Jakob Thorarensen skáld fæddist á Fossi í Hrútafirði 18.5. 1886. Hann var sonur Jakobs Thorarensen, úrsmiðs á Fossi og síðar vitavarðar á Gjögri, og Vilhelmínu Gísladóttur húsfreyju.
Jakob Thorarensen skáld fæddist á Fossi í Hrútafirði 18.5. 1886. Hann var sonur Jakobs Thorarensen, úrsmiðs á Fossi og síðar vitavarðar á Gjögri, og Vilhelmínu Gísladóttur húsfreyju.

Eiginkona Jakobs var Borghildur Benediktsdóttir húsfreyja og eignuðust þau tvær dætur, Laufeyju og Elínborgu.

Jakob byggði sér hús á Skálholtsstíg 2A, beint fyrir aftan Fríkirkjuna í Reykjavík, en seinna bjuggu þau hjónin við Ljósvallagötu í Reykjavík. Hann stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi í iðninni árið 1910. Hann vann síðan við húsasmíðar í allmörg ár en rúmlega fertugur lagði hann smíðatólin á hilluna og helgaði sig skáldskap og ritstörfum eftir það.

Tíu ljóðabækur komu út eftir hann og sjö smásagnasöfn. Þá samdi hann leikritið Hringferð sem var flutt í ríkisútvarpinu 1969. Ljóðabækur Jakobs eru Snæljós, 1914; Sprettir, 1919; Kyljur, 1922; Stillur, 1927; Heiðvindar, 1933; Haustsnjóar, 1942; Hraðkveðlingar og hugdettur, 1943; Hrímnætur,

1951; Aftankul, 1957, og Náttkæla, 1966.

Smásagnasöfn Jakobs eru Fleygar stundir, 1929; Sæld og syndir, 1937; Svalt og bjart, 1939; Amstur dægranna, 1947; Fólk á stjái, 1954; Grýttar götur, 1961, og Léttstíg öld, 1966. Úrval ljóða hans, Tímamót, og smásagnaúrval, Tiu smásögur, komu út 1956 en ritsafnið Svalt og bjart I-II 1946.

Jakob var gjörólíkur samtímaskáldbræðrum sem kenndu sig við nýrómantík. Hann var iðnskólalærður, hafði engin tök á menntaskóla- né háskólanámi, en var engu að síður víðlesinn bókmennta- og bókamaður.

En þótt hann fylgdist vel með var hann fyrst og fremst íslenskt alþýðuskáld sem lagði sig ekki eftir erlendum straumum og stefnum heldur orti um hversdagshetjuna, karlmennsku, vilja, dug og þor og styrk í baráttunni við óblíð náttúruöfl. Hann lést árið 1972.