Margt getur skemmtilegt gerst í kosningabaráttu. Magnús Óskarsson, sem lengi var borgarlögmaður, sagði sögu af ónefndum frambjóðanda, sem reytti af sér brandara á kjósendafundi.

Margt getur skemmtilegt gerst í kosningabaráttu. Magnús Óskarsson, sem lengi var borgarlögmaður, sagði sögu af ónefndum frambjóðanda, sem reytti af sér brandara á kjósendafundi. Einn fundargesturinn var andstæðingur hans og kallaði fram í: „Það nægir ekki að segja hér brandara. Það geta allir gert!“ Ræðumaður svaraði að bragði: „Segðu þá einn!“ Þá varð fundargesturinn orðlaus. Sagan mun komin frá Danmörku, og ræðumaðurinn var Klaus Berntsen úr Vinstri flokknum.

Sigurður Grímsson var ungur lögfræðingur, sem fá átti í framboð fyrir Alþýðuflokkinn 1923. Hann fór til gamalreynds áróðursmanns flokksins, Ólafs Friðrikssonar, kvaðst vera óvanur ræðuhöldum og spurði, hvernig hann skyldi bregðast við frammíköllum á fundum. Ólafur svaraði: „Blessaður vertu, það er enginn vandi. Þú hefur það bara eins og ég einu sinni á fundi. Það byrjaði einhver að kalla fram í. Ég hvessti þá á manninn augun og hrópaði á móti: Þú varst ekki svona borubrattur forðum, þegar þú grést úti í Viðey! Maðurinn snarþagnaði og varð jafnvel skömmustulegur á svipinn. Ég er viss um, að hann hefur aldrei komið út í Viðey.“

Einn flokksbróðir þeirra Sigurðar Grímssonar og Ólafs Friðrikssonar, rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín, kunni líka ísmeygilegar áróðursbrellur. Lengi fram eftir 20. öld skiptist Alþingi í efri og neðri deild, og réð tilviljun í hvora þeirra þingmenn settust. En Hagalín gerði sér fyrir kosningarnar 1933 ferð til aldraðra hjóna á Ísafirði, sem ætíð höfðu kosið sjálfstæðismanninn Jón Auðun Jónsson (föður Auðar Auðuns). Eftir að Hagalín hafði lokið úr kaffibollanum, leit hann á hjónin og sagði alvörugefinn: „Það er ljótt með hann Jón ykkar Auðun. Hann er búinn að vera tíu ár á þingi fyrir ykkar tilstilli og er enn ekki kominn upp í efri deild!“ Þetta fannst hjónunum lök frammistaða og kusu þann frambjóðanda, sem Hagalín mælti með.

Ári síðar voru aftur kosningar á Íslandi. Þá flutti kommúnistaleiðtoginn Brynjólfur Bjarnason innblásna ræðu á kjósendafundi á Ísafirði um, hvernig hér yrði fyrirmyndarríki og gósenland eftir valdatöku kommúnista. Þegar Brynjólfur lauk ræðu sinni, gall við í Hagalín: „Hallelúja!“ Allur salurinn hló. Fundargestir sögðu Hagalín, að þetta hefði verið stysta og skýrasta kosningaræða, sem þeir hefðu heyrt.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is