Magnús Haukur Guðlaugsson fæddist á Guðrúnargötu 2 í Reykjavík hinn 20. desember 1943. Foreldrar hans voru María Hermannsdóttir húsmóðir, frá Ketilseyri við Dýrafjörð, f. 4. september 1905, d. 15. maí 2001, og Guðlaugur Ásberg Magnússon, gullsmiður og hljómlistarmaður í Reykjavík, f. 16. desember 1902, d. 13. nóvember 1952. Magnús var yngstur af fjórum systkinum. Elstur var Reynir gullsmiður, f. 3. apríl 1930, d. 24. desember 2001. Óttar H. verkstjóri, f. 8. október 1931, d. 3. september 1991. Jónína E. húsmóðir, f. 15. nóvember 1933. Magnús ólst upp á Fjölnisvegi 10 í Reykjavík. Magnús kvæntist hinn 29. ágúst 1964 Kornelíu Óskarsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 16. desember 1943, d. 20. desember 1994. Kornelía var dóttir Óskars Axels Sigurðssonar, bakarameistara og stofnanda Myllunnar, og Guðbjargar Sigríðar Kornelíusdóttur húsmóður. Dætur Magnúsar og Kornelíu eru: 1) Hanna Sigríður, f. 17. júlí 1963, viðskiptafræðingur frá Bandaríkjunum, gift Bjarna Róbert Blöndal, f. 21. nóvember 1973, ráðgjafa. 2) María Hrönn, f. 11. júlí 1967, lagerstjóri á skurðstofum kvenna á Landspítalanum, gift Guðna Má Kárasyni sjúkraliða, f. 6. febrúar 1961. Magnús stundaði verslunarnám í London og árið 1963 tók hann við rekstri verslunar föður síns, Guðlaugs A. Magnússonar, af móðurbróður sínum Hermanni Hermannssyni sem hafði rekið fyrirtækið frá fráfalli Guðlaugs. Á fjöldamörgum heimilum á Íslandi eru til jólaskeiðar sem Magnús hafði veg og vanda af framleiðslu á frá árinu 1963. Hanna Sigríður tók við rekstri verslunar Guðlaugs A. Magnússonar af föður sínum Magnúsi árið 2005. Magnús hafði starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fjölmörg ár og lengi í Lionsfélagi Reykjavíkur og sat þar í stjórn um árabil sem formaður og gjaldkeri. Hann hafði mikinn áhuga á flugi og tók einkaflugmannspróf og rak flugskóla með flugkennara sínum í einhver ár samhliða verslunarrekstri sínum. Magnús barðist hetjulega við sjúkdóm sinn, Alzheimer, en varð að lokum að lúta í lægra haldi alltof fljótt. Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku pabbi minn. Nú ert þú laus úr viðjum þessa erfiða líkama og orðinn þú sjálfur. Þú barðist hetjulega við þennan erfiða sjúkdóm sem Alzheimer er. Ég efa það ekki að það hefur verið heil móttökusveit sem tók á móti þér á þeim stað sem þú ert á núna. Örugglega eru Foringjarnir þú og Nonni þegar byrjaðir með prakkarastrik mömmu til ómældrar mæðu. Pabba var mikið í mun að kenna okkur systrum vel á lífið og allt sem því fylgir. Var hann á þeirri skoðun að það ætti ekki að ala börn upp vafin í bómull og börn ættu að læra á lífið af veruleikanum. Takk fyrir það pabbi. Þurfti maður oft að standa á eigin fótum. Mamma og pabbi ferðuðust með okkur milli landa til að kenna okkur á heiminn líka. Mamma og pabbi hugsuðu vel um okkur systur og voru tilbúin að veita okkur það sem okkur vantaði og vildum. Lét pabbi t.d. mjög fljótt undan suði mínu að eignast hest og seinna hundinn Kolla sem pabbi elskaði svo mikið að hann yfirvann ofnæmi sem hann hafði. Pabbi var mikill dýravinur og var því auðsótt mál fyrir mig að fá hann til að passa fyrir mig hvort sem var kettina eða hundana. Hann elskaði að fá að passa hundinn Lappa og seinna Blíðu mína á daginn á meðan ég vann og labbaði hann með þau um alla Reykjavík og hitti fólk og spjallaði.

Pabbi gat verið mjög skemmtilegur og mikill stríðnispúki og það voru ófá skiptin sem hann sendi mig inn í herbergi til Hönnu Siggu á morgnana að stríða henni og stóð sjálfur í fjarlægð og hló mikið. Ein af uppáhaldsbókum pabba var Þegar við Kalli vorum strákar og lagði hann mikla áherslu á að ég læsi hana. Bók full af prakkarastrikum. Ég elska þessa bók.

Við pabbi höfðum mjög ólíkan tónlistarsmekk og var hann alltaf að reyna að kenna mér að hlusta á jazz og ég að reyna að kenna honum að hlusta á Bubba á móti. Gekk ekki vel. Svo var það núna hin síðari ár er pabbi var að koma til okkar í heimsókn af Eir að ég setti Bubba og Stórsveitina á og pabbi varð mjög hrifinn. Það kom mikið glott á hann þegar ég sagði honum að loksins hefði ég fengið hann til að hlusta á Bubba. Ég hins vegar lærði að hlusta á jazz núna seinni árin þegar ég var að sækja hann á Eir og fara með í bíltúr og þá dundi jazz í tækinu allan tímann. Svo það er jafntefli.

Pabbi var mikill göngugarpur og gékk hann úr sér sykursyki sem hafði hrjáð hann til margra ára. Var hann staðráðinn í að ganga úr sér Alzheimerinn líka og gekk honum vel að halda sjúkdómnum niðri í langan
tíma en því miður náði sjúkdómurinn yfirhöndinni allt of snemma. Gekk pabbi alltaf á sunnudögum eftir að hann greindist frá  miðbæ og upp í Grafarvog til okkar Guðna. Hann var búinn að koma sér upp kennileitum á leiðinni þannig að hann rataði alltaf þó minnið væri farið að bresta. Ef hann tók ranga beygju og villtist var hann ótrúlega naskur að finna rétta leið og ekki mátti koma að sækja hann strax. Hann var ekki tilbúinn að gefast auðveldlega upp sem skýrir hvernig hann náði að berjast svona lengi á móti sjúkdómnum.

Pabbi var mjög glaður og félagslyndur maður og elskaði hann að fara með okkur Guðna í dagsferðir út á land með jeppahópnum okkar. Þar gekk hann á milli fólks og spjallaði og sagði sögur. Var það einmitt í einni slíkri ferð er við vorum á ferð um Snæfellsnes að ákveðið var að reyna við jökulinn þar sem veður og útsýni var með besta móti. Þegar komið var upp að snjó var stoppað til að hleypa úr dekkjum. Færið var þungt og komu upp áhyggjur af okkur því við vorum á minnsta jeppanum hvort við kæmumst upp. Það var verið að keppast við tímann og því sagði ég hópnum að fara á undan okkur og við kæmum á eftir þeim ef ekki þá myndu þeir draga okkur upp á baka leiðinni. Þetta leist pabba ekki vel á svo skyndilega stekkur pabbi út úr bílnum og gengur ákveðinn að næsta stóra jeppa og sest inn. Hann ætlaði á toppinn. Við komumst nú líka en vorum aðeins lengur á leiðinni. Pabbi var mikill útivistamaður, náttúruunnandi og veðurglöggur með eindæmum. Fórum við fjölskyldan í margar útilegur á sumrin. Við Guðni förum mikið í útilegur á sumrin og var það nokkuð oft sem Hanna Sigga kom með pabba í heimsókn til okkar. Var það í eitt skipti sem við vorum á Laugarvatni að pabbi varð eftir hjá okkur. Við buðum honum að sofa hjá okkur inni í vagni en nei hann ætlaði að sofa í tjaldinu sínu og var hann alsæll eftir að kúldrast í kúlutjaldinu sínu alla nóttina.

Pabbi bar alltaf mikla virðingu fyrir nátturinni og var hann oft hræddur þegar við Guðni vorum að fara í Þórsmörk að vetri til. Varð ég alltaf að hringja í hann um leið og við vorum komin yfir Krossánna. Pabbi leit lífið alltaf björtum augum og það voru yndisleg orð sem hann sagði er hann var orðinn veikur: "Það sem er jákvætt við Alzheimer er að ég er alltaf að kynnast nýju fólki".
Elsku pabbi minn gakk þú í friði og takk fyrir allar æðislegu stundirnar sem við höfum átt saman. Bið að heilsa mömmu.

Skilaboð frá Blíðu: Elsku afi
Takk fyrir að vera alltaf svona góður við mig. Þú skammaðir mig aldrei og alltaf varðir þú mig þegar ég mátti ekki sníkja eða naga skó. Þú hlóst bara þegar þú sýndir fólki nöguðu inniskóna þína. Alltaf varstu tilbúinn að klappa mér og fara með mig í göngutúra um bæinn og niður á tjörn. Ég gerði samkomulag við þig um að ég léti fuglana í friði. Takk fyrir alla pössunina því alltaf varst þú tilbúinn að vera með mig.
Þín dóttir,



María Hrönn.

Elsku pabbi minn nú hefur erfiðu stríði þínu við hinn illvíga sjúkdóm Alzheimer tekið enda.  Þú varst svo duglegur að reyna að vinna gegn áhrifum sjúkdómsins.  Gekkst fleiri km á hverjum degi, syntir og hugsaðir um hvað þú borðaðir og leystir krossgátur.  Þú varst glaður og kátur og ætlaðir alls ekki að gefast upp fyrir þessum sjúkdómi.  Þú hafðir gengið úr þér sykursýkina nokkrum árum fyrr og varst því ekki lengur háður insúlíni. Maður stendur frammi fyrir lífinu máttvana og hjálparlaus og horfir á þig hverfa manni á braut en svona er nú lífið eins og þú sagðir alltaf.

Það hellast yfir mig minningarnar hver á fætur annarri því sem betur fer eru þær svo margar og góðar.  Þú varst alltaf svo hress og skemmtilegur og alltaf til í eitthvað skemmtilegt hvort sem það var að þeytast Þingvallahringinn fyrir hádegi á sunnudegi eða fara og sigla með afa á Faxaflóa og horfa á kvöldsólina og hnýsurnar leika sér rétt við trilluna. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með þér í svo mörg ár og hversu stolt ég er af að geta tekið við keflinu af þér við að hanna og smíða jólaskeiðarnar.  Ég handleik svo oft skeiðarnar eftir þig og dáist að því hvað þú varst mikill hugmyndasmiður og listamaður því aldrei skorti þig hugmynd af myndefni. Alveg frá því að ég var lítil var ég svo spennt að fá að sjá hugmynd fæðast að nýrri skeið. Það gerðist á ýmsan máta að listagyðjan blés þér í brjóst, hugmyndin kom stundum í draumi, stundum eftir langa dvöl einn inn í herbergi eða á þeytingi um landið á Range Rovernum er þú sást sæta litla sveitakirkju eða burstabæ sem varð síðan að undurfögrum smíðagrip úr silfri.

Ég varð svo óskaplega glöð þegar þú bauðst mér að koma með þér og mömmu til Kaupmannahafnar til að hitta Henrik Fogh sem hafði séð um verkfæragerð fyrir jólaskeiðina frá því afi byrjaði að smíða hana.  Þú varst svo fróðleiksfús og víðlesinn og hvattir mig til mennta og að læra á heiminn. Ég var einungis 11 ára þegar þú réttir mér bók á ensku og sagðir gott að byrja að lesa ensku snemma til að ná tökum á málinu. Fyrsta bókin sem ég las á ensku var Mýs og menn eftir John Steinbeck og það voru ófáar ferðirnar á milli hæða í Hjallalandinu þegar ég þurfti að spyrja út í þýðingu orða. Síðan las ég allar bækurnar eftir John Steinbeck og hafði gaman af og náði snemma ágætum tökum á enskri tungu.

Þú varst svo góður að senda mig í tungumálaskóla til Bandaríkjanna eftir að ég lýsti áhuga mínum á því að fara í háskóla ytra að loknu stúdentsprófi. Mér er ennþá svo minnistætt þegar  þú og mamma komuð út til New York eftir að við María Hrönn systir vorum búnar að eyða sumrinu í að læra ensku og við fórum öll fjölskyldan ásamt Konna frænda, þáverandi konu hans Ingu og dóttur þeirra Önnu Margréti í þvílíkt ferðalag. Við keyrðum Bandaríkin þver og endilöng,og þá fórum við saman á slóðir Steinbecks í Kaliforníu.  Þetta var ógleymanleg ferð og þvílík forréttindi að fá að kynnast ykkur og Ameríku á þennan hátt. Í þessari ferð kenndirðu mér á vegaskilti og að lesa á vegakort og var ég því aðstoðarökumaður mömmu til sérstakrar gleði því hún var ekki alltaf í takt við þig.  Sú þekking hefur aldeilis komið sér vel og maðurinn minn Bjarni varð svo hissa þegar við fórum í ferð til Ítalíu stuttu eftir að við kynntumst og keyrðum um alla Ítalíu. Ég tók strax kortið og byrjaði að lesa leiðina og þylja upp vegaskilti með hallagráðum beygja.

Það má nú ekki gleyma að minnast á uppáhalds bók þína Góða dátann Sveik eftir Jaroslav Hasek  sem þú réttir mér snemma til lesturs. Ævintýrin hans voru hreint ótrúleg og alveg í þínum anda. Þú kenndir mér snemma að vera fróðleiksfús og hvernig best væri fyrir mig að viða að mér upplýsingum um alla hluti og ef ég var með spurningu á vörunum þá sendir þú mig bara eftir alfræðiorðabók og sagðir mér að fletta því upp og lesa það fyrir þig og þannig urðum við fróðari um margt.  Þú og mamma vilduð alltaf að við systurnar lærðum á lífið af lífinu sjálfu en voruð nú aldrei langt undan til að fylgjast með að allt gengi vel í þeim efnum. Eftir að mamma dó alltof snemma þá urðum við svo ótrúlega góðir vinir. Við hlustuðum saman á jazz og þú sagðir mér margar skemmtilegar sögur sem eru svo dýrmætar minningar í dag.  Þú áttir svo margar skemmilegar sögur af þér frá því þú varst strákur.  Sögur af því þegar þú dast í sjóinn á Ísafirði þegar þú varst þar á sumrin hjá Betu frænku þinni.  Sögur af þér og Nonna æskuvini þínum og öllu sem þið brölluðuð fram eftir öllum aldri.  Prakkarastrikunum sem þú og Steini vinur þinn brölluðuð á Laugarvatni þegar þið voruð þar í skóla.  Þið tókuð öryggin úr rafmagnstöflunni og földuð svo þið gætuð fengið frí í tíma.

Elsku pabbi minn nú ertu komin til hennar mömmu og allra hinna sem tóku á móti þér með opin faðminn.  Elsku pabbi takk fyrir allt og allt.  Megi Guð og góðir englar vaka yfir þér. Ég ætla ljúka þessu á þessum texta sem ómar í hausnum á mér og við hlustuðum svo oft á með Björk á Gling-gló disknum.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.
Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.
Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.
Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson.)

Þín dóttir,

Hanna Sigríður.