Allir kannast við Faðirvorið, sem Kristur kenndi okkur í fjallræðunni: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo að jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Allir kannast við Faðirvorið, sem Kristur kenndi okkur í fjallræðunni:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo að jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Í Sjálfstæðu fólki frá 1933 (21. k.) leggur Halldór Kiljan Laxness Þórði gamla í Niðurkotinu í munn aðra útgáfu af bæninni:

Faðir vor, þú sem ert á himnum, já, svo óendanlega lángt burtu að einginn veit hvar þú ert, næstum hvergi, gefðu okkur í dag eitthvað ósköp lítið að borða þér til dýrðar, og fyrirgefðu okkur ef við getum ekki staðið í skilum við kaupmann og lánardrotna, en láttu okkur um fram alt ekki freistast til að eiga góða daga, þvíað þitt er ríkið.

Franska skáldið Jacques Prévert fékk svipaða hugmynd, því að hann orti 1949 ljóðið „Pater Noster“ eða „Faðir vor“, sem hljóðar svo í þýðingu Sigurðar Pálssonar:

Faðir vor, þú sem ert á himnum,

vertu þar áfram,

og við verðum áfram á jörðinni,

sem er stundum svo falleg.

Skopstæling Kiljans á Faðirvorinu var til að hnykkja á meginboðskapnum í Sjálfstæðu fólki , að íslenskir kotbændur létu kúga sig og sættu sig auðmjúklega við það. Útgáfa Préverts er hins vegar andvarp lífsnautnamannsins, sem vill fá frið fyrir trúarbrögðum. Hvort tveggja skírskotar þó til Biblíunnar og verður lítt skiljanlegt, merkingarsnautt, án þekkingar á henni.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is