Gleðistemming Tómas R., Mugison og Ragnheiður Gröndal á tónleikum í Iðnó í tilefni af útkomu plötunnar Trúnó.
Gleðistemming Tómas R., Mugison og Ragnheiður Gröndal á tónleikum í Iðnó í tilefni af útkomu plötunnar Trúnó. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Ragnar fæddist á Blönduósi 25.3. 1953 og ólst þar upp.

Tómas Ragnar fæddist á Blönduósi 25.3. 1953 og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1974, var í spænskunámi við Háskólann í Barcelona 1975-76 og í ítölskunámi víð Útlendingaháskólann í Perugia 1978, lauk BA-prófi í sagnfræði og spænsku frá HÍ 1980, stundaði nám í bassaleik hjá Jóni Sigurðssyni við Tónlistarskóla FÍH 1980-83 og hjá Johan Poulsen í Kaupmannahöfn 1983-84.

Tómas hefur verið meðlimur í Jazzkvartett Reykjavíkur sem kom víða fram á fyrri helmingi tíunda áratugarins, á Norðurlöndunum, í Þýskalandi, Skotlandi og Englandi þar sem sveitin lék m.a. í viku á Ronnie Scott-klúbbnum í London.

Tómas var auk þess bassaleikari í Tríói Ólafs Stephensen sem sendi frá sér þrjá geisladiska á tíunda áratugnum og kom víða fram, s.s. á Grænlandi, í Kanada, Bandaríkjunum, Argentínu, Malasíu, Taílandi og Síle.

Tómas hefur leikið með flestum helstu djassleikurum hér á landi og fjölda heimsþekktra djassleikara, s.s. Chet Baker, Kenny Drew, Ernie Wilkins, Ted Daniel, John Tchicai, Doug Raney, Bent Jaedig, Richard Boone, Jesper Thilo, Tommy Smith, Mark Levine, Guy Barker og Charles McPherson.

Plötur með lögum Tómasar

Fyrsta tónverk Tómasar sem var hljóðritað er að finna á plötunni Kvölda tekur frá 1982, með Nýja kompaníinu, hljómsveit ungra djassista sem léku eigin tónlist. Hann samdi auk þess flest lögin á plötunni Þessi ófétis jazz frá 1985, og hefur síðan verið afkastamikið tónskáld við stöðugt vaxandi vinsældir, hér á landi og víða um heim. Helstu plötur með lögum Tómasar eru Þessi ófétis jazz, 1985; Hinsegin blús, 1987; Nýr tónn, 1989; Íslandsför, 1991; Landsýn, 1994; Koss, 1995; Á góðum degi, 1998; Í draumum var þetta helst, 2000; Undir 4, 2000; Kúbanska, 2002; Havana, 2003; Havana, 2004; Dance you idiot! 2004; Let Jazz be bestowed on the Huts (Blánótt) 2005; Romm tomm tomm, 2007; Rommtommtechno, 2007; Trúnó, 2008; Live, 2009; Reykjavík – Havana, 2009; Early Latin, 2011 (útgefin starfrænt); Strengur, 2011, og Laxness, 2012.

Breiðskífa Tómasar, Havana, hlaut tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2003. Árið 2004 flutti stórsveitin Jagúar tónlist hans í útsetningu og undir stjórn Samúels J. Samúelssonar á tvennum tónleikum á Listahátíð í Reykjavík. Hljóðritun frá þeim tónleikum, platan Dansaðu fíflið þitt, dansaðu!, hlaut öll þrenn verðlaunin í djassflokki Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004. Þá fékk Tómas verðlaun nú um daginn á ÍTV fyrir djassverk ársins 2012, lagið Bjart af plötunni Laxness.

Tómas gaf út fyrstu nótnabók íslensks djassmanns, Djassbiblíu Tómasar R., haustið 2005, sem inniheldur 80 laga úrval af tónlist hans.

Tómas hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti auk þess sem hann var stjórnandi og handritshöfundur að heimildarmynd um Guðberg Bergsson rithöfund. Hann gerði einnig tónlist við heimildarmynd Halldórs Þorgeirssonar um Halldór Laxness.

Þá hefur Tómas þýtt ýmis bókmenntaverk, einkum úr spænsku og þ.ám. eftir suðurameríska höfunda, s.s. Isabel Allende, Gabriel García Márquez, Julio Cortázar og Luis Sepúlveda.

Fjölskylda

Eiginkona Tómasar er Ásta Svavarsdóttir, f. 19.1. 1955, orðabókaritstjóri. Hún er dóttir Ásu Kristinsdóttur, f. 7.1. 1932, d. 11.7. 2011, húsfreyju, og Svavars Björnssonar, f. 20.3. 1932, fyrrv. kaupmanns.

Dætur Tómasar og Ástu eru Kristín Svava, f. 20.11. 1985; Ástríður, f. 6.10. 1989, lést af slysförum 11.7. 2010, og Ása Bergný, f. 28.4. 1997.

Systir Tómasar er Ingibjörg Kristrún Einarsdóttir, f. 20.10. 1955.

Foreldrar Tómasar eru Kristín Bergmann Tómasdóttir, f. 12.8. 1926, fyrrv. kennari, og Einar Kristjánsson, f. 15.8. 1917, fyrrv. skólastjóri.