld, miðvikudaginn 16. janúar, í verslun 66°Norður í Faxafeni og hefst klukkan 20.