Boðorðin tíu, sem skráð eru í annarri bók Móse, eru raunar flest bönn frekar en boð: þau leggja taumhaldsskyldur á menn frekar en verknaðarskyldur, eins og siðfræðingar orða það.

Boðorðin tíu, sem skráð eru í annarri bók Móse, eru raunar flest bönn frekar en boð: þau leggja taumhaldsskyldur á menn frekar en verknaðarskyldur, eins og siðfræðingar orða það. Eina boðorðið, sem leggur á menn verknaðarskyldu, er hið fimmta: „Heiðra föður þinn og móður þína.“ Hvað sem því líður, hefur mörgum manninum reynst erfiðast að fara eftir sjöunda boðorðinu: „Þú skalt ekki drýgja hór“, að minnsta kosti í upprunalegri merkingu orðsins, þegar bannað er allt kynlíf utan hjónabands og jafnvel öll sú kynhegðun, sem ekki stuðlar að fjölgun mannkyns. Ein útgáfa Biblíunnar á ensku, sem kom á prent 1631, hlaut nafnið „The Wicked Bible“ eða Biblían illa, af því að þar hafði orðið „not“, ekki, fallið niður í sjöunda boðorðinu, svo að þar stóð: „Thou shalt commit adultery“, þú skalt drýgja hór.

Andríkir menn hafa fetað í fótspor Móse og samið fleiri boðorð. Sænski ritstjórinn Sigge Ågren sagði til dæmis, að boðorð góðra blaðamanna ætti að vera: Elska skaltu lesendur þína meira en sjálfan þig. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken kvað ellefta boðorðið hljóða svo: Þú skalt ekki skipta þér af því, sem þér kemur ekki við. Önnur tillaga og algengari er: Þú skalt ekki láta standa þig að verki. Hefur breski rithöfundurinn Jeffrey Archer samið heila skáldsögu um það boðorð, The Eleventh Commandment (1998). Í Kaliforníu, þar sem unglegt útlit er mikilvægt í skemmtanaiðnaðinum, er ellefta boðorðið sagt vera: Þú skalt ekki eldast. En sjálfum finnst mér viturlegasta tillagan um ellefta boðorðið vera sú, sem Milton Friedman gerði: Þú skalt ekki gera góðverk þin á kostnað annarra.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is