Skömmu eftir að Jón Trausti féll úr spánsku veikinni haustið 1918 lét Jón Stefánsson, bóndi á Hreiðarsstöðum í Fellahreppi í Norður-Múlasýslu, svo um mælt við Guðmund G.

Skömmu eftir að Jón Trausti féll úr spánsku veikinni haustið 1918 lét Jón Stefánsson, bóndi á Hreiðarsstöðum í Fellahreppi í Norður-Múlasýslu, svo um mælt við Guðmund G. Hagalín: „Það er þjóðinni til ævarandi skammar, að þjóðskáldið Jón Trausti skyldi deyja með eiturörvar í hjartastað.“ Jón Trausti hafði oft sætt árásum drýldinna skólamanna, enda sjálfmenntaður og vandaði ekki alltaf stíl sinn sem skyldi, þótt hann bæri af um sköpunarmátt og frásagnargleði.

Halldór Kiljan Laxness þáði margar hugmyndir af Jóni Trausta. Til dæmis er sagan um reiðferð Bjarts í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki sótt beint í smásögu eftir Jón Trausta í Eimreiðinni 1906. Sjálf hugmynd Kiljans um að semja skáldsögu um líf fólks á heiðinni er líklega upphaflega komin frá Jóni Trausta, þótt Kiljan útfæri hana allt öðru vísi.

Þórbergur Þórðarson þáði líka hugmyndir af Jóni Trausta. Hann sagði til dæmis 1925 í deilu við Árna Sigurðsson fríkirkjuprest: „Kristur endaði ævi sína á krossi. Þér endið ævi yðar með krossi.“ Þessi snjalla líking er komin beint úr smásögu í Eimreiðinni 1915 eftir Jón Trausta, þegar prestur einn mótmælir prófastinum og minnir í því sambandi á Krist: „Hann bar sinn kross – ekki á brjóstinu, eins og prófasturinn þarna, heldur á blóðugu bakinu.“

Jón Trausti, sem hét réttu nafni Guðmundur Magnússon, var eindreginn andstæðingur jafnaðarmanna. Í skáldsögunni Bessa gamla frá 1918 kvað hann kjörorð jafnaðarmanna vera: „Upp með dalina! Niður með fjöllin!“ Í smásögunni „Kappsiglingunni“, sem kom á prent 1909, sagði hann: „Þeir sigra ekki alltaf miklu mennirnir, oddborgararnir, – ekki alltaf. Einokunaröldin er um garð gengin. Nú er öld samkeppninnar og hins frjálsa mannjafnaðar.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is