Í fjöruferð Sveinbjörg og John með sínu fólki í gönguferð en Sveinbjörg er mikil útivistarkona.
Í fjöruferð Sveinbjörg og John með sínu fólki í gönguferð en Sveinbjörg er mikil útivistarkona.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinbjörg fæddist á Siglufirði, var í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, hóf níu ára píanónám við Tónlistarskóla Karlakórsins Vísis á Siglufirði hjá Hauki Guðlaugssyni, stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jóni Nordal,...

Sveinbjörg fæddist á Siglufirði, var í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, hóf níu ára píanónám við Tónlistarskóla Karlakórsins Vísis á Siglufirði hjá Hauki Guðlaugssyni, stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jóni Nordal, stundaði síðan nám við tónmenntakennaradeild skólans og lauk tónmenntakennaraprófi, stundaði nám í píanóleik við Guildhall School of Music and Drama hjá Thomas Rajna, ungverskum píanóleikara og tónskáldi, og fékk þar The School pinano prize auk þess sem hún var á námsstyrk frá Lundúnaborg, útskrifaðist með einleikarapróf og kennarapróf í píanóleik og einsöng 1968 og stundaði þar framhaldsnám í píanóleik og söng og var síðar eitt ár við Princeton í Bandaríkjunum, við Westminster Choir College og sótti tíma í píanóleik, einsöng, ungbarnakennslu, hópkennslu á píanó og undirleik hjá Dalton Baldwin og tók þátt í fjölda námskeiða, m.a. hjá Dalton Baldvin og Gerard Souzay.

Byrjaði að salta síld átta ára

Sveinbjörg ólst upp við síldarævintýri: „Ég var átta ára þegar ég byrjaði að salta og svo hlustaði maður á karlana á bátabylgjunni á kvöldin. Bæjarbragurinn var líka sérstakur með allt þetta aðkomufólk, víðs vegar að.

Síðan var ég virk í skátastarfi á Siglufirði á unglingsárunum.“

Sveinbjörg kenndi píanóleik við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og tónmennt við Melaskólann á námsárunum í Reykjavík, kenndi síðar píanóleik við einkaskóla í Surrey, við Tónskóla Sigursveins eftir heimkomuna 1972, var undirleikari fyrir söngnemendur í Tónskóla Sigursveins og við Tónlistarskólann í Kópavogi, lék með hinum ýmsu kórum á tónleikum innan lands og utan, hafði frá 1985 umsjón með deild Tónlistarskóla Garðabæjar á Álftanesi og hefur verið skólastjóri Tónlistarskóla Álftaness frá stofnun, 1987.

Sveinbjörg var meðlimur í The New Opera Company chorus og söng m.a. í Sadler's Wells opera house.

Hún lék með kammerhópum, m.a. Einari Jóhannessyni klarinettleikara, Bernhard Wilkinson flautuleikara, Hafsteini Guðmundssyni fagottleikara og John Collins sellóleikara. Hún lék hér á fyrstu básúnutónleikum sem haldnir voru á Íslandi með bandaríska básúnuleikaranum William Gregory sem þá var 1. básúnuleikari í Sinfóníunni.

Sveinbjörg hélt tónleika fyrir tvo flygla fyrir Musica Nova, ásamt fyrrverandi nemanda, Ástmari Ólafssyni, lék á fjölda ljóðatónleika, víða um land og í New York og í Boston með John Speight.

Sveinbjörg var einn af stofnendum Dægradvalar, félags menningar og lista á Álftanesi, sat í stjórn þess um árabil og var bæjarfulltrúi á Álftanesi um skeið.

Fjölskylda

Eiginmaður Sveinbjargar er John Speight, f. 27.2. 1945, tónskáld og einsöngvari, sonur Johns Speights pósthússtarfsmanns og Annie Speight húsfreyju.

Synir Sveinbjargar og Johns eru Sveinn Vilhjálmur Speight, f. 13.3. 1973, ljósmyndari í Hafnarfirði, en kona hans er Sylvía Ósk Kristínardóttir háskólanemi og eru börn þeirra Leó Anthony, Isabella Alexandra og Lúkas Aron; Einar Ólafur Speight, f. 14.7. 1975, framleiðandi í Hafnarfirði, og eru börn hans Emma Elísabet, Sara Björt og Óliver Kári.

Systur Sveinbjargar: Sigþóra Vilhjálmsdóttir, f. 1931, verslunarmaður í Bandaríkjunum; Guðrún Vilhjálmsdóttir, f. 1933, d. 1981, var prestsfrú á Hofsósi, og Hjördís Vilhjálmsdóttir, f. 1936, d. 1985, var íþróttakennari í Svíþjóð.

Foreldrar Sveinbjargar voru Vilhjálmur Hjartarson, f. 17.10. 1900, d. 20.11. 1982, skrifstofustjóri og útgerðarmaður á Siglufirði, og Auður Sigurgeirsdóttir, f. 22.3. 1900, d. 13.3. 1994, húsfreyja og hannyrðakona.