21. febrúar 2013 | Innlendar fréttir | 481 orð | 3 myndir

Flugvirkjar læra loks á heimavelli

• Verklegt nám í Flugsafni Íslands • Farið er yfir Pál Sveinsson og gamla Fokker Gæslunnar

Gamalreyndur Erling Andreassen flugvirki hefur unnið við fagið í áratugi. Hann gleðst yfir því hve þeir ungu hafa mikinn áhuga á DC 3.
Gamalreyndur Erling Andreassen flugvirki hefur unnið við fagið í áratugi. Hann gleðst yfir því hve þeir ungu hafa mikinn áhuga á DC 3.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Hópur flugvirkjanema hefur dvalið í Flugsafni Íslands á Akureyri undanfarnar vikur við verklegt nám.
Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Hópur flugvirkjanema hefur dvalið í Flugsafni Íslands á Akureyri undanfarnar vikur við verklegt nám. Íslendingar gátu ekki lært fagið hér heima í um það bil hálfa öld, þar til að Tækniskóli Íslands ákvað að slá til og gefa mönnum kost á því fyrir nokkrum misserum. Viðbrögðin voru góð og hálfur þriðji tugur manna er nú við nám.

Hópurinn sem dvelur á Akureyri hóf nám haustið 2011. Fyrstu tvö árin sitja nemarnir á skólabekk, síðan vinna þeir í tvö ár hjá flugfélagi til að afla sér reynslu og að því loknu – hafi þeir staðið sig nógu vel! – komast þeir út á vinnumarkaðinn.

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins (þar sem Flugskóli Íslands er deild), gerði samning um víðtækt samstarf um menntun flugvirkja við Flugsafn Íslands á sínum tíma, og þótti fengur að, vegna þess að þar er vel búið að flugvélum og flugvélahlutum sem henta vel til verklegrar kennslu.

„Við erum mjög ánægðir með samstarfið við Tækniskóla Íslands; það er afar ánægjulegt að safnið nýtist til fræðslu eins og upprunalegur tilgangur þess var og afar gaman að sjá svona mikið líf hér um hávetur,“ sagði Hörður Geirsson, stjórnarmaður í Flugsafni Íslands, í samtali við Morgunblaðið á dögunum.

Hópurinn hefur verið nyrðra í nokkrar vikur. Þar er farið gaumgæfilega yfir bæði gömlu Fokkervél Landhelgisgæslunnar og Pál Sveinsson, DC 3-vél Þristavinafélagsins, sem nemum finnst alveg sérlega skemmtilegt og fróðlegt. „Þar kynnast þeir ýmsu sem ekki er hægt að læra í skólum lengur,“ segir Erling Andreassen, flugvirki og meðlimur í Þristavinafélaginu, sem kennir hópnum öll fræði sem snúa að gömlu DC 3-vélinni. „Hún kom af færibandinu í ágúst 1943 og verður því sjötug í ágúst. Þristurinn fór beint til Keflavíkur þar sem hann var notaður til 1946, þegar Flugfélag Íslands hóf að nota hann. Það er mikill áhugi fyrir þessari vél. Þetta er sagan; ég segi stundum við flugvirkja sem fusssa og sveia þegar Þristurinn berst í tal að ef ekki væri fyrir þessar gömlu vélar væru engar þotur og þeir væru í einhverri allt annarri vinnu; í bankastarfsemi eða öðru slíku...“ segir Erling.

Kennarar frá Bretlandi eru við stjórnvölinn á Akureyri. Einn þeirra, Dave Webster, segist telja það afar jákvætt að Íslendingar geti lært flugvirkjun á ný hér heima, af ýmsum ástæðum. „Þó ekki væri nema bara vegna þess að þá eyða nemendurnir peningunum sínum í heimalandinu, í stað þess að læra í Danmörku, Svíþjóð eða Grikklandi!“ sagði hann, en Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur viðurkennt nám í þeim þremur löndum hin síðari ár að sögn Websters.

Lengi lærðu Íslendingar flugvirkjun aðallega í Bandaríkjunum en verða nú að læra samkvæmt evrópskum stöðlum.

Webster segir evrópska námið mun ítarlegra en það bandaríska á sínum tíma. „Strákarnir eru í 2.400 tíma námi, bóklegu og verklegu, og fara síðan í tveggja ára vinnuþjálfun áður en þeir útskrifast. Þetta er langt nám, strangt og býsna erfitt, en þetta verða líka valdamiklir menn að námi loknu!“ segir hann.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.