18. apríl 2013 | Viðskiptablað | 1042 orð | 3 myndir

Fjármál heimilanna

Skortur á fræðslu er rót vandans

Peningar Rót fjárhagsvandræða Íslendinga liggur, að mati Breka, annars vegar í skorti á stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar og svo að fólkið í landinu hefur ekki fengið eða sótt sér næga fræðslu um góða hagstjórn heimilisins. Börn koma úr skóla alfróð um Snorra Sturluson en skilja ekki launaseðla.
Peningar Rót fjárhagsvandræða Íslendinga liggur, að mati Breka, annars vegar í skorti á stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar og svo að fólkið í landinu hefur ekki fengið eða sótt sér næga fræðslu um góða hagstjórn heimilisins. Börn koma úr skóla alfróð um Snorra Sturluson en skilja ekki launaseðla. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Batnandi skuldastaða heimilanna á síðustu árum virðist hafa verið á kostnað sparnaðar • Aukinn stöðugleiki í efnahagsmálum þjóðarinnar væri mestu kjarabæturnar • Mætti athuga að gefa aukið frelsi um hvernig fólk hagar lífeyrissparnaði sínum og í hverju er fjárfest
Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir það ekki endilega segja alla söguna þó að nýlegar rannsóknir Hagstofunnar hafi sýnt fram á að skuldavandi heimilanna á landsvísu er í dag svipaður og árið 2006. „Hafa verður í huga að staðan er eftir sem áður mjög slæm hjá ákveðnum hópi fólks og svo einnig að skánandi skuldastaða síðustu ár og misseri hefur að miklu leyti verið á kostnað sparnaðar.“

Breki bendir á að hagvöxtur á Íslandi eftir hrun hafi að stórum hluta verið drifinn áfram af einkaneyslu sem aftur hafi verið drifin áfram af því að fólk gekk á sparnað sinn og tók frekari lán. Margir hafi t.d. tekið út séreignarsparnað sinn hjá lífeyrissjóðum. „Sú aðgerð að heimila landsmönnum að taka út séreignarsparnað orkaði ákaflega tvímælis og mætti taka svo djúpt í árinni að segja að fólk hafi verið hvatt til að pissa í skóinn sinn. Útkoman er skammgóður vermir, verið að fresta vandanum þar til síðar og verður staðan enn verri fyrir vikið þegar fólk fer af vinnumarkaði og þarf á viðbótarlífeyrissparnaðinum að halda.“

Best að spara 20%

Segir Breki raunar að það sé einn alvarlegasti fjárhagslegi ósiður Íslendinga að spara of lítið og landsmenn standi að baki mörgum þeim þjóðum sem við helst viljum bera okkur saman við. „Þegar kemur að sparnaði fyrir elliárin eru helstu forsendur lífeyrissjóðakerfis okkar að með því að leggja fyrir 12% af launum geti fólk eftir 40 ára starfsævi, m.v. 3,5% raunavöxtun, vænst þess að fá lífeyri sem nemur um 56% af meðaltekjum starfsævinnar. Þeir sem veita ráðgjöf um fjárfestingar, sérstaklega í Bandaríkjunum, ráðleggja fólki að spara enn meira og leggja fyrir að lágmarki 20% af launum alla ævi til að eiga nægilega góðan sjóð til að geta haldið sama lífsstíl í ellinni.“

Að mati Breka er fátt sem hvetur Íslendinga til að spara og vert sé að skoða hvaða breytingar megi gera t.d. á skattareglum en einnig á reglum um skyldusparnað til að efla sparnaðarhliðina. „Það mætti t.d. athuga möguleika á að veita aukið frelsi um það hvernig fólk ráðstafar sínum líeyrissparnaði, þar sem launþeginn getur stýrt því betur hvert peningarnir fara og í hverju er fjárfest,“ segir hann. „Einnig er þörf á stóraukinni fræðslu og kennslu um bæði sparnað og allt annað sem snýr að fjárhag heimilisins. Skólakerfið skilar börnunum okkar út í lífið með allt á hreinu um lífshlaup Snorra Sturlusonar en ófærum um að skilja upplýsingarnar á launaseðli.“

Verðtryggingin er ekki rót vandans

Fræðsluskorturinn segir Breki að sé líka rót vandans þegar kemur að skuldunum. Vanþekking valdi því að Íslendingar taki of mikil lán, hugi ekki nógu vel að efnahagslegum forsendum skuldbindinganna, vanmeti hættuna á verðbólgu og sveiflum og fari sér á endanum að voða. Stjórnvöld séu líka að berjast við skuldavandann á röngum forsendum með því að benda á verðtrygginguna sem sökudólg, þegar það er skortur á stöðugleika í efnahagsmálum sem er rót vandans.

„Langmestu kjarabæturnar fyrir heimilin í landinu væru ef hér ríkti stöðugleiki. Í því skyni viljum við oft bera okkur saman við önnur lönd á Norðurlöndunum. En staðreyndin er sú að við erum ekki í sömu deild og þau. Frá því Seðlabankinn tók upp verðbólgumarmið árið 2001 hefur árangurinn ekki verið beysinn og minnsta ársverðbólga á Íslandi aldrei náð meðaltali Norðurlanda á tímabilinu. Í verðbólgu eigum við heima með löndum eins og Hvíta-Rússlandi eða Ungverjalandi – erum eins og í fótboltanum í kringum 100. sæti á heimslistanum og vantar mikið upp á að komast í úrvalsflokk.“

LÍTIL VIRÐING BORIN FYRIR FJÁRLÖGUM

Ríkið sýnir slæmt fordæmi

Forvitnilegt er að reyna að greina hvað veldur því að viðhorf Íslendinga til fjármála og peninga virðist mun afslappaðra en hjá öðrum þjóðum. Breki tiltekur atriði eins og að aðgangur að lánsfjármagni sé hér á landi með auðveldasta móti, en einnig sé ríkt í þjóðinni bjartsýnisviðhorf og trú á að hlutirnir „reddist“ á endanum. Ekki hjálpar til að stjórnvöld virðast ekki vísa veginn með góðu fordæmi og þvert á móti verða yfirvöld uppvís að því trekk í trekk að fara óvarlega með peninga.

„Nýlega rak ég augun í áhugaverða grein á vefnum Lemúrinn þar sem sagt var frá byggingu Alþingishússins. Til smíðinnar höfðu fengist 100.000 kr. en til boða stóð að kaupa tilbúið hús fyrir 40.000. Í stað þess að kaupa tilbúna húsið á hagstæðu verði og eiga afgang var ráðist í að byggja steinhúsið við Austurvöll fyrir allan peninginn. Ekki nóg með það heldur fór kostnaðurinn við smíði hússins 30% fram úr áætlun. Þessi framkvæmd gaf tóninn fyrir flestar opinberar framkvæmdir síðan þar sem ítrekað hefur gerst að kostnaðaráætlanir hafa ekki staðist,“ segir Breki. „Þá þarf að leita langt aftur til að finna það ár sem ríkið stóð við eigin rekstraráætlun, fjárlögin. Virðast fjárlög ekki hafa sömu stöðu og önnur lög og ekki mikið tiltökumál þó að þau séu brotin ár eftir ár.“

EKKI GLEYMA AÐ HALDA BÓKHALD

Verðmætar þumalputtareglur

Mælingar sýna æ ofan í æ að Íslendingar standa öðrum þjóðum langt að baki hvað varðar fjármálalæsi og skynsamlega stjórnun fjármála heimilisins. Breki nefnir sem dæmi að einungis fjórðungur íslenskra heimila haldi heimilisbókhald en í löndum eins og Póllandi og Suður-Afríku er hlutfallið 60%. Rétt eins og í fyrirtækjarekstri skiptir sköpum fyrir heimilið að halda bókhald því að öðrum kosti er erfitt að henda reiður á ástandinu, koma auga á hluti sem má bæta og setja vönduð markmið.

Breki býr yfir nokkrum þumalputtareglum sem hjálpað geta við að varða leiðina að góðum fjárhag:

• Haltu heimilisbókhald. Eina leiðin til að vita stöðuna í fjármálum er að halda heimilisbókhald.

• Settu þér fjárhagsleg markmið. Þú nærð aldrei markmiðum sem þú setur þér ekki.

• Vertu búinn að hugsa „hvað ef...“ til enda áður en „það“ gerist.

• Hugsaðu um framtíðina þegar þú verð peningum í dag.

• Gerðu verðsamanburð

• Leggðu 10% tekna hvers mánaðar í varasjóð. Varasjóðurinn ætti að nema 3-6 mánaða neyslu.

• Lán eru dýr. Notaðu þau sparlega. Ekki taka lán fyrir hlutum sem missa verðgildi sitt yfir lánstímann.

• Afborganir af lánum ættu ekki að nema meira en þriðjungi tekna.

• Gerðu fjármálin skemmtileg. Haltu áfram að sækja fræðslu og menntun svo þú getir tekið upplýstar ákvarðanir.

• Fjármálalæsi eru engin geimvísindi. Þau byggjast á almennri skynsemi.

• Framkvæmdu. Ekki bíða með að koma lagi á fjármálin. Það er ekki nóg að lesa sér til. Best var að byrja í gær, næstbest að byrja í dag.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.