Heimspekidoktorarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal skrifuðu lærðar ritgerðir í rannsóknarskýrslu Alþingis um siðferði eða öllu heldur siðleysi íslenskra fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008.

Heimspekidoktorarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal skrifuðu lærðar ritgerðir í rannsóknarskýrslu Alþingis um siðferði eða öllu heldur siðleysi íslenskra fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008. Ein hneykslunarhella þeirra var hugmyndin um Ísland sem fjármálamiðstöð. En sú hugmynd er ættuð af þeirra slóðum, úr heimspekiskor Háskóla Íslands. Mikael M. Karlsson heimspekiprófessor birti grein í Vísbendingu 23. desember 1987, þar sem hann kvað Ísland af mörgum ástæðum henta sem „fjárhæli“, eins og hann kallaði það, skráningarstað fyrirtækja og geymslu fjármagns. Til dæmis væri landið friðsælt, stöðugleiki í stjórnarfari, orðspor þjóðarinnar gott og málakunnátta almenn. Nefndi Mikael í því sambandi meðal annars Sviss, Liechtenstein og Mön, sem náð hefðu miklum árangri í fjármálaþjónustu. DV fagnaði hugmynd Mikaels í stórri frétt 30. desember sama ár, og fylgdi Mikael henni eftir með nokkrum greinum í Vísbendingu ári síðar. Þegar ég tók þessa hugmynd upp í bók minni 2001, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? vitnaði ég með velþóknun í skrif Mikaels.

Hugmynd okkar Mikaels Karlssonar var hins vegar mjög frábrugðin veruleikanum á Íslandi um og eftir 2004, þegar enginn var til að veita auðjöfrunum hæfilegt aðhald. Hugmynd okkar var að laða fyrirtæki og fjármagn að landinu með lágum sköttum og föstum reglum. En veruleikinn frá 2004 til 2008 var að fámenn auðklíka öðlaðist í krafti yfirráða yfir verslunarkeðjum og fjölmiðlum ótakmarkaðan aðgang að bönkunum sem hún notaði síðan til að tæma þá í því skyni að fara í útrás erlendis. Skuldirnar dreifðust á ýmsar kennitölur en skuldunauturinn var jafnan hinn sami. Þetta var í rauninni svipuð saga og sögð var um Benjamín Eiríksson bankastjóra og Ólaf á Oddhóli Jónsson. Benjamín hafði lánað Ólafi fyrir andabúi og vildi eitt sinn skoða framkvæmdirnar. Endur Ólafs voru eitthvað færri en hann hafði gefið upp í áætlunum og skýrslum, og brá hann á það ráð að láta þær trítla nokkra hringi í kringum hús búsins, svo að þær virtust miklu fleiri en raun var á. Þetta var auðvitað alþjóðleg flökkusaga frekar en bókstaflegur sannleikur um þá Benjamín og bóndann á Oddhóli. En gamanið breyttist hér í ramma alvöru: Ísland varð ekki það fjárhæli, sem við Mikael sáum fyrir okkur forðum, heldur risastórt andabú, þar sem sömu endurnar voru sýndar og veðsettar margsinnis.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is