— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eva Rún Michelsen skrifstofustjóri er með bakaragenin í blóðinu og veit ekkert betra en margra klukkutíma bakstur. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Ég er búin að lifa og hrærast í kringum kökur og bakstur alla ævi enda er ég bakaradóttir,“ segir Eva Rún Michelsen. Afi hennar og amma ráku Másbakarí í Þorlákshöfn í 25 ár og sjálf segist hún lengi hafa verið á leiðinni að læra greinina, en örlögin hafa hingað til leitt hana annað. Þannig starfar hún sem skrifstofustjóri hjá Íslenska sjávarklasanum sem er fyrirtæki sem eflir tengslanet milli fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi og um allan heim. Að loknum vinnudegi á baksturinn þó hug hennar allan.

„Mér finnst afar slakandi að baka og það dreifir huganum. Ég get staðið í átta tíma við bakstur án þess að finna fyrir því. Fyrir um tveimur árum ákvað ég svo að sýna það sem ég er að gera á bloggsíðunni kokudagbokin.is því ég var alltaf að fá fyrirspurnir frá fólki sem var að spyrja mig hvernig ég færi að hinu og þessu. Ég tek það samt fram að ég baka aðeins fyrir mína nánustu og tek ekki að mér bakstur fyrir aðra en þykir afar skemmtilegt að geta aðstoðað í gegnum bloggið og svara fyrirspurnum sem berast í tölvupósti.“

Makkarónubakstrinum kynntist Eva Rún fyrst í meistaranámi við Háskóla Íslands og gegnum kennara sem hún sótti tíma hjá. „Hún benti mér á skemmtilega bók eftir konu sem vinnur hjá Nasa og gerir makkarónur í frístundum og þar sá ég þessa turna fyrst og fannst þetta skemmtileg áskorun. Ég ákvað svo að prófa þetta á dögunum og það gekk bara svona vel.“ Þess má geta að í versluninni Allt í köku verður turn eftir Evu Rún til sýnis í næstu viku en verslunin sérhæfir sig í ýmsum kökuvörum, til að mynda með því sem þarf til makkarónubaksturs.

Franskur makkarónuturn

Makkarónur

210 g flórsykur

125 g möndlumjöl

115 g eggjahvítur, aðskildar a.m.k. 1-4 dögum áður og geymdar í kæli en hafðar við stofuhita nokkrum klst. áður en bakstur hefst

50 g sykur

½ tsk. eggjahvítuduft (má sleppa)

Matarlitir eftir smekk

Aðferð:

1. Vigtið allt hráefnið.

2. Sigtið möndlumjölið og flórsykurinn saman og endurtakið það 2-3 sinnum.

3. Þeytið eggjahvítur og eggjahvítuduft á miðlungshraða í 1-2 mínútur og bætið svo strásykrinum út í, með einni matskeið í einu. Þeytið þangað til stífir og beinir toppar myndast. Ef blandan krullast upp á endann þarf að þeyta meira.

4. Blandið saman þurrefnunum og eggjahvítunum með sleif, setjið matarlitinn út í. Hrærið vel saman eða þangað til blandan er orðin hæfilega blaut. Gott viðmið er að þegar deigið er látið falla af sleifinni myndi það einskonar borða sem hverfur aftur í deigið á um það bil 15-18 sekúndum. Markmiðið er að hafa rétt magn af lofti í kökunum, ef loftið er of mikið lyftast þær of hratt og springa. Ef loftið er of lítið myndast ekki fótur sem gefur kökunum sitt einkennandi útlit.

5. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið beint niður hringi sem eru 2-3 cm að þvermáli. Kökurnar munu svo leka aðeins og stækka. Skellið plötunni aðeins í borðið á alla kanta ef þarf, það hjálpar við að mynda „fótinn“. Leyfið þessu að standa í skamma stund eða þangað til deigið festist ekki við fingur ef snert er á því léttilega. Gæti tekið 10-30 mínútur, fer eftir eftir hita og rakastigi. Hitið ofninn í 160°C og notið engan blástur.

6. Bakið eina plötu í einu í næstefstu rim í 12 mínútur. Athugið að bökunartími getur verið mismunandi eftir því hvernig ofninn er.

Smjörkremsfylling

50 g ósaltað smjör

50 g smjörlíki

3 dl (ca. 150 g) flórsykur

vanilludropar eða önnur bragðefni eftir smekk

litir eftir smekk

Aðferð:

Þeytið hráefnin vel saman þangað til kremið er hvítt og loftkennt. Bætið þá matarlit við eftir smekk.

Súkkulaði ganache-fylling

200 ml rjómi

170 g súkkulaði, t.d. suðusúkkulaði

Aðferð:

Súkkulaðið brotið í bita og rjóminn hitaður að suðu og hellt yfir súkkulaðið. Leyfið þessu að standa í um 30 sekúndur og hrærið svo saman þannig að blandist vel. Kremið þarf að fá að standa og kólna við stofuhita áður en hægt er að sprauta. Hægt er að útbúa kremið viku áður en ráðist skal í baksturinn og geyma í loftþéttu íláti í ísskáp.

Sítrónukremfylling

125 ml ferskur sítrónusafi

2 msk. ósaltað smjör

3 stór egg

1 stór eggjarauða

1 1/4 dl sykur

1/4 tsk. vanilludropar

hnífsoddur af salti

Aðferð:

Hitið saman sítrónusafa og smjör í potti við meðalhita, rétt þangað til fer að sjóða.

Pískið saman egg og eggjarauðu í hitaþolinni skál, bætið svo sykrinum rólega saman við.

Hellið sítrónublöndunni rólega yfir og pískið jafnóðum.

Setjið allt saman aftur í pottinn og á helluna við meðalhita. Hrærið stanslaust með viðarsleif þangað til blandan þykknar eða í um 2-5 mínútur.

Sigtið blönduna í hreina skál, setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp í ca. 1-2 tíma áður en kremið er notað.

Hægt er að gera þetta krem allt að 5 dögum fram í tímann, geyma í vel lokuðu íláti í ísskáp.