23. febrúar 2013 | Aðsent efni | 290 orð | 1 mynd

Carduran eða SagaPro

Eftir Reyni Eyjólfsson

Reynir Eyjólfsson
Reynir Eyjólfsson
Eftir Reyni Eyjólfsson: "...ákvað ég haustið 2011 að prófa lyfið Carduran Retard, forðatöflur, 4 mg. Árangurinn kom fljótt í ljós og var ótrúlega góður."
Ég er með talsvert stóran blöðruhálskirtil eins og margir aðrir, sem komnir eru á efri árin. Þetta hefur verið staðfest bæði með þreifingum og segulómun. PSA-gildi er lágt. Framan af (fyrst greint 1998) hamlaði þetta mér lítið – hef aldrei þurft að brölta á fætur á nóttunni – en eftir því sem árin liðu fannst mér þetta smám saman verða óþægilegt, t.d. á ferðalögum eða í bíóferðum.

Í árslok 2010 ákvað ég að taka inn SagaPro, sem ég því miður gerði alltof lengi, eða í um 11 mánuði. Skemmst af að segja hafði inntakan engin áhrif, hvort sem teknar voru ein eða tvær töflur á dag, og ástand mitt versnaði fremur en hitt. Ég fór þá loksins að gramsa í vísindafræðunum fyrir alvöru og sá þá auðvitað strax að mörg gagnleg lyf við kvillanum eru skráð hér á landi. Þar sem ég er með háþrýsting ákvað ég haustið 2011 að prófa lyfið Carduran Retard, forðatöflur, 4 mg.

Árangurinn kom fljótt í ljós og var ótrúlegur. Nú finn ég ekkert fyrir einkennunum og verð ekki var við neinar aukaverkanir. Ég hef ráðlagt mörgum (þ.ám. mönnum sem hafa prófað SagaPro) að reyna þessa meðferð og með ágætum árangri. Ekki spillir það fyrir að meðferð með Carduran Retard kostar miklu minna en notkun SagaPro.

Meðferð með Carduran Retard hefur engin áhrif á blóðþrýsting hjá þeim, sem eru með eðlilegan blóðþrýsting.

Klínísk rannsókn SagaMedica á SagaPro, sem birt var um mitt ár 2012, leiddi ekki í ljós neinn ávinning af töku þess við tíðum þvaglátum. Margendurtekin tugga fyrirtækisins um gagnsemi SagaPro hjá „ýmsum undirhópum“ er með svo lélegt tölfræðilegt vægi að fullyrða má að áhrifin séu hverfandi eða engin.

Höfundur hefur engin tengsl við Pfizer, framleiðanda Carduran Retard.

Höfundur er lyfjafræðingur, PhD í náttúruefnafræði.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.