Á nítjándu öld hóf helmingur mannkyns, konur, upp raust sína og krafðist sömu stjórnmálaréttinda og karlar, og var þeirri sjálfsögðu kröfu misjafnlega tekið.

Á nítjándu öld hóf helmingur mannkyns, konur, upp raust sína og krafðist sömu stjórnmálaréttinda og karlar, og var þeirri sjálfsögðu kröfu misjafnlega tekið. Þó fengu þær liðsinni margra frjálslyndra karla, þar á meðal Johns Stuarts Mills, sem skrifaði Kúgun kvenna (The Subjection of Women) árið 1869, en hún var fyrst gefin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar frá Eyjólfsstöðum árið 1900. Bókin hafði talsverð áhrif hér á landi. Upp úr aldamótum voru Hannes Hafstein og Skúli Thoroddsen báðir stuðningsmenn jafnréttis, þótt andstæðingar væru í mörgu öðru. Eiginkona Skúla, Theodóra Thoroddsen, andvarpaði yfir hlutskipti sínu og annarra kvenna:

Mitt var starfið hér í heim

heita og kalda daga

að skeina krakka og kemba þeim

og keppast við að staga.

En þótt konur fengju víðast jafnréttiskröfum sínum framgengt á öndverðri tuttugustu öld, horfðu sumar þeirra bitrar um öxl. „Konur hafa í allar þessar aldir þjónað eins og speglar sem eru gæddir þeim töfrandi og unaðslegu eiginleikum að stækka mynd karlmannsins um helming,“ skrifaði Virginia Woolf. Sumum konum fannst þrengt að sér með gömlum hugmyndum um verkaskiptingu kynjanna. „Við fæðumst ekki konur; við verðum konur,“ sagði Simone de Beauvoir. Gloria Steinem mælti háðslega: „Karlmannslaus kona er eins og fiskur án reiðhjóls.“ En þær, sem reiðastar voru körlum fyrir fornar misgerðir og lengst gengu, sögðu með Andreu Dworkin: „Erfitt er að greina flekun frá nauðgun. Þegar ætlunin er að fleka, hefur nauðgarinn fyrir því að kaupa vínflösku.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is