24. maí 2013 | Aðsent efni | 786 orð | 1 mynd

Loðinn úrskurður ESA – ESA úrskurðar gegn AGS

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Samkvæmt AGS fylgir því gríðarleg fjármálaáhætta fyrir hagkerfi þegar gjaldmiðli er fleytt."
Nýlegur úrskurður ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) virðist fullyrða að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi ekki verið heimilt árið 2001, þegar íslenska krónan var sett á flot, að taka mark á aðvörunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS – sbr. ráðgefandi sérfræðiskýrslur sjóðsins á árabilinu 1998 til 2001) og banna bindingu fjárskuldbindinga í krónum við gengi erlendra mynta. Var þetta ekki hagstjórnaraðgerð? Muna menn það ekki?

Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, er sett voru samhliða lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, snéru að fjármálastöðugleika og áhættu á gjaldeyrisáfalli sbr. ábendingar AGS (IMF Country Report No. 01/85, bls. 22-23 frá árinu 2001).

ESA gegn AGS?

Það fylgir ekki sögunni, þegar fulltrúi ESA kemur fram í fjölmiðlum með úrskurð af þessum toga og setur m.a. fyrirvara um neytendalán, að hér var um hagstjórnaraðgerð að ræða eftir ábendingar frá AGS. Vaxtalög voru sett samhliða lagasetningu í tengslum við að efla sjálfstæði Seðlabanka Íslands með fleytingu íslenskrar krónu á frjálsum gjaldeyrismarkaði.

Samkvæmt AGS fylgir því gríðarleg fjármálaáhætta fyrir hagkerfi þegar gjaldmiðli er fleytt. Hætta er á því að hagstjórnartæki seðlabanka (sbr. stýrivextir) bíti ekki ef heimilt er að stór hluti lána í viðkomandi gjaldmiðli sé gengistryggður og bundinn öðrum myntum.

Slík heimild til gengistryggingar getur skapað fjármálaóstöðugleika í viðkomandi hagkerfi og freistnivanda á vaxtamunarviðskiptum banka og lántakenda í litlu hagkerfi með lítinn gjaldmiðil.

Þetta kom á daginn og þrátt fyrir bann fóru bankar gegn lögunum en eins og flestir vita hefur lagasetningarvald og dómsvald ekki enn verið framselt til Brussel, sem betur fer.

Krónan áfram gjaldmiðill Íslands

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að krónan verður áfram gjaldmiðill Íslands og reikna má að slíkt vari um árabil. Því er ljóst að þetta upphlaup ESA nú er aðeins tilraun fárra Íslendinga til að eyðileggja íslenska krónu og kasta rýrð á þau störf sem Alþingi vann að til verndar neytendum og hagkerfi landsins á sínum tíma. Menn freistuðust til að setja hagkerfi Íslands á hausinn og það tókst nærri því alveg.

Bæði vegna setningar laga nr. 38/2001 og laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 voru rannsóknir gerðar í yfir áratug áður en lögin tóku gildi og ritaðar margar fræðigreinar um þetta efni. Þetta ættu fræðimenn að vita.

ESA lesi sér betur til um ábendingar AGS

Því miður virðist úrskurður ESA ekki byggjast á djúpri þekkingu á efnahagsstjórn og er sjálfsagt ekkert akkur þeirra, sem þar vinna, á öðru en því að koma á framfæri að Ísland hafi farið á skjön við reglur um frjálst flæði fjármagns.

Þessi nálgun er ekki rétt hjá ESA. Það er ekkert sem hamlar frjálsu flæði fjármagns til og frá Íslandi eftir setningu laga nr. 38/2001 og 36/2001 fyrir utan gjaldeyrishöftin sem sett voru eftir hrun.

Ekki hefur verið sannað að bann gengistryggðra lána hafi hamlað frjálsum fjármagnsflutningum. Það sem meira er að ef menn hefðu lánað gengistryggð lán, þ.e. höfuðstóll hinna erlendu mynta tæki breytingum, þá eru slík lán ekki óheimil. Þá yrði um að ræða lán í erlendum myntum þar sem höfuðstóll hinna erlendu mynta tæki breytingum eftir því hvernig gengi krónu þróast. Það eina sem bannað var er að binda skuldbindingar í krónum gengi erlendra mynta en ekki öfugt.

Það virðist ekki hafa hentað fjármálafyrirtækjum að standa við gerða samninga og lögðu þeir því mál sín upp sem krónulán, a.m.k. í flestum tilvikum. Því fór sem fór en hefðu þeir staðið við að þeir lánuðu í erlendum myntum þar sem höfuðstóll (fjárskuldbinding) væri bundinn gengi krónunnar (sem er ekki óheimilt) hefðu skuldabréfin reyndar orðið að engu. Því hentaði betur hinn málflutningurinn sem endaði með réttmætum og sanngjörnum dómum Hæstaréttar Íslands.

Þáverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Alþingi Íslendinga og Seðlabanki Íslands, eftir ábendingar frá AGS, sáu þetta fyrir.

Hvað með frjálst flæði upplýsinga?

ESA á að fylgjast með frjálsu flæði ýmissa þátta, þ.m.t. þjónustu, vara, fólks og fjármagns. Það er hið besta mál. ESA virðist hafa með þessum úrskurði reyndar ekki þjónustað þegna Íslands vel enda ekki lesið sér til og verið upplýst um hvaða rök lágu að baki hjá AGS og Seðlabanka Íslands, Alþingi og ríkisstjórn árið 2001 þegar lög nr. 38/2001 voru sett. Þau eru skýr.

Ætli líkur séu á að það sé vegna þess að ekki var samið um 5. þáttinn, þ.e. frjálst flæði upplýsinga? ESA heldur öllu slíku þétt upp að sér eða veit bara ekki betur.

Niðurstaða

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lagði fram tvö stjórnarfrumvörp árið 2001, eitt tengt vaxtalögum og annað Seðlabanka Íslands í tilefni þess að fleyta átti krónunni á frjálsum gjaldeyrismarkaði.

Alþingi afgreiddi frumvörpin sem lög og þau voru staðfest af forseta Íslands. ESA hefur ekkert um þetta að segja enda Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki með eigin gjaldmiðil og fullt forræði á eigin hagstjórn.

Loðinn úrskurður ESA breytir því engu hvað þetta varðar.

Höfundur er MSc í fjármálum, MBA, BA í heimspeki og hagfræði.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.