Anna Sigurðardóttir fæddist í Vestmannaeyjum 12. september 1922. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 14. febrúar 2013. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Oddgeirsson frá Ofanleiti, f. 24.4. 1892, d. 1.6. 1963, og Ágústa Þorgerður Högnadóttir frá Vatnsdal, f. 17.8. 1901, d. 7.11. 1948. Systkini Önnu eru Erna Sigríður Brown, f. 31.5. 1921, d. 3.2. 2012. Sigurður Sigurðarson, f. 22.7. 1928, Svanhildur Sigurðardóttir, f. 26.12. 1929. Helga Sigurðardóttir, f. 5.12. 1932, d. 31.5. 1936. Hilmir Sigurðsson, f. 2.6. 1939. Eiginmaður Önnu er Högni Sigurðsson, f. 19.1. 1929. Dóttir þeirra er Sigríður Högnadóttir, f. 5.9. 1956. Hennar maki er Haukur Hauksson, f. 8.2. 1960. Þeirra börn eru Stefán, Tinna og Daði. Dætur Önnu af fyrra hjónabandi með William T. Mountford, f. 6.5. 1921, d. 23.8. 2012, eru Patricia Ágústa Högnadóttir, f. 14.3. 1944. Hennar maki er Stefán Jón Friðriksson, f. 12.2. 1943. Þeirra börn eru Anna, Jón Högni, Eyrún og Guðni Davíð. Svana Anita Mountford, f. 8.11. 1945. Hennar maki er Ingi Páll Karlsson, f. 8.6. 1945. Þeirra börn eru Valgerður Helga og Hafliði. Áður átti Högni soninn Þorstein, f. 27.9. 1947. Útför Önnu verður gerð í Landakirkju í Vestmannaeyjum laugardaginn 23. febrúar kl.11.

Elsku amma.

Ég trúi því ekki enn að þú sért farin. Ég hálf partinn bíð alltaf eftir því að þú gangir inn um dyrnar heima hjá mömmu og pabba, bankir létt og kallar How do you do eins og þú svo oft gerðir þegar þú heilsaðir. Þú ert yndislegasta manneskja sem ég hef nokkurn tíma kynnst, engin bjó yfir jafn mikilli innri fegurð og þú elsku amma mín, svo blíð og góð. Eins og ég hef oftar en einu sinni sagt við þig; þá ertu sko uppáhalds

Þú ert sú manneskja sem hefur haft hvað mestu áhrif á mig.  Allt frá ljóðagerð sem barn og til náms, en þú komst fyrir gríðalegum áhuga á sögu hjá mér, enda ræddum við oft um t.d. grísku söguna. Sama má segja um enskuna en mér fannst þú tala svo fallega ensku og mig langaði sko að geta talað alveg eins og amma. Svo ekki sé nú minnst á áhugann okkar á steinum, þær eru nú margar steinaleitirnar sem við fórum í saman og skemmtum okkur vel. Nú sl ár þegar ég hef verið að draga hann Bjarna minn í steinaleit með mér þá er alltaf hringt í þig; hvar sé nú best að leita, er eitthvað að finna í þessari á eða hinni? Alltaf varst þú með svörin.

Ég elska þig svo mikið elsku amma mín, þú hefur alltaf verið svo góð við mig. Það er svo mikið sem þú hefur gefið af þér amma, og svo margt sem ég er þakklát fyrir.

Ég þakklát fyrir að hafa átt svona margar góðar stundir með ykkur afa. Allar gamanstundirnar sem við áttum í sumarbústöðum hvort sem það var í Munaðarnesi eða á Eiðum. Svo standa Svanavatnskvöldin okkar skvísanna upp úr, enda sjaldan hlegið eins mikið og á þeim kvöldum! Það dansar jú enginn dans litlu svananna eins vel og við gerum.

Ég er þakklát fyrir að þið afi leyfðuð okkur Bjarna að gifta okkur í stofunni í Helgafelli , það var dásamlegur dagur. Þegar við afi byrjuðum að dansa inni í stofu áður en allir mættu og þú byrjaðir nú á því að hrista hausinn en tókst svo fullan þátt og við hlógum mikið. Eftir að presturinn gaf okkur saman, þá stoppuðum við á miðri leiðinni út til að gefa þér koss- þú varst svo ánægð að fá fyrsta kossinn frá nýgiftu hjónunum og minntist oft á það. Svo var það í byrjun janúar þegar við komum á sjúkrahúsið að kveðja þig áður en við fórum til Danmerkur eftir jólafríið þá rifjuðum við upp þennan dag og táruðumst báðar. Sú minning er mér ómetanleg.

Ég er svo þakklát fyrir að Þórir litli sonur minn fékk að kynnast þér, ég á svo margar fallegar myndir af ykkur saman. Bæði ljómandi af gleði. Orð fá því vart lýst hvað ég er þakklát og ánægð með að hafa flýtt Íslandsförinni um tíu daga núna sl. nóvember. En það var rúm vika sem við fengum að eyða í kringum þig áður en þú varðst veik. Það var yndislegt að eyða þessum tíma með ykkur afa, að fá að hitta þig á hverjum degi nánast, spjalla við þig og horfa á þig leika við hann Þóri minn.

Ég fylgdist náið með gangi mála eftir að ég fór aftur út til Danmerkur, alltaf að frá fréttir af þér, alltaf að halda í vonina að þér myndi batna. Þegar Stefán hringir svo í mig og sagði mér hvernig stæði á, þá keypti ég fyrsta flug heim. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði náð til þín í tæka tíð svo ég hefði getað tekið utan um þig í seinasta sinn og sagt þér enn einu sinni að þú ert uppáhaldið mitt og ég elska þig svo mikið. En núna ertu komin í ljósið og ég veit þú vakir yfir okkur öllum. Núna finnirðu ekki lengur til, sársaukinn farinn og þú fundið frið. Ég veit að við hittumst aftur amma mín en þangað til, þá mun ég gera mitt besta til heiðra þig og gera þig stolta af mér.

Elsku góða amma,

Þú steina færir mér.

Þá þakka ég þér fyrir

Og reyna að vera góð

Voða ert þú góð

Og líkar mér það

Vel

(Tinna 23.02.1997.)

Sakna þín og elska þig svo mikið.

Þitt títluskott,

Tinna.