Jakob Þór Jónsson fæddist í Reykjavík 23. mars 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 21. mars 2013. Foreldrar hans voru Jón Ágústsson, f. 19. apríl 1918, d. 17. desember 1995, og Andrea Sigríður Jóhannesdóttir Rolzitto, f. 22. febrúar 1921, d. 16. september 2008. Þau eignuðust einnig Sævar, f. 24. mars 1940. Hann var ættleiddur og lést 18 ára af slysförum. Fósturforeldrar Jakobs frá fimm mánaða aldri voru afasystir hans, Sigríður Arndís Þórarinsdóttir, f. 22. október 1894, d. 9. júní 1971, og eiginmaður hennar Kristján Jens Guðbrandsson, f. 27. mars 1891, d. 7. nóvember 1976. Systkini Jakobs sammæðra eru Viktor Jóhannes Rolzitto, f. 22. nóv. 1942, James Albert Rolzitto, f. 9. febrúar 1944, Jeannie Brown, f. 21. sept. 1946, Eugene Durham, f. 11. júlí 1955, og Esteva Gonzales, f. 21. júlí 1961, d. 2009. Jakob kvæntist 28. mars 1964 Bjargeyju Guðmundsdóttur, f. 26. apríl 1943. Þau skildu árið 1995. Synir þeirra eru: a) Kristján Arnar, f. 23. júní 1964, flugmaður hjá Air Atlanta. Eiginkona hans er Þórhildur Ída Þórarinsdóttir, f. 29. des. 1962, MPM-verkefnastjóri. Barn Kristjáns með fyrrverandi sambýliskonu: Andrea Rós, f. 6. sept. 1989, einkaþjálfari. Synir Kristjáns með eiginkonu: Guðbergur Rósi, f. 14. sept. 1995, og Alexander Thor, f. 29. des. 2001. b) Guðmundur Páll, f. 23. júní 1964, menntaður húsasmíðameistari, yfirmaður flugumsjónar Air Atlanta. Eiginkona hans Maríanna Hugrún Helgadóttir, BS í búvísindum, frkvstj. FÍN, f. 13. jan.1968. Börn: Andri Rósi, f. 28. feb. 2001, og Sunna Rós, f. 7. maí 2006. c) Jóhannes Þór Jakobsson, f. 11. júlí 1975, BA í mannfræði. Maki hans María Vilborg Guðbergsdóttir, f. 26. apríl 1976. Dætur: Hildur Rósa, f. 7. apríl 2010, og Jenný Lára, f. 1. janúar 2012. Jakob var alinn upp á Patreksfirði og bjó hjá fósturforeldrum sínum á Klifi. Jakob tók unglingapróf frá Núpi í Dýrafirði. Hann lauk námi í húsgagnasmíði frá Trésmiðjunni hf. í Reykjavík og tók sveinspróf í húsasmíði. Jakob smíðaði sumarbústaði til margra ára og vann við smíðar alla tíð. Hann var afar fær módelsmiður og liggja eftir hann meðal annars frábær flugvélamódel. Útför Jakobs Þórs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 5. apríl 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Jakob var leikinn í höndum, iðinn og útsjónarsamur. Að ráðast í það sem hann langaði til einkenndi Jakob alla tíð. Hann lærði húsgagnasmíði og tók að sér ýmis flókin verk.

Jakob ólst upp á Patreksfirði. Sem lítill snáði horfði hann á tignarlegan Grumman flugbát koma siglandi á sjónum alveg uppí fjöru og snúa þar hálfhring svo stélið snéri að bænum. Þessi tilkomumikla sjón á þeim árum heillaði Jakob og varð að ævilöngum áhuga á flugi og flugvélum. Hann lét meðal annars til sín taka í smíði módela sem voru nákvæmar eftirlíkingar ýmissa véla. Jakob hafði þann hæfileika að sjá hönnun fyrir sér í huganum. Hann gat teiknað vélar fríhendis og smíðað þær síðan nosturslega allt frá smáatriðum, hvort sem það var að koma fyrir raunverulegum kompás í stjórnklefa eða að búa til ákveðna flugmenn, til þess að búa til sjálfan mótorinn.

Sum flugmódela Jakobs tengjast íslenskri flugsögu. Þar má nefna Avró 504K, eftirmynd fyrstu flugvélar sem flaug á Íslandi árið 1919 og fyrstu vélar Flugfélags Íslands. Jakob fékk lofsamleg ummæli um vélar sínar. Í blaðinu Scale Aircraft, febrúar/mars 1995, var dáðst að vinnu Jakobs og sagt: ,,... he has made a super job of detailing his model". Avró flugmódelið er í eigu Flugmálastjórnar Íslands. Hann smíðaði Catalina flugbát. Fyrirmyndin TF-ISP var keypt frá Bandaríkjunum og flugið frá New York til Íslands 1944 er fyrsta flug íslenskrar áhafnar yfir Atlantshafið.  Þá vél Jakobs má sjá í Flugstöðinni á Ísafirði. Hann smíðaði einnig Veiðibjölluna, Junkers vél, sem var meðal annars í áætlunarflugi Flugfélags Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og tók fjóra farþega. Þessi vél Jakobs er í skalanum ¼ og því nokkuð stór. Skrúfan er listasmíð og prentplötur sem hann valsaði gefa vélinni bárujárnsáferð sem einkenndi Junkers-vélar þess tíma. Veiðibjalla Jakobs er í geymslu hjá Flugsafni Íslands á Akureyri og höfð þar til sýnis. Af öðrum gripum má nefna  Dornier335 enda þótt vélin tengist ekki íslenskri flugsögu. Jakob hafði lifibrauð sitt af smíðum en flugmódelin vann hann í frítíma sínum, slík var ástríðan. Þegar flutt er í lítið húsnæði á hjúkrunarheimili, velur hver það sem er honum dýrmætast. Jakob tók með sér Grumman Goose skrokk. Hann hafði þá byrjað á þeirri vél og var staðráðinn í að ljúka við hana en fyrirmyndin var flugbátur Loftleiða, sem kom til Íslands 1944. Jakobi entist ekki heilsa í það verk.

Seinni árin skrifaði hann nokkra pistla í fésbók sína sem tengdust gamla tímanum á Patró. Hann var mikill Íslendingur í sér en líka heimsborgari og hafði unun af ferðalögum eins og þegar hann heimsótti móður sína og systkini til Bandaríkjanna. Jakob fór með Kristjáni, manninum mínum, Andreu dóttur Kristjáns og Rósa, eldri syni okkar, til Kaliforníu. Seinna kom hann með okkur til Boston í stutt frí og síðar kom hann til okkar þegar við dvöldum í París. Hann lék sér að því að stinga strákana af upp á næst efsta pall Eiffelturnsins þrátt fyrir að vera orðinn nokkuð veikur. Hann talaði góða frönsku og naut þess að ganga um stræti Parísar og skoða það sem var að finna í borginni. Hann heimsótti systur sína í Nýju Mexíkó og fannst lítið tiltökumál að ferðast einn.

Jakob flutti tvívegis til okkar vegna veikinda sinna. Sú samvera og aðrar stundir urðu til þess að við kynntumst vel.  Hann hafði áhuga á uppruna mannsins og þróun sögunnar, hvort líf leynist annars staðar og eftir þessa jarðvist. Jakob var vel lesinn, hlustaði gjarnan á útvarpið við vinnuna, fylgdist grannt með þjóðmálum og oft var fróðlegt að ræða landsins gagn og nauðsynjar við hann. Við Jakob létum það ekki aftra okkur þótt Kristján væri ekki heima þegar flugsýningar voru norðan heiða, heldur ókum við sem leið lá og fylgdumst grannt með. Hann hafði orð á því hve fallegur Eyjafjörðurinn væri og að hann væri til í að byggja sér hús þar.

Kristján og fjölskylda hans tengjast Látrum í Aðalvík mjög sterkum böndum. Þar í Nesinu bjó langafi mannsins míns, Friðrik Magnússon, ásamt seinni konu sinni, Rannveigu Ásgeirsdóttur. Jakob og fyrrverandi kona hans Bjargey byggðu sér þar sumarhús. Síðustu árin lagði maðurinn minn, ásamt föður sínum og sonum okkar, allt kapp á að komast vestur á sumrin. Þar unnu þeir hörðum höndum við að dytta að húsinu sem þarfnaðist orðið viðhalds en nutu um leið kyrrðar við víkina. Stundum gengu þeir yfir í Rekavík bak Látrum og renndu fyrir fiski í vatni sem er í eigu fjölskyldunnar. Þessar ferðir gáfu þeim mikið og þeir komu jafnan þreyttir á líkama en endurnærðir á sál til baka. Síðasta sumar fóru þeir í ágúst til Aðalvíkur. Þar kom í ljós hve veikur Jakob var orðinn og var flogið með hann suður til að hann kæmist undir læknishendur.

Jakob gat virkað fáskiptinn fyrir þá sem þekktu hann ekki vel en okkur var hann mjög hjálpsamur. Hann var ekki aðeins faðir Kristjáns heldur þróaðist vinátta milli þeirra feðganna þannig að þeir urðu nánir félagar síðustu árina. Sonum mínum reyndist hann góður afi á sinn sérstaka hátt. Við erum fegin að Jakob fékk hvíld frá langri baráttu við illvígt krabbamein. Við söknum hans en munum þakklát eiga afar góðar minningar um ótal margt.

Þórhildur Ída Þórarinsdóttir.