Gera verður greinarmun á illu umtali, snöggum tilsvörum og móðgunum. Þegar séra Árni Þórarinsson sagði um Ásmund Guðmundsson biskup, að hann gæti afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því, var það illt umtal.

Gera verður greinarmun á illu umtali, snöggum tilsvörum og móðgunum. Þegar séra Árni Þórarinsson sagði um Ásmund Guðmundsson biskup, að hann gæti afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því, var það illt umtal. Þegar lafði Astor sagði við Winston Churchill: „Væri ég konan þín, Winston, þá myndi ég setja eitur út í kaffið þitt“ – og hann svaraði: „Væri ég maðurinn þinn, Nancy, þá myndi ég drekka það“ – var það snöggt tilsvar. Móðgun er hins vegar bein lítilsvirðing og oftast því verri sem móðgandinn er vingjarnlegri. „Séntilmaður móðgar engan óviljandi,“ segir Garðar Gíslason hæstaréttardómari, sem er manna kurteisastur.

Eitthvert besta dæmið, sem ég kann um vingjarnlega móðgun, er, þegar breski rithöfundurinn Barbara Cartland var í viðtali í breska ríkisútvarpinu við konu að nafni Sandra Harris. Sú spurði Cartland, hvort stéttamunur hefði minnkað í Bretlandi. Þá svaraði Cartland: „Auðvitað hefur stéttamunurinn minnkað. Annars sæti ég ekki hér að tala við konu eins og yður.“

Kristján X., konungur Íslands 1918-1944, var sjaldnast vingjarnlegur í framkomu, en alkunna er, þegar hann móðgaði Adolf Hitler, sem hafði sent honum heillaóskaskeyti á afmæli hans 26. september 1942. Konungur svaraði með stuttu skeyti: „Látum í ljós kærar þakkir.“ Þetta þótti Hitler argasti dónaskapur.

Einar skáld Benediktsson gat átt til að móðga menn hressilega. Tveir ungir menn, Tómas Guðmundsson og Halldór Kiljan Laxness, gerðu sér haustið 1924 ferð til Einars, þar sem hann bjó í Þrúðvangi við Laufásveg. Halldór var þá kotroskinn og fullyrðingasamur, og eitthvað, sem hann sagði, fór illa í skáldið. Þegar þeir kvöddu Einar við útidyrnar, sneri hann sér að Tómasi og sagði hlýlega: „Komið þér fljótt aftur, Tómas minn, en komið þér þá einn!“ Ljóst er af bókum Kiljans, að hann hefur munað Einari þetta alla ævi.

Sjálfur gat Kiljan móðgað menn eftirminnilega. Eitt sinn heimsótti hópur sértrúarmanna frá Vermlandi í Svíþjóð hann á Gljúfrastein og sátu lengi að skrafi. Var húsráðanda tekið að leiðast. Þegar hann fylgdi gestunum út, nam hann staðar við plöntu í garðinum, benti á hana og sagði: „Þarna er nú lítil trjáplanta, sem ég var að setja niður á dögunum. Ég vona bara, að hún verði orðin að stóru tré, þegar þið komið næst.“ Gárungarnir heimfærðu þessa sögu síðan ranglega upp á Thor Vilhjálmsson, sem gekk stundum fullnærri nóbelsskáldinu með einlægri hrifningu sinni af því. En Vermlendingarnir gengu hinir ánægðustu af fundinum við Kiljan.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is