18. apríl 2013 | Aðsent efni | 750 orð | 2 myndir

Sæstrengur frá Íslandi til Bretlands

Eftir Valdimar K. Jónsson og Skúla Jóhannsson

Valdimar Jónsson
Valdimar Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Valdimar K. Jónsson og Skúla Jóhannsson: "Margir hafa talið verkefnið ofvaxið Íslendingum, bæði tæknilega og einkum fjárhagslega."
Fyrirhugaður sæstrengur frá Íslandi til Bretlands verður um 1.100 km að lengd og mun liggja á allt að 1.200 m dýpi. Lengsti kapall í heimi og fyrsti raforkustrengur sem þverar Atlantshafið.

Hér er á ferðinni framkvæmd sem, með virkjunum og styrkingu flutningskerfa, mundi kosta á við 2,5 Kárahnjúkavirkjanir. Hafa ýmsir gagnrýnt að Íslendingar skuli áforma að ráðast í svo miklar fjárfestingar í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Einnig er áhætta talin mikil við byggingu og rekstur svona mannvirkis, t.d. geta bilanir komið upp úti í reginhafi um vetur.

Hingað til hefur verið miðað við að Íslendingar muni verða virkir þátttakendur í verkefninu, sbr. ársskýrslu Landsvirkjunar 2011. Margir hafa talið verkefnið ofvaxið Íslendingum, bæði tæknilega og einkum fjárhagslega.

Erindisbréf ráðgjafarhóps

Í erindisbréfi ráðgjafarhóps atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um sæstreng 29. júní 2012 kemur fram að meðal greiningar- og rannsóknarvinnu hópsins er eftirfarandi:

1. Samfélags- og

þjóðhagsleg áhrif.

2. Tæknileg atriði.

3. Lagaumhverfi og

milliríkjasamningar.

4. Umhverfisáhrif.

Áfangaskýrslu skal skila

15. maí 2013.

Búið er að halda 12 fundi í nefndinni. Sérfræðingar og hagsmunaaðilar hafa verið kallaðir til eftir því sem þurfa hefur þótt. Fram að þessu hefur tæknileg atriði framkvæmdarinnar margsinnis borið á góma á fundum nefndarinnar, þ.ám. sæstrengurinn sjálfur.

Ársfundur Landsvirkjunar 2013

Á ársfundi Landsvirkjunar 20.3. 2013 fjallaði forstjóri Landsvirkjunar um sæstrenginn. Var ekki annað að heyra en að fyrirtækið hefði nú óvænt tekið þá ákvörðun að skipta sér ekki af lagningu og rekstri sæstrengsins og heldur ekki að taka þátt í fjármögnun hans. Þetta er í rauninni í fyrsta sinn sem þessi afstaða Landsvirkjunar kemur fram með svo afgerandi hætti.

Ef fylgt er orðum forstjóra Landsvirkjunar má gera ráð fyrir að útlendir fjárfestar muni leggja, eiga og reka sæstrenginn. Með þannig fyrirkomulagi verður eigandi hans einn raforkukaupandi til viðbótar hér á landi á svipaðan hátt og álver, annar stóriðnaður og almenningsveitur. Eigandi sæstrengsins mundi þá sjálfur bjóða í eða gera langtímasamninga um raforku hér á landi og selja hana síðan erlendis. Hann mundi væntanlega hirða ágóða af orkusölu á erlendum mörkuðum og bera rekstrartap sem komið gæti upp og á hann félli.

Erindisbréf ráðgjafarhóps í ljósi þessara atburða

Ráðgjafarhópnum var stofnaður til að fara yfir og meta áform um lagningu sæstrengsins. Hugmyndin var sú að með tilkomu hans mundi verðmæti íslenskrar raforku aukast. Einnig hefur verið rætt um þann möguleika að flytja evrópska orku til Íslands í sérstökum tilvikum, t.d. við vatnsskort hjá vatnsaflsvirkjunum eða við náttúruhamfarir, sem mundu skaða raforkuframleiðslu. Sá möguleiki er þó fjarlægur, en nærtækara að semja við starfandi iðjuver í landinu um að minnka framleiðslu.

Ef erlendir fjárfestar reka sæstrenginn þá er spurning hvort við Íslendingar ættum yfirleitt nokkuð að vera að skipta okkur af innviðum verkefnisins. Hingað til hefur ekki verið til siðs að við skiptum okkur af innviðum álvera, sem eru alfarið á vegum og á ábyrgð hinna erlendu eigenda. Af þessu má álykta að þannig verði einnig farið með sæstrenginn. Samningur um orkusölu mundi þá skilgreina samskipti, ábyrgð, skyldur og fjárhagsuppgjör milli íslenskra seljenda orku og hinna erlendu eigenda sæstrengsins.

Hvert er þá orðið hlutverk ráðgjafarhóps um sæstreng? Stofnun hans var talin nauðsynleg vegna þess að þekking á sæstrengjum til raforkuflutninga og áhrif þannig framkvæmda var af skornum skammti í landinu. Nú er hins vegar komin upp ný staða.

Um ívilnanir vegna grænnar raforku frá Íslandi

Flutningsgeta 700 MW sæstrengs er um 5000 GWh/ári. Á ársfundinum kom fram hjá forstjóranum að hann ráðgerir að útvega orku fyrir sæstrenginn að hluta með því að 2.000 GWh/ári komi sem „umframorka“ frá núverandi raforkukerfi. Stærsti hluti þessarar orku væri þó forgangsorka, sem Landsvirkjun hefur ekki tekist að selja á undanförnum árum. Með því að ráðstafa þessari orku fyrir sæstreng mun það þó ekki hefjast fyrr en um 2025 svo lausn á markaðssetningu þessarar raforku er enn ekki í augsýn.

Samkvæmt núverandi evrópskum reglum eru ívilnanir vegna grænnar raforku aðeins fyrir nýjar virkjanir. Þannig mun íslensk „umframorka“ upp á 2.000 GWh/ári ekki njóta grænna styrkja nema til komi sérstakir samningar. Þeir gætu verið torsóttir í ljósi þess að Ísland er utan Evrópusambandsins. Einnig er vert að benda á að það er ekki sæstrengurinn sjálfur sem mundi fá græna ívilnun heldur nýjar virkjanir á Íslandi. Sem dæmi munu Búrfellsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun ekki fá neinar ívilnanir vegna sölu á grænni orku til Evrópu.

Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu í ríkjum Evrópubandalagsins virðist vera óhægara um vik að fá ívilnanir fyrir græna orku og eru nýleg dæmi þar um. Sjálfsagt er að fylgjast vel með þeirri þróun og vonandi mun málið liggja ljósar fyrir á ársfundi Landsvirkjunar 2014.

Höfundar eru verkfræðingar

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.