Tæki „Til þessa hafa fyrirtæki í raun aðeins haft þann kost að fá úttekt sérfræðinga á þáttum eins og umhverfisáhrifum eða kolefnislosun,“ segir Jónas.
Tæki „Til þessa hafa fyrirtæki í raun aðeins haft þann kost að fá úttekt sérfræðinga á þáttum eins og umhverfisáhrifum eða kolefnislosun,“ segir Jónas. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Smásalar og neytendur leggja æ meiri áherslu á að varan sem þeir kaupa sé framleidd, ræktuð eða veidd á umhverfisvænan og samfélagslega ábyrgan máta.
Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Smásalar og neytendur leggja æ meiri áherslu á að varan sem þeir kaupa sé framleidd, ræktuð eða veidd á umhverfisvænan og samfélagslega ábyrgan máta. Matís tekur þátt í spennandi alþjóðlegu verkefni, WhiteFish, sem miðar að því að færa framleiðendum í sjávarútvegi tæki sem á að hjálpa til við að miðla til neytandans upplýsingum um ábyrga framleiðslu.

„WhiteFish beinist einkum að veiðum á þorski og ýsu úr Norður-Atlantshafi. Þessir stofnar hafa þegar ákveðna sérstöðu hvað varðar sjálfbæra nýtingu, hreinleika og jákvæða eiginleika vörunnar fyrir heilsufar neytandans. En auk þess að sækja í heilnæmið vilja neytendur líka geta gengið að því vísu að fiskurinn sem heimilismenn snæða hafi t.d. ferðast úr hafi og á diskinn með sem minnstum umhverfisáhrifum,“ segir Jónas Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.

„WhiteFish er hugbúnaður sem gerir útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslum mögulegt að halda með þægilegum hætti utan um þá þætti sem helst stýra umhverfislegum, efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum af framleiðslu vörunnar og gefur búnaðurinn þeim þannig nýtt tæki í sölu- og markaðsstarfi.“

Að verkefninu koma þrettán aðilar, bæði frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi.

„Til þessa hafa fyrirtæki í raun aðeins haft þann kost að fá úttekt sérfræðinga á þáttum eins og umhverfisáhrifum eða kolefnislosun en slíkar úttektir eru bæði mjög kostnaðarsamar og ná aðeins yfir framleiðsluna á tilteknum tímapunkti. WhiteFish-forritið skapar allt aðrar forsendur til að draga upp mynd af áhrifum framleiðslunnar og ef því er að skipta getur seljandi fisksins reiknað með nokkuð nákvæmum hætti umhverfisáhrifin af hverjum veiðitúr.“

Hugsa fram í tímann

Athyglisvert er að WhiteFish-forritið tekur einnig inn í myndina félagsleg og efnahagsleg áhrif af framleiðslu vörunnar. „Markaðurinn leggur í dag höfuðáherslu á umhverfisáhrifin, sjálfbæra nýtingu og sem minnst kolefnisfótspor.

Þróunin er hröð og hægt að ímynda sér að áður en langt um líður verði búið að mæta flestum kröfum neytenda um lágmörkun umhverfisáhrifa. Er þá viðbúið að áherslan færist á eitthvað annað, t.d. samfélagslegu áhrifin.“

Umhverfisáhrifin er nokkuð auðvelt að mæla, með nokkrum lykilstærðum. „Mælingin sem WhiteFish gefur er ekki jafnnákvæm og gagnger úttekt sérfræðings en það er raunin að um 10% af veiði-, framleiðslu- og dreifingarferlinu skýrir um 90% af umhverfisáhrifunum. Með því að setja inn uppýsingar um afmarkaða þætti eins og olíunotkun, magn afla og hvort varan er flutt á markaði með skipi eða flugi fæst nokkuð áreiðanleg mæling,“ útsýrir Jónas.

Áætlað er að WhiteFish-forritið verði tilbúið til notkunar eftir u.þ.b. ár en prófanir og þróun standa enn yfir. Meðal þess sem þarf að gera er að finna nægilega góða leið til að mæla efnhagsleg og samfélagsleg áhrif. „Þar flækist málið því oft er um að ræða stærðir sem erfitt er að mæla. Forritið mun því fara þá leið að gefa grænt, gult eða rautt ljós eftir ákveðnum forsendum,“ segir Jónas.

„Eins verður forritið að geta tekið tillit til ólíkra aðstæðna og menningar á hverjum stað og getur verið breytilegt eftir upprunalandi fisksins hversu mikið vægi þættir eins og launakjör og félagsleg réttindi starfsmanna eiga að hafa.“

MEÐ GOTT FORSKOT?

Veiðarnar skilvirkar

Jónas segir eftirspurnina eftir lausn eins og WhiteFish ekki síst drifna áfram af dreifingaraðilum. „Í mörgum löndum setja stærstu seljendur sér skýr viðmið um uppruna vörunnar sem seld er. Bæði sjá þeir virði í því að miðla til neytandans að varan sé framleidd með ábyrgum hætti en þetta verður líka oft tilefni til metings á milli fyrirtækja. Þannig er ekki laust við að t.d. Sainsbury‘s og Tesco-verslanakeðjurnar í Bretlandi séu í kappi sín á milli við að bjóða upp á sem umhverfisvænasta og samfélagslega ábyrgasta vöru hvort sem á í hlut fiskur, kjöt, grænmeti eða eitthvað annað.“

Spennandi er að velta fyrir sér hvað tæki eins og WhiteFish gæti gert fyrir íslenskan sjávarútveg. Jónas segir prufuútreikninga benda til þess að þorskur og ýsa veidd við strendur Íslands ættu að fá mjög góða einkunn í WhiteFish enda veiðarnar skilvirkar og nútímalegar. „Jafnvel ef tekið er með í reikninginn að flytja þarf ferskan fisk flugleiðis þá ætti íslenski fiskurinn að fá t.d. svipaða kolefnislosunareinkunn og sá norski því þó Norðmenn hafi aðgang að t.d. lestarflutningum til meginlands Evrópu þá eru veiðarnar skilvirkari á Íslandi og minni olía sem fer í hvert veitt kíló af fiski.“

Forritið gæti líka leitt til breyttra aðferða við veiðar. „Veiðar á línu losa t.d. mun minna af koltvísýringi en togveiðar. Með WhiteFish er hægt að miðla þessum upplýsingum betur til kaupandans sem getur svo aftur haft áhrif á verð fisksins eftir því hvernig hann er veiddur.“