Sænska leiðin Nils Karlson fjallaði um nýju sænsku leiðina á fundi sem haldinn var í Öskju í hádeginu í gær.
Sænska leiðin Nils Karlson fjallaði um nýju sænsku leiðina á fundi sem haldinn var í Öskju í hádeginu í gær. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Skúli Hansen skulih@mbl.is „Á síðustu 25 til 30 árum hefur sænska módelinu í raun og veru verið gjörbreytt með fjölmörgum umbótum í átt til frelsisvæðingar,“ segir dr.
Viðtal

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

„Á síðustu 25 til 30 árum hefur sænska módelinu í raun og veru verið gjörbreytt með fjölmörgum umbótum í átt til frelsisvæðingar,“ segir dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, en hann hélt fyrirlestur um nýju sænsku leiðina í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í hádeginu gær. Fundurinn var haldinn á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. „Eitt af því sem er athyglisvert við þetta er það að jafnaðarmenn hafa verið við völd tvo þriðju hluta þessa umbótatímabils. Þannig að báðar hliðar hins pólitíska litrófs hafa tekið þátt í að koma á frelsisvæðandi umbótum,“ bætir Karlson við.

Að sögn hans hófst umbótaferlið árið 1985 þegar jafnaðarstjórnin sem þá var við völd í Svíþjóð hóf að vinda ofan af regluverkinu í kringum gjaldmiðlaviðskipti. Þá bendir hann á að eftir svo langt umbótatímabil sé réttmætt að segja að nýtt sænskt módel hafi myndast sem er í eðli sínu frábrugðið því kerfi sem fólk hefur í huga þegar það talar um sænska velferðarkerfið eða hið svokallaða sænska módel.

Fjórar meginreglur

„Mín röksemd er því sú að við höfum í raun og veru nýtt módel í dag sem byggist á að minnsta kosti fjórum nýjum meginreglum. Sú fyrsta er að ábyrgð og valfrelsi einstaklinga hefur aukist og dregið hefur verið úr hlutverki stjórnmála og hins opinbera með raunar frekar róttækum hætti,“ segir Karlson og bendir á að til dæmis hafi skattar áður verið um 55% af vergri landsframleiðslu en í dag séu þeir hinsvegar um 43% af vergri landsframleiðslu.

Undið ofan af regluverkinu

Að sögn hans er meginregla númer tvö sú að skattar hafi verið lækkaðir, dregið hefur verið úr velferðarkerfinu og bótaréttur takmarkaður, undið hefur verið ofan af regluverkinu í kringum markaðinn, ýmis opinber fyrirtæki hafa verið einkavædd, og stór hluti af þjónustu hins opinbera, á borð við t.d. heilbrigðisþjónustu, skóla og þjónustu við aldraða, hefur verið boðinn út til einkaaðila. Þá segir hann þriðju meginregluna vera þá að ýmsar takmarkanir hafi verið settar á almannatryggingakerfið og það gert líkara raunverulegu tryggingakerfi.

„Fjórða nýja meginreglan er sú að frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar hefur nýrri umgjörð utan um stjórn efnahagsmála verið komið á á trúverðugan máta,“ segir Karlson og bendir á að fjárlög sænska ríkisins hafi síðustu 15 til 20 ár verið rekin með afgangi. Þá segir Karlson að í kringum 1994 til 1995 hafi verið sett ný lög í Svíþjóð sem gerðu það að verkum að afgangur af fjárlögum þurfi að vera að minnsta kosti 2% af landsframleiðslu.

MISMUNANDI AÐFERÐAFRÆÐI EN SAMA NIÐURSTAÐA

Víðtæk sátt um umbætur

„Það sem er áhugavert við þetta er það að allar þessar fjölmörgu ákvarðanir um umbætur, sem teknar hafa verið síðan árið 1985 af bæði jafnaðar- sem og miðju-hægristjórnum, voru á sínum tíma umdeildar en í dag myndi ég segja að það væri víðtæk sátt um að margar af þessum umbótum myndi hluta af nýju módeli sem nýtur stuðnings helstu þingflokkanna,“ segir Karlson. Aðspurður hvernig á því stóð að umbæturnar komust á bæði í stjórnartíðum jafnaðarmanna sem og hægrimanna segir Karlson að hann telji að fyrir jafnaðarmennina hafi þetta verið spurning um raunsæi, þeir hafi áttað sig á því að þeir þyrftu að gera umbætur á velferðarríkinu til að tryggja hagvöxt og velferð til langs tíma. Hinsvegar hafi málið snúist um hugmyndafræði hjá miðju- og hægristjórnum. „En lokaniðurstaðan er nokkurn veginn sú sama, þetta er ferli sjálfbærrar frelsisvæðingar,“ segir Karlson.