21. janúar 2013 | Árnað heilla | 604 orð | 3 myndir

Arnar Jónsson leikari – 70 ára

Á leiksviði gegnum lífið

Leikara- og leikstjórafjölskylda Heiðurshjónin Arnar Jónsson leikari og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, með börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Á myndina vantar þó sonarsoninn Viktor Huga.
Leikara- og leikstjórafjölskylda Heiðurshjónin Arnar Jónsson leikari og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, með börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Á myndina vantar þó sonarsoninn Viktor Huga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar fæddist á Akureyri, stundaði nám við MA og lauk prófi úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1964. Arnar lék Hans í Hans og Grétu hjá LA er hann var tólf ára og lék síðan nokkuð samfellt eftir það hjá LA og hjá MA.
Arnar fæddist á Akureyri, stundaði nám við MA og lauk prófi úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1964.

Arnar lék Hans í Hans og Grétu hjá LA er hann var tólf ára og lék síðan nokkuð samfellt eftir það hjá LA og hjá MA. Hann lék með Grímu 1962-66, við Þjóðleikhúsið og LR 1964-65, var fastráðinn við LR 1965-67, var einn stofnanda og leikari í Leiksmiðjunni 1967-69, leikari við LA 1969-71, fastráðinn þar 1973-75, var einn stofnanda og leikari við Alþýðuleikhúsið á Akureyri 1975-78 og síðan við sunnandeild þess, hefur verið fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið frá 1978 og auk þess leikið með fjölda leikhópa og farið aragrúa leikferða vítt og breitt um landið.

Aðalhlutverk Arnars á leiksviði eru nú orðin álíka mörg og æviárin. Fyrsta stóra hlutverk Arnars var titilhlutverkið í Gísl í Þjóðleikhúsinu 1963 og á hann því 50 ára leikafmæli á þessu ári.

Meðal nokkurra eftirminnilegra hlutverka Arnars má nefna Jóa í Syni skóarans og dóttur bakarans; Þorleif Kortsson í Skollaleik; Pétur í Bílaverkstæði Badda; titilhlutverkið í Abel Snorko býr einn; Þeseif konung í Fedru; Bjart í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki; James Tyrone yngri í Dagleiðinni löngu inn í nótt, og í fyrra James Tyron eldri í sama verki; Pétur Gaut eldri í Pétri Gaut; Kreon konung í Antígónu; Jón biskup Arason í Öxinni og jörðinni; einlæk í Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson en verkið var sérstaklega skrifað fyrir Arnar; Galdr-Loft hjá Leiksmiðjunni; Don Juan í Steingestinum; Makka hníf í Túskildingsóperunni; Henry Higgins í My Fair Lady; Al í Undir berum himni; Lögmann Eydalín í Íslandsklukkunni; titilhlutverkið í Kaj Munk í Kirkjuleikhúsinu, og titilhlutverk í Lé konungi.

Arnar hefur leikið í fjölda útvarpsleikrita um áratuga skeið. Meðal kvikmynda sem Arnar hefur leikið eru Útlaginn, 1981; Á hjara veraldar, 1983; Atómstöðin, 1984; Karlakórinn Hekla, 1992; María, 1997; Dansinn, 1998; Mávahlátur, 2001;Njálssaga, 2004, og Bjarnfreðarson, 2010. Þá lék hann í sjónvarpsþáttunum Ørnen: En krimi-odyssé, 2006; Næturvaktin, 2007; Fangavaktin, 2009 og fjölda annarra sjónvarparsþátta.

Arnar hefur stundað leiklistarkennslu og leikstýrt bæði á sviði og í útvarpi og er mikilvirkur ljóðalesari.

Arnar var formaður Leikarafélags Íslands, formaður samninganefndar FÍL við Ríkisútvarpið og Þjóðleikhúsið og sat í stjórn golfklúbbsins Odda 1998-2002.

Arnar hefur þegið Listamannalaun, hlaut Stefaníustjakann 1971, styrk úr Menningarsjóði Þjóðleikhússins 1985, Menningarverðlaun DV 1988; hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi 2011, var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir leik sinn í Veislunni og síðar í Þrettándakvöldiog hefur þegið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun í golfíþróttinni.

Fjölskylda

Arnar kvæntist 8.10. 1965 Þórhildi Þorleifsdóttur, f. 25.3. 1945, leikstjóra og fyrrv. alþm. og leikhússtjóra. Hún er dóttir Þorleifs Guðmundssonar, f. 28.11. 1911, d. 18.9. 1992, og Guðrúnar Bergsdóttur, f. 4.12. 1915, d. 9.6. 1992.

Börn Arnars og Þórhildar eru Guðrún Helga, f. 15.7. 1964, d. 16.5. 2003, var flugfreyja, nuddari, producent og fleira, var gift Geir Sveinssyni, fyrrverandi handknattleiksmanni og nú þjálfara, og er sonur þeirra Arnar Sveinn og fósturdóttir Ragnheiður Katrín; Sólveig, f. 26.1. 1973, leikkona en maður hennar er Jósef Halldórsson, arkitekt og leikmyndagerðarmaður og eru synir þeirra Halldór Dagur, Arnar og Egill; Þorleifur Örn, f. 15.7. 1978, leikstjóri en kona hans er Anna Rún Tryggvadóttir myndlistarkona og er sonur hennar Flóki en sonur þeirra er Tryggvi Þór; Oddný, f. 1.5. 1980, vinnur að ferðamálum en maður hennar er Rögnvaldur Bjarnason tölvufræðingur; Jón Magnús, f. 10.8. 1982, leikari og nemi, en sonur hans er Viktor Hugi.

Systir Arnars er Helga Elínborg Jónsdóttir, f. 28.12. 1945, leikkona í Reykjavík, gift Örnólfi Árnasyni rithöfundi og eiga þau fjögur börn.

Fóstursystir Arnars er Arnþrúður Jónsdóttir, f. 6.12. 1955, táknmálstúlkur.

Foreldrar Arnars voru Jón Kristinsson, f. 2.7. 1916, d. 16.8. 2009, forstöðumaður á Akureyri, og Arnþrúður Ingimarsdóttir, f. 12.7. 1918, d. 22.4. 1993, húsfreyja.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.