Lárus L. Blöndal
Lárus L. Blöndal
Eftir Lárus L. Blöndal: "Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar þjóðin felur Bjarna Benediktssyni hlutverk, þá þjónar hann hagsmunum hennar af heiðarleika og trúmennsku."

Bjarni Benediktsson hefur setið undir nokkurri gagnrýni á sinni formannstíð, eins og títt er um stjórnmálamenn. Sú gagnrýni hefur hins vegar að stórum hluta verið ómálefnaleg þannig að um hana hefur ekki verið hægt að ræða og leiða með þeim hætti til lykta. Gagnrýnin byggist á gróusögum sem búið er að sannreyna að eiga sér enga stoð í veruleikanum. Bjarni er hvorki grunaður né sakaður um nokkuð sem getur talist ólögmætt í hans störfum. Þvert á móti býr hann yfir þeim kostum, að hafa tekið þátt í atvinnulífinu og kynnst gangverki þess á uppgangstímum og síðar í hruninu sem er greypt í huga okkar allra.

Hann var ábyrgur stjórnandi sem stóð sig vel í því sem hann gerði. Bjarni var stjórnarformaður í mjög stóru og öflugu fyrirtæki sem gekk vel á uppgangstímum, þannig að eftir var tekið. Þetta fyrirtæki gerði það sama og önnur fyrirtæki gerðu eða reyndu að gera, og ekki bara fyrirtæki á Íslandi heldur um alla Evrópu; stækka og eflast. Það var enginn glæpur framinn. Fyrirtæki og einstaklingar fjárfestu og skuldsettu sig, það var einkenni þess tíma. Einstaklingar og fyrirtæki hafa sopið seyðið af því frá hruni. Flestir landsmenn hafa fundið afleiðingar þessara hörmunga á eigin skinni og þá meðal annars sem skuldarar og hluthafar.

Ég vil fullyrða af kynnum mínum af Bjarna Benediktssyni að hann er maður sem tekur ákvarðanir út frá þeim hagsmunum sem honum hefur verið treyst fyrir en ekki stundarhagsmunum atkvæðaveiðara eins og því miður er of algengt. Það er ekki auðvelt að setja þjóðarhag framar stundarhagsmunum stjórnmálamannsins. Það hefur Bjarni gert og það í stjórnarandstöðu, ólíkt sumum stjórnmálamönnum, sem alltaf vilja eiga hæsta boð á uppboði atkvæðanna.

Bjarni tók ákvarðanir í Icesave-málinu sem menn greinir á um hvort hafi verið réttar eða rangar. Ég tel að Bjarni hafi tekið á málinu af ábyrgð og skynsemi og gætt með því hagsmuna þjóðarinnar. Þar fór Bjarni erfiðu leiðina sem stjórnmálamaður, því skynsamlegar ákvarðanir eru ekki endilega til vinsælda fallnar. Hann taldi skynsamlegt að ljúka deilumálinu með samningum þannig að þjóðin réði örugglega við niðurstöðu þess, í stað þess láta kylfu ráða kasti og taka áhættuna. Það er viðurkennt í samskiptum þjóða og reyndar kennslubókaefni í þjóðarétti að meginreglan þegar kemur til deilna slíkra aðila sé sú að reyna eigi til þrautar að ljúka málum með samningum til að ríki hafi stjórn á sínum örlögum. Þegar það er fullreynt er dómstólum látið eftir að ákveða niðurstöðuna. Þessi meginregla gerir ráð fyrir að þjóðríki komi sér saman um samning sem þau vilja og umfram allt treysta sér til að efna. Bjarni þekkir þessa reglu og fylgdi henni. Með þessu sýndi hann og sannaði að hann er ábyrgur stjórnmálamaður sem tekur hlutverk sitt alvarlega. Auðvelda leiðin hefði verið sú að taka ákvarðanir út frá eigin pólitískum hagsmunum en ekki þeim hagsmunum sem hann hafði tekið að sér að verja.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar þjóðin felur Bjarna Benediktssyni hlutverk, þá þjónar hann hagsmunum hennar af heiðarleika og trúmennsku. Nú ríður á að sjálfstæðismenn sýni samstöðu og fylki sér að baki Bjarna og forystu flokksins. Þjóðin þarf á því að halda að Sjálfstæðisflokkurinn mæti sterkur til leiks í kosningunum í vor.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.