Magnús Haukur Guðlaugsson fæddist á Guðrúnargötu 2 í Reykjavík hinn 20. desember 1943. Foreldrar hans voru María Hermannsdóttir húsmóðir, frá Ketilseyri við Dýrafjörð, f. 4. september 1905, d. 15. maí 2001, og Guðlaugur Ásberg Magnússon, gullsmiður og hljómlistarmaður í Reykjavík, f. 16. desember 1902, d. 13. nóvember 1952. Magnús var yngstur af fjórum systkinum. Elstur var Reynir gullsmiður, f. 3. apríl 1930, d. 24. desember 2001. Óttar H. verkstjóri, f. 8. október 1931, d. 3. september 1991. Jónína E. húsmóðir, f. 15. nóvember 1933.

Magnús ólst upp á Fjölnisvegi 10 í Reykjavík. Magnús kvæntist hinn 29. ágúst 1964 Kornelíu Óskarsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 16. desember 1943, d. 20. desember 1994. Kornelía var dóttir Óskars Axels Sigurðssonar, bakarameistara og stofnanda Myllunnar, og Guðbjargar Sigríðar Kornelíusdóttur húsmóður. Dætur Magnúsar og Kornelíu eru: 1) Hanna Sigríður, f. 17. júlí 1963, viðskiptafræðingur frá Bandaríkjunum, gift Bjarna Róbert Blöndal, f. 21. nóvember 1973, ráðgjafa. 2) María Hrönn, f. 11. júlí 1967, lagerstjóri á skurðstofum kvenna á Landspítalanum, gift Guðna Má Kárasyni sjúkraliða, f. 6. febrúar 1961.

Magnús stundaði verslunarnám í London og árið 1963 tók hann við rekstri verslunar föður síns, Guðlaugs A. Magnússonar, af móðurbróður sínum Hermanni Hermannssyni sem hafði rekið fyrirtækið frá fráfalli Guðlaugs. Á fjöldamörgum heimilum á Íslandi eru til jólaskeiðar sem Magnús hafði veg og vanda af framleiðslu á frá árinu 1963. Hanna Sigríður tók við rekstri verslunar Guðlaugs A. Magnússonar af föður sínum Magnúsi árið 2005. Magnús hafði starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fjölmörg ár og lengi í Lionsfélagi Reykjavíkur og sat þar í stjórn um árabil sem formaður og gjaldkeri. Hann hafði mikinn áhuga á flugi og tók einkaflugmannspróf og rak flugskóla með flugkennara sínum í einhver ár samhliða verslunarrekstri sínum. Magnús barðist hetjulega við sjúkdóm sinn, Alzheimer, en varð að lokum að lúta í lægra haldi alltof fljótt.

Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku pabbi minn, nú er stríði þínu við illvíga sjúkdóminn Alzheimer lokið. Þú varst svo duglegur að vinna gegn áhrifum hans. Gekkst fleiri kílómetra á dag, syntir, hugsaðir um hvað þú borðaðir og leystir krossgátur. Þú varst bjartsýnn og ætlaðir ekki að gefast upp. Þú gekkst úr þér sykursýkina og losaðir þig við insúlínið. Maður stendur máttvana og horfir á þig hverfa á braut en svona er nú lífið eins og þú sagðir alltaf. Minningarnar eru margar og góðar. Þú varst alltaf hress og kátur og til í eitthvað skemmtilegt, hvort sem það var að þeytast Þingvallahringinn á sunnudagsmorgni eða sigla með okkur afa á Faxaflóa, horfa á kvöldsólina og hnísurnar leika sér rétt við trilluna.

Ég er þakklát og stolt að hafa fengið tækifæri til að vinna með þér og geta tekið við keflinu af þér og hanna og smíða jólaskeiðarnar. Ég handleik oft skeiðarnar eftir þig og dáist að því hvað þú varst mikill hugmyndasmiður og listamaður og aldrei skorti þig hugmynd að myndefni. Frá því ég var lítil var ég svo spennt að fá að sjá hugmynd að nýrri skeið fæðast sem gerðist á ýmsan máta. Listagyðjan blés þér í brjóst, hugmynd kom, stundum í draumi, stundum eftir dvöl einn inni í herbergi eða á þeytingi um landið er þú sást litla sveitakirkju eða burstabæ sem varð síðar að undurfögrum smíðisgrip.

Þú varst fróðleiksfús og víðlesinn og hvattir mig til mennta. Ég var ellefu ára þegar þú réttir mér bókina Mýs og menn á ensku eftir John Steinbeck og sagðir gott að byrja að lesa ensku snemma til að ná tökum á málinu. Þær voru ófáar ferðirnar milli hæða í Hjallalandinu til að spyrja út í þýðingu orða. Ég las allar bækur Steinbecks og svo skoðuðum við saman slóðir hans í Kaliforníu.

Mér er minnisstætt þegar þið mamma komuð út til New York eftir að við systur vorum búnar að eyða sumrinu í enskunám. Við fórum öll fjölskyldan ásamt Konna frænda, Ingu og Önnu Margréti í stórt ferðalag. Við keyrðum Bandaríkin þver og endilöng. Þetta er ógleymanleg ferð og þar kenndirðu mér á vegaskilti, lesa á vegakort og var ég aðstoðarökumaður þinn, mömmu til sérstakrar ánægju því hún var ekki alltaf í takt við þig. Sú reynsla kom sér vel og Bjarni varð svo hissa þegar við fórum til Ítalíu 2004 og ég tók strax kortið og byrjaði að lesa leiðina og þylja upp vegaskilti og hallagráður beygja.

Þú réttir mér snemma til lesturs uppáhaldsbók þína, Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hasek. Ævintýrin hans voru hreint ótrúleg og alveg í þínum anda. Þú kenndir mér snemma að vera fróðleiksfús og ef ég var með spurningu á vörunum sendir þú mig eftir alfræðiorðabókum og þannig urðum við fróðari um margt saman. Þið mamma vilduð alltaf að við systurnar lærðum á lífið af lífinu sjálfu en voruð aldrei langt undan. Eftir að mamma dó alltof snemma urðum við svo ótrúlega góðir vinir. Við hlustuðum saman á djass og þú sagðir mér margar skemmtilegar sögur, m.a. af þér frá því þú varst strákur.

Elsku pabbi, takk fyrir allt og allt. Ég er svo stolt að vera dóttir þín. Megi Guð og góðir englar vaka yfir þér elsku pabbi minn.

Ó pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson)

Þín dóttir

Hanna Sigríður.

mbl.is/minningar

Elsku pabbi minn, nú ertu laus úr viðjum þessa líkama og orðinn þú sjálfur. Þú barðist hetjulega við erfiðan sjúkdóm, Alzheimer. Ég efa ekki að það hefur verið heil móttökusveit sem tók á móti þér á þeim stað sem þú ert á núna.

Pabba var mikið í mun að kenna okkur systrum vel á lífið og allt sem því fylgir. Honum fannst að börn ættu að læra á lífið af veruleikanum og mamma og pabbi ferðuðust með okkur milli landa til að kenna okkur á heiminn. Mamma og pabbi hugsuðu vel um okkur systur og veittu okkur það sem okkur vantaði og vildum. Lét pabbi t.d. mjög fljótt undan suði mínu um að eignast hest og síðar hundinn Kolla sem pabbi elskaði mikið. Pabbi var mikill dýravinur og auðsótt mál fyrir mig að fá hann til að passa dýrin. Hann elskaði að fá að passa Lappa og Blíðu á daginn og labbaði með þau um alla Reykjavík, hitti fólk og spjallaði. Pabbi gat verið mjög skemmtilegur og mikill stríðnispúki og voru ófá skiptin sem hann sendi mig að stríða Hönnu Siggu og stóð sjálfur í fjarlægð og hló mikið. Ein af uppáhaldsbókum pabba var „Þegar við Kalli vorum strákar“. Bók full af prakkarastrikum. Ég elska þessa bók. Við pabbi höfðum mjög ólíkan tónlistarsmekk; hann alltaf að kenna mér að hlusta á djass og ég að kenna honum að hlusta á Bubba. Það gekk ekki vel. Síðar er pabbi var í heimsókn af Eir setti ég Bubba og Stórsveitina á og pabbi varð mjög hrifinn, glotti hann mikið þegar ég sagði að loks hefði ég fengið hann til að hlusta á Bubba. Ég lærði hins vegar á djass núna seinni árin í bíltúrum okkar saman, svo það er jafntefli. Pabbi var mikill göngugarpur og gekk úr sér sykursýkina. Hann var staðráðinn í að ganga líka úr sér Alzheimerinn og náði að halda sér góðum lengi en því miður náði sjúkdómurinn yfirhöndinni allt of snemma. Eftir að hann greindist gekk pabbi á sunnudögum frá miðbæ upp í Grafarvog til okkar. Hann var búinn að koma sér upp kennileitum á leiðinni svo hann rataði alltaf þótt minnið dvínaði. Pabbi var mjög glaður og félagslyndur maður og elskaði að fara með okkur Guðna í dagsferðir út á land með jeppahópnum okkar. Í einni slíkri ferð um Snæfellsnes var ákveðið að reyna við jökulinn. Færið var þungt og áhyggjur af okkur á minnsta jeppanum, hvort við kæmumst upp. Ég sagði hópnum að fara á undan og við kæmum á eftir. Pabba leist ekki vel á það svo skyndilega stökk hann út úr bílnum, gekk að næsta stóra jeppa og settist inn. Hann ætlaði á toppinn. Pabbi var mikill útivistarmaður, náttúruunnandi og veðurglöggur. Fórum við fjölskyldan í margar útilegur og Hanna Sigga kom oft með pabba í heimsókn til okkar. Pabbi bar mikla virðingu fyrir náttúrunni og var oft hræddur er við Guðni fórum í Þórsmörk. Varð ég alltaf að hringja í hann um leið og við vorum komin yfir Krossána. Pabbi leit lífið alltaf björtum augum og það voru yndisleg orð sem hann sagði er hann var orðinn veikur: „Það sem er jákvætt við Alzheimer er að ég er alltaf að kynnast nýju fólki.“ Elsku pabbi minn, gakk þú í friði og takk fyrir allar æðislegu stundirnar. Bið að heilsa mömmu.

Þín dóttir,

María Hrönn. mbl.is/minningar

Kæri tengdapabbi, Maggi minn. Ég hitti þig fyrst árið 2002 þegar ég var að kynnast konunni minni og dóttur þinni, henni Hönnu Siggu. Það tókust strax með okkur ágæt kynni enda stutt í gleðina og prakkarann í þér líkt og hjá mér sjálfum. Við fórum í ófáar ökuferðirnar ég, þú og Hanna Sigga með Satchmo, Fats, Ellu, Duke Ellington, Dave Brubeck og aðra snillinga í græjunum og það er að stærstum hluta þér og Hönnu að þakka að ég kynntist djassi af einhverju viti. Mér fannst mikið til koma hvað þú barst gott skynbragð á flugvélar og bifreiðir og gnægtabrunnur vitneskju um hvort tveggja. Ekki kom maður heldur að tómum kofunum hjá þér er veður barst í tal, vitneskja um skýjafar og veðurfræði var þér í blóð borin og nöfn á borð við nimbusa, klósiga og stratusa heyrði ég fyrst bera á góma í samræðum ykkar Hönnu og vissi fyrst ekki hvort væru heiti á blómum eða bjórtegundum. Ég man eftir stórskemmtilegum ferðum sem við fórum í með Carlsberg-bátnum og báðum Eldingunum, I og II, á stórfiskeríi í Faxaflóanum á þeim árum er við vorum í veitingabransanum, þar varstu á heimavelli enda elskur jafnt að hafinu sem himninum. Þú varst áberandi ötull við að sinna heilsunni megnið af tímanum sem hún entist, þú gekkst mikið, syntir og stundaðir hugarleikfimi til að slást við skæðan óvin. Því miður fór skepnan sú ekki mildum höndum um þig og tók þig alltof snemma á lífsleiðinni. En nú er komið að því að þú fáir aftur að sjá alla þá sem á undan þér eru gengnir og ég veit að það eru nú miklir fagnaðarfundir með þér og Konný, Nonna og aragrúa ættingja og vina, berðu þeim kæra kveðju mína og sjáumst aftur þegar almættinu þóknast.

Þinn tengdasonur

Bjarni Blöndal.

Elsku Maggi minn. Nú ert þú kominn á nýjar slóðir, sem þýðir nýjar sögur, ný fjöll, ný tónlist, nýtt veðurfar og örugglega öðruvísi flugvélar. Nokkuð sem þú átt eftir að háma í þig. Maggi var mikill unnandi allra þessara hluta og var eiginlega sérfræðingur í því öllu. Það var yndislegt að eiga góða stund með honum segjandi skemmtilegar sögur og hlustandi á góðan djass, blús eða „gargandi“ Hammondorgel. Við áttum líka frábærar stundir í útivist og ef einhver hefði sagt mér að Maggi hefði sofið með Ferðafélagsbókina undir koddanum sínum hefði ég trúað því.

Ég þakka þessum yndislega tengdaföður fyrir 14 yndisleg ár og einhvern tímann munum við gera þetta allt aftur. Takk fyrir allt og hafðu það alltaf sem allra best á nýjum slóðum.

Þinn tengdasonur,

Guðni Már.

Magnús Haukur Guðlaugsson var í blóma lífs síns tvítugur þegar hann beið eftir pabba mínum fyrir utan húsið okkar við Rauðalæk. Þeir bræður voru að fara að gera við Kollann, sem var Lincoln Zephyr '37. Á meðan hann beið kenndi hann mér sposkur að búa til snjóbolta, þá var ég þriggja ára. Eftir kennsluna héldu þeir, á Borgward Isabella '55, áleiðis í bílaviðgerðirnar.

Magnús ólst upp við gott atlæti á miklu menningarheimili. Þegar hann hafði lokið námi frá enskum verslunarskóla gerðist hann framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækisins 1963, tók þar við góðu búi eftir Hermann Hermannsson, móðurbróður sinn. Áfram sinnti hann áhugamálum sínum: bílum, flugi og djassi. Við sem deildum áhugamálum hans fengum auðfúslega að njóta þekkingar hans.

Smíði á silfurbúnaði var blómleg frá miðjum fjórða áratug síðustu aldar er faðir hans, Guðlaugur A. Magnússon, hóf framleiðslu á borðbúnaði og stærri silfurmunum eftir að hafa starfað á eigin vegum frá 1924 aðallega við skartgripasmíði og smíði á búningasilfri. Fyrirtækið undir stjórn Magnúsar var því í miklum blóma allt fram til 1980. Það ár gerðu Hunt-bræður í Texas tilraun til að ná stjórn á silfurmörkuðum. Verðhækkun á silfri olli hruni í framleiðslu silfurmuna og varð samdrátturinn á Norðurlöndum 80% og náði framleiðslan aldrei að rétta sig af. Auk þess lögðu íslensk stjórnvöld 30% vörugjald á einu smiðjuna sem þá var eftir í greininni. Kom það í hlut Magnúsar að sigla gegnum öldurótið en framleiðsla dróst saman á stuttum tíma enda ekki lengur á allra færi að fjárfesta í silfurmunum. Innflutt vara úr ódýru efni og án vörugjalds fyllti því skjótt tómarúmið sem myndaðist. Íslenskur silfurborðbúnaður hélt þó velli þótt framleiðslan sé ekki sú stóriðja sem hún var.

Í seinni tíð, eftir að hann settist í helgan stein, kom hann um skeið vikulega til okkar sem störfum á gamla verkstæði fjölskyldunnar í kaffi. Gönguleið hans lá framhjá verkstæðinu þegar hann kom úr félagsstarfi aldraðra og var á heimleið. Þá var umræðuefnið jafnan farartæki og djass. Í einni af síðustu heimsóknunum, eftir kaffisopann og kökusneið, var hann leystur út með mynd af Kollanum og var brosandi þegar hann kvaddi.

Fyrir hönd starfsfólks Ernu ehf. þakka ég Magnúsi að leiðarlokum þær stundir sem við kættumst öll saman við gamlar minningar og sameiginleg áhugamál.

Kæru systur, Hanna Sigga og María Hrönn, Bjarni Róbert Blöndal og Guðni Már Kárason, megið þið finna huggun, styrk og frið.

Ásgeir Reynisson.

Elsku Maggi minn, núna er stundin runnin upp sem við öll þurfum að horfast í augu við; að yfirgefa hið jarðneska líf og hitta okkar nánustu aftur. Ég kynntist þér árið 1983 þegar mér hlotnaðist sá heiður að vera tekinn inn í fjölskyldu þína í Hjallalandi 13. Þú varst alltaf skemmtilegur og með góðan húmor. Helst fannst þér gaman að tala um flug og gamla bíla. Þú varst mikill bíla- og flugáhugamaður.

Maggi var gull af manni og góður við sína nánustu. Hann var mikill tónlistarunnandi og var djassinn þar í mestu uppáhaldi.

Elsku Maggi minn, nú ert þú á leiðinni að hitta Korneliu konuna þína og besta vin.

Elsku fjölskylda.

Ég votta ykkur mína innilegustu samúð og megi guð blessa ykkur.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Bárður Jósef Ágústsson

og fjölskylda.

Fljótlega eftir að ég kynntist mannsefninu mínu kynntist ég líka frænku hans Kornelíu Óskarsdóttur og manni hennar Magnúsi Guðlaugssyni, sem við kveðjum frá Dómkirkjunni í dag. Þau hjónin urðu síðan miklir vinir okkar enda voru þau góð heim að sækja og frábærlega skemmtileg. Nöfnin þeirra voru svo samtengd eins og þau voru sjálf. Hann var Maggi Konnýjar í okkar huga. Þau gerðu allt saman og ráku til margra ára saman verslunina sem faðir hans, Guðlaugur A. Magnússon, hafði stofnað.

Við vorum svo heppin að ferðast margoft með þeim bæði hérlendis og erlendis og alltaf var Maggi hress og kátur og síbrosandi. Og við hin auðvitað líka kát. Þetta voru svo skemmtilegar ferðir á áhugaverða staði.

Maggi var mikill tónlistarunnandi og aðallega var það djassinn sem átti hug hans. Hann las líka mikið og áhugi hans á John Steinbeck varð til þess að ég dreif mig í að lesa bækurnar hans fyrir margt löngu og sá ekki eftir því. Hann hafði áhuga á öllum málefnum og alltaf tilbúinn í rökræður. Þurfti að kryfja allt til mergjar.

Magnús rak áratugum saman verslunina Guðlaugur A. Magnússon en dóttir hans tók við rekstri hennar fyrir allmörgum árum. Verslunin var lengst af við Laugaveg rétt fyrir ofan Klapparstíg en fluttist fyrir nokkrum árum á Skólavörðustíg. Þessi verslun hefur í árafjölda selt landsmönnum silfurborðbúnað og jólaskeiðar sem prýða borð landsmanna við hátíðleg tækifæri auk margra annarra fallegra muna.

Með Magnúsi sjáum við á eftir einstaklega góðum og merkum manni og góðum vini til áratuga. Hans verður sárt saknað.

Ég votta dætrum hans og mökum þeirra innilega samúð mína og minna nánustu.

Inga Hersteinsdóttir.

Hann flutti 10 ára gamall úr Norðurmýri á Fjölnisveginn ásamt móður sinni og systkinum um miðjan sjötta áratuginn og við urðum leikfélagar; ég á 20 og bræðurnir úr sama húsi; hann kunni fæsta af leikjum okkar, fínlegur og fríður og hrærðist mestmegnis í djasstónlist eldri bræðra sinna og þaðan af fjarstæðukenndari hugmyndaheimi sem þeir höfðu allir haft að heiman frá sér á Guðrúnargötu frá því áður en faðirinn yfirgaf fjölskylduna. Mannsaldri seinna, að mér finnst, sagði kona hans um okkur þrjú, eftir svallsama nótt: Ég veit hvers vegna við erum svona. Hvers vegna? spurði ég. Hún svaraði af mikilli alvöru: Vegna þess að við erum öll skilnaðarbörn. Tilfinningalega rétt, þótt ekki sé alveg samkvæmt bókstafnum. Maggi lifði tímann fram á hjúskaparárin í furðulegri samhræru hugmynda frá því á stríðsárunum; ég náði best okkar leikfélaganna að finna mig á bernskuheimili hans, í félagsskap hans, við fróðleik um bifreiðir millistríðsáranna, herflugvélar, kynþáttaöfgar og Saint Louis-djass, sem nánast var sem hjartsláttur heimilisins þrátt fyrir vestfirsk einkenni móður og dóttur í glæsihúsi fjölskyldunnar við Fjölnisveg.

Á hippatímanum var fjölmenni um nætur hjá þeim Konní í Hjallalandi; gullkónginum eins og hinir yngri gestir kölluðu hann. Sjálfur ástundaði ég fyrr og síðar að sitja þar um nætur með þeim hjónum í raðhúsi þeirra í Fossvogi, og oftsinnis einnig bernskuvininum Nonna, sem fór í fyrra; ég leitaði þessa vinskapar eftir einhæft skemmtanahald á einhverju af veitingahúsum borgarinnar. Ég var að leita að borgaraskap en kunni þeirri leit engin orð heldur sótti upplifunina til Magga og þess mannlífs sem ástundað hafði verið í nánasta umhverfi hans alla hans tíð; manns sem frá fæðingu hafði verið innrætt að taka við fjölskyldufyrirtæki; verða forstjóri Gull- og silfursmiðjunnar Ernu. Hann varð með tíð og tíma framkvæmdastjóri verslunar við Laugaveg sem sérhæfði sig í sölu afurða þessa fyrirtækis sem faðir hans hafði komið á fót á árunum eftir stríð. Við áttum minningar sameiginlega sem urðu Magga kærari með árunum og eftir 2004, þegar Alzheimer-sjúkdómurinn var farinn að setja merki sín á hann, urðu þær hinar helstu sem hann bar upp við þá sem á hann vildu hlusta; frá héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem við vorum saman einn vetur; frá flakki erlendis eftir sumarskólann í Berkeshire suður til Parísar á puttanum. Við ferðuðumst líka um landið saman á Ranger Rovernum hans; oftar var það ég sem átti frumkvæðið. Hann svaraði: Til er ég og til er Bogi. Ég kvaddi hann á Eir, og naut þeirrar angurværðar að hann þekkti mig – en sjúkur hugur hans hafnaði að láta honum eftir framhald í minningum eða samlyndi eins og fyrrum var. Og nú er hann allur.

Með kveðju til dætra hans tveggja. Ég vona að þær fyrirgefi mér hve oft ég hélt vöku fyrir þeim á heimili þeirra á bernskuárunum. Ég hef mér það eitt til afsökunar að mér var alltaf tekið sem aufúsugesti.

Næturnar óteljandi liðu eins og gandreið um alstirndan himin.

Þorsteinn Antonsson.

Mig langar til að minnast Magnúsar, góðs vinar frá fyrri árum. Hann kvæntist síðar góðri vinkonu minni, Konný, þau voru alla tíð mjög samhent. Þau eignuðust tvær dætur, Hönnu Sigríði og Maríu Hrönn. Konný varð bráðkvödd langt um aldur fram og var mikil eftirsjá að henni. Ég held að Maggi hafi aldrei náð sér fyllilega eftir það, varð mjög einmana, svo stórt var það högg. Nú kveðja þær systur pabba sinn eftir erfiðan sjúkdóm. Þau kynntust ung að árum, ég var svo lánsöm að eiga þau að vinum og var það góður og skemmtilegur tími.

Ég kynntist Konný þegar við vorum 13 ára. Í 3. bekk í gaggó stofnuðum við saumaklúbb ásamt fleirum og hittumst við stelpurnar enn reglulega. Nokkrum sinnum fór saumaklúbburinn í útilegur með allan barnahópinn og var þá glatt á hjalla. Þar fyrir utan áttum við góðar stundir saman ásamt mökum, en seinni árin hefur orðið minna um það.

Maggi minn, ég veit að þér mun líða vel á þeim stað sem þú ert nú kominn á og elsku Konný þín tekur á móti þér og allt þitt fólk.

Hanna Sigríður, María Hrönn og makar, ég bið góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Hvíldu í friði, kæri vinur

þú kominn ert í himnavist.

Til þess er allar þrautir linar

og þeirra er fyrr þú hefur misst.

(I.K.)

Freyja.