Anton Guðlaugsson fæddist í Miðkoti við Dalvík 15. apríl 1920. Hann lést á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra, 8. júní 2013.

Hann var sonur hjónanna Önnu Maríu Jónsdóttur og Guðlaugs Sigurjónssonar. Börn þeirra hjóna auk Antons voru Sigurjón Páll, f. 1910, Árni Jóhann, f. 1912, Jóhannes, f. 1914, Gunnar Kristinn, f. 1917 og Dóróthea Sigrún, f. 1923. Þau eru öll látin. Guðlaugur lést ungur og því lenti þungi uppeldis barnanna á Önnu Maríu. Hún giftist síðar Kristni Hallgrímssyni og átti með honum tvær dætur, Svövu sem lést í bernsku og Svövu Ragnheiði sem lést innan við tvítugt og soninn Arngrím Ægi, f. 1937, sem einn lifir þeirra systkina.

Anton kvæntist árið 1947 Sigurlaugu Ásgerði Sveinsdóttur, f. 1924, frá Tjörn á Skaga. Hún er dóttir hjónanna Sveins Sveinssonar bónda á Tjörn á Skaga og Guðbjargar Rannveigar Kristmundsdóttur húsfreyju. Börn Antons og Sigurlaugar eru: Guðbjörg, f. 1947, maður hennar var Níels Kristinsson, þau skildu. Þau eiga þrjú börn. Elín Sigrún, f. 1948, maður hennar er Skafti Hannesson, þau eiga fjögur börn. Anna Dóra, f. 1952, gift Sveini Sveinssyni, þau eiga tvo syni. Arna Auður, f. 1955, maður hennar var Hreinn Pálsson, þau skildu. Þau eiga tvö börn og áður átti Arna eina dóttur. Þórólfur Már, f. 1957, kvæntur Hrönn Vilhelmsdóttur, þau eiga tvö börn. Árdís Freyja, f. 1967. Barnabörn og langafabörn eru 35 talsins og eitt langalangafabarn. Anton fór ungur á sjó og tók síðar stýrimanna- og skipstjórnarréttindi. Í mörg ár var hann skipstjóri og sjómaður á bátum frá Dalvík og fór gjarnan á vertíðar suður með sjó. Árið 1965 keypti hann fiskbúð sem hann rak í mörg ár á Dalvík. Eftir að hann seldi fiskbúðina vann hann sem fiskmatsmaður á Dalvík allt þar til hann varð 75 ára gamall. Anton var virkur í félagsmálum á Dalvík og tók þátt í starfi ýmissa félaga, t.d. Slysavarnafélagsins og Lionsklúbbs Dalvíkur. Þá tók hann virkan þátt í sönglífi en hann söng bæði í Kirkjukór og Karlakór Dalvíkur meðan heilsa hans leyfði. Anton hélt dagbækur allt frá árinu 1942 og fram á síðustu ár. Eftir hann liggur talsvert í rituðu máli, frásagnir, ritgerðir og tækifærisvísur. Þau Anton og Sigurlaug bjuggu alla sína tíð á Dalvík, lengst af á Karlsbraut 13 en húsið er nefnt Lundur. Þau hjónin voru mikið skrautgarða- og trjáræktarfólk þegar tóm gafst til seinni hluta ævinnar.

Anton verður jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju í dag, 15. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Anton Guðlaugsson var öðlingur. Hann var afar fjölhæfur og gerði allt vel sem ég sá hann taka sér fyrir hendur. Fyrir nokkuð mörgum árum fórum við Arna í nokkurra daga ferð um landið með börnin og foreldra hennar. Við Toni vorum ferðafélagar á síðasta bílnum sem hann átti, ég var bílstjóri. Arna og Lauga voru á öðrum bíl. Ferðin var ógleymanleg og ekki hvað síst fyrir sögurnar og minningarnar sem runnu upp úr Tona. Já, lagsmaður, það var sjaldan þögn á því ferðalagi.

Sögu- og söngstundirnar í Lundi voru ógleymanlegar. Ég minnist barnabarnanna sitja agndofa og full aðdáunar á meðan afi sagði hverja söguna á fætur annarri. Ekki var það leiðinlegt þegar hann sótti munnhörpuna og blés í hana af list og fjölskyldan söng með.

Toni var mikill fjölskyldumaður og vakti yfir velferð barna sinna. Sagan segir að dætur sínar hafi hann verndað af ákafa og stundum þurft að fara fáklæddur út á tröppur til að stugga við ungum mönnum sem óskuðu nánari kynna, það er að segja, við þær.

Ég sé Tona fyrir mér í tómstundaherberginu sínu. Þar úði og grúði af af ótal smáhlutum; beinum, steinum, kubbum, tækjum, tólum og dagbókum. Á eftirlaunaárunum sat Toni gjarnan við og „föndraði“. Þorp, bátar og svipmyndir tengdar sjónum birtust gjarnan á birkiplöttum. Vitað er um a.m.k. einn listfræðing sem féll í stafi yfir sköpunarverkum Tona og mat þau einstök, sem þau og eru.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég einstakan mann sem ég virði mjög mikils. Ég votta Laugu og öllum afkomendum Tona mína dýpstu samúð og hluttekningu.

Hreinn Pálsson.

Heiðurskappi kveður, Toni í Lundi.

Með kærri þökk fyrir samfylgd í tæp 30 ár langar mig að minnast tengdaföður míns, Tona í Lundi.

Frá fyrstu kynnum urðum við góðir vinir. Undirrituð er tengdadóttirin í Lundi því sonurinn var einn en dæturnar margar. Toni og Lauga tóku okkur fagnandi á okkar fyrstu árum.

Þegar börnin bættust í hópinn sá ég nýja hlið á Tona sem ég hafði ekki séð áður. Þegar börnin byrjuðu að skríða lagðist hann á eldhúsgólfið og lék við þau lon og don. Þau rugluðu í hárinu á honum og slefuðu en hann gantaðist á móti og hvatti þau til að standa í lappirnar. Þegar sá sigur var unninn lagðist hann í gólfið og hvatti þau til að labba. Árið eftir lá hann í grasinu eða við kartöflubeðið og hvatti þau til að pota niður kartöflum með sér. Svona liðu árin og alltaf náði hann til barnanna á þeim aldri sem þau voru hverju sinni. Snjómokstur, trjárækt, hnútar og kartöflur, allt orð sem geta staðið sjálfstætt en saman gefa þau sýn á Tona í Lundi, iðjusemi og smá keppni með gleði og væntumþykju.

Takk kæri tengdafaðir fyrir að hafa hjálpað okkur ungu hjónunum við uppeldið, takk fyrir fjölmargar ánægjustundir þar sem fjölskyldan sameinaðist í Lundi eða á Blettinum fyrir utan Dalvíkina draumabláu.

Lauga tengdamóðir mín hafði Tona sem sinn lífsförunaut í um 67 ár, gegnum súrt og sætt.

Hrönn Vilhelmsdóttir.

Hann afi okkar í Lundi er fallinn frá. Hann kvaddi þennan heim með bros á vör laugardaginn 8. júní síðastliðinn. Þegar hugsað er til baka um hann afa í Lundi þá hugsum við stórt. Afi var alls ekki hár maður, en allt varðandi hann var stórt. Hann var með stóra þrumandi rödd sem heyrðist yfir fjöll og dali ef svo bar undir. Það kom fyrir að hún var notuð í Lundi forðum ef kalla þurfti á okkur barnabörnin þar sem við lékum okkur í fallega blómum prýdda garðinum við húsið. Þá var brugðið skjótt við því alltaf var borin mikil virðing fyrir afa. Þegar landsliðið okkar í handbolta var að spila í sjónvarpinu og afi var að fylgjast með mátti heyra þrumuröddina drynja, sérstaklega þegar slæmi kaflinn byrjaði hjá liðinu, „Svona strákar, hver fjandinn er þetta,“ svo rauk hann upp og út úr stofunni.

Hann afi okkar, sitjandi við endann á eldhúsborðinu í Lundi, drekkandi kaffið sitt úr stóru glæru könnunni segjandi skoðanir sínar á mönnum og málefnum líðandi stundar. Það eru þessi augnablik sem hlýja svo mikið á þessum sorgartímum, augnablik sem enginn hugsaði út í þá en eru þegar öllu er á botninn hvolft svo mikilvæg.

Hin seinni ár byrjaði afi að föndra, hann föndraði smátt en hugmyndin var stór. Hann byggði heilu þorpin í agnarsmáum hlutföllum. Nákvæmnin og smáatriðin voru slík að undravert þótti því afi hafði stórar hendur.

Þegar við komum í heimsókn með börnin okkar var hann ekki seinn á sér að taka þau til sín og sýna þeim það sem hann var að dunda við, hvort sem það var í föndurherberginu eða úti í garði. Börnin veittu honum mikla ánægju því afi hafði svo stórt hjarta. Núna er komið að kveðjustund, sorgin er mikil hjá okkur en tilhlökkunin að hitta hann afa aftur er þeim mun meiri. Hittumst heil.

Nú þegar ástar, og unaðssálin skín,

ilmur í lofti, blöð af trjánum falla.

Þá blessi ykkur daginn, elsku börnin mín,

Buðlungur æðsti, og ævi ykkar alla.

Hanna María Skaftadóttir McClure, Sigurlaug Skaftadóttir McClure, Hannes Jarl Skaftason McClure og Lovísa Björk Skaftadóttir McClure.

Margs er að minnast, elsku afi minn. Mínar fyrstu minningar um þig eru þegar ég var um fjögurra ára aldur sitjandi í fangi þínu hafandi neitað að taka við mat hjá móður minni. Þá fór hún með mig til þín. Þú dróst upp vasahnífinn sem þú varst alltaf með. Því næst skarstu hvern kjötbitann ofan í mig á fætur öðrum. Í fangi þínu borðaði ég af bestu lyst. Oft dvöldum við drjúga stund við að spila Ólsen ólsen, stundum sakaði ég þig um svindl en mér tókst aldrei að sanna það á þig.

Að dunda sér í garðinum í Lundi á meðan þú varst að vinna garðverkin voru góðar stundir. Það toppaði oft daginn að fá harðfisk hjá þér sem þú barðir með sleggjunni á steininum góða til að gera hann mýkri. Oft var ég búinn að fá að skoða hjá þér fjársjóðinn sem var safn af gömlum seðlum og mynt. Stundum ef ég var heppinn þá gaukaðir þú að mér seðli í litla safnið mitt.

Eftir því sem árin liðu fórum við æ oftar að skiptast á skoðunum. Ekki vorum við alltaf sammála en það var alltaf fullt rými hjá okkur fyrir skoðanir hvors annars. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þú sendir mér tóninn á unglingsaldri. Þá var mikil tíska að vera með derhúfur. Ég lærði það fljótt af þér að það væri ekki boðlegt að setjast við matarborðið með derhúfuna á höfðinu. Ég lét ekki segja mér það tvisvar.

Þegar ég var kominn til manns og aðeins farinn að smakka það, þá áttum við góðar stundir á gamlárskvöldum í Lundi. Þú kenndir mér að vera ekki að skála fyrir nýju ári í einhverju freyðivínssulli. Nei, alltaf var skálað í koníaki. Ég mun viðhalda þeim sið afi minn, hafðu engar áhyggjur af því. Annað sem vert er að nefna og margir sem yngri eru gætu tekið sér til fyrirmyndar, er hvernig þú komst fram við ástina í lífi þínu. Líf ykkar hjóna var ekki alltaf dans á rósum en þú varst alveg meðvitaður um að án ömmu gætir þú ekki verið.

Það var svo margt sem þú kenndir mér en þegar ég horfi til baka þá var stærsti lærdómurinn fólginn í því að fylgjast með því hvernig þú lifðir lífinu. Þó það væri oft þjóstur í þér þá sýndir þú öllum virðingu. Alltaf vannstu mikið hvort sem það var í þinni föstu vinnu eða þegar þú varst kominn á eftirlaunaaldur og áttir að vera sestur í helgan stein. Þú varst sjálfsagt ekki talinn í hópi hinna efnameiri en samt stóðstu alltaf skil á þínu og áttir oft aur til að láta afkomendurna hafa svo lítið bæri á.

Þegar ég skrifa þessar línur er mér efst í huga þakklæti fyrir að þú varst partur af mínu lífi svo lengi. Mikill vill meira og auðvitað vildi ég hafa þig miklu lengur en 93 ár er dágóður tími og þú hefur skilað þínu. Ég er því viss um að þú ferð til Lykla-Péturs sáttur við bæði guð og menn.

Far vel afi minn, við hittumst heilir þegar minn tími kemur.

Þorleifur Kristinn Níelsson.

Nú er hann afi farinn á feðranna fund. Minningarnar streyma fram. Undarlegt tómarúm myndast. Líf mitt hefur verið samofið lífi hans í svo mörg ár og ég á honum svo margt að þakka. Hann var mér sem annar faðir enda kallaði ég hann oft afa-pabba.

Frá barnsaldri hef ég átt mitt skjól á heimili afa og ömmu í Lundi og dvaldi þar oft dögum saman og fékk þá að kúra í holunni hjá þeim. Minnist afa að lesa í bók á kvöldin með gleraugun á nefinu. Það var hann sem kenndi mér að lesa, aðeins fimm ára gamalli. Sat með mig í fanginu í ruggustólnum og lét mig stafa í Stafrófskverinu.

Á unglingsárunum þegar ég gisti, svaf ég í „herberginu hans afa“. Hann vakti mig á morgnana með því að koma í dyrnar og bjóða blíðlega góðan daginn. Þegar ég svo kom fram var búið að reiða fram morgunmat og ég naut oft þeirrar þjónustu sem mig grunar að börnin hans hafi ekki fengið, það er að hann skutlaði mér í skólann á bílnum. Undir á stundum hrjúfu yfirborðinu var nefnilega blíður og góður afi.

Á vorin réðumst við oft saman til atlögu við snjóskaflana í garðinum í Lundi. Mokuðum þeim til og dreifðum á þá sandi til að flýta nú fyrir bráðnuninni svo hægt yrði að byrja að hlúa að gróðrinum. Garðvinnan og gróðurinn urðu nefnilega eitt aðaláhugamál afa með árunum. Mörgum stundunum var hann búinn að eyða bæði heima við Lund og ekki síður á Blettinum þar sem hann og amma gróðursettu heilmikið af trjám.

Afi var frægur innan fjölskyldunnar fyrir áhuga sinn á kartöfluræktun og nokkur skiptin var ég búin að aðstoða hann í þeirri vinnu. Setja niður, taka upp, þvo, þurrka og flokka kartöflur voru fastir með liðir með afa árum saman.

Ég minnist afa í fiskbúðinni, á trillunni Farsæl, sem fiskmatsmanns í Rækjunni og Alla-húsinu. Dundandi í skúrnum eða garðinum. Farandi til berja. Í laxveiðitúrum. Nuddandi tær með svæðanuddi. Gruflandi í ættfræðiforritinu Espolin í tölvunni. Búandi til alls kyns smáhluti og allt upp í heilu þorpin við skrifborðið í herberginu sínu og áfram mætti telja.

Saman höfum við afi gengið í gegnum súrt og sætt og seinni árin eftir að heilsa hans tók að bresta var mér það bæði ljúft og skylt að borga til baka alla þá hlýju og umönnum sem ég hef fengið frá afa í gegnum árin með því að rétta honum hjálparhönd.

Elsku afi-pabbi. Ég er þess fullviss að nú gengur þú á grænum grundum betri staðar, hvíldinni feginn. Hafðu þökk fyrir allt. Minning þín lifir.

Þín

Birgitta Níelsdóttir (Bigga).

Þá er afi dáinn. Hann fékk hægt andlát. Að þessu hafði stefnt lengi, trúlega of lengi fyrir jafn óþolinmóðan mann og afa. Nú er hann farinn að róa hinum megin og líklegt að honum hafi fundist tími til kominn.

Afi fæddist í Miðkoti en bjó bróðurpart lífsins að Karlsbraut 13, í Lundi eins og húsið heitir. Þaðan eigum við bræðurnir minningar frá því að við fyrst munum eftir okkur. Það var fastur punktur að dvelja eins og viku, hálfan mánuð á hverju sumri í Lundi og alltaf var maður velkominn, alltaf var tími fyrir barnabörnin. Að dunda með afa og ömmu í garðinum, það þurfti að smíða pall, gróðursetja, gera við, koma upp allskonar skrauti og slá grasið. Þetta var oft hörkuvinna og gamli sló hvergi af. Stundum brast þolinmæðin og þá gat hann átt til að æsa sig en það varði aldrei lengi. Hann afi var ekki langrækinn maður en duglegur mjög og verkheiftin var svo sannarlega til staðar. Svo munum við eftir okkur á leið til og frá vinnu með afa. Hann starfaði sem fiskmatsmaður síðustu ár starfsævinnar og þegar við vorum hjá afa og ömmu í Lundi, fórum við stundum með afa niður að höfn að hitta fólk og reikna út afla. Hann átti líka trillu, „Farsæl“ og stundum fórum við á sjó með honum. Það var alltaf tilhlökkunarefni. Ein jól áttum við bræðurnir hjá afa og ömmu á Dalvík. Það voru jólin 1983 þegar fjölskyldan bjó í Reykjavík en við dvöldum yfir jólin hjá afa og ömmu. Það voru góð jól.

Okkur bræðrum eru líka minnisstæðar veiðiferðirnar sem við fórum með afa niður á bryggju á Dalvík. Fyrstu árin fór afi alltaf með okkur í þessa veiði, sem oft gat verið talsverð, en síðar fórum við bara tveir bræðurnir, vel græjaðir frá afa. Þá er ekki annað hægt en minnast á maðkatínsluna sem við stunduðum grimmt með afa. Í garðinum í Lundi var allt krökkt af maðki og hann tíndum við eins og við ættum lífið að leysa, jafnvel þótt engin veiði væri framundan. Sá gamli sýndi þessu áhugamáli okkar bræðranna dæmalausan skilning og lagði það oft á sig að hjálpa okkur að vökva garðinn heilu og hálfu dagana ef svo hitti á, að ekki kom rigning þann tíma sem við dvöldumst í Lundi. Þá var hann með okkur úti langt fram á nótt við tínsluna og sótti með okkur mosa til að geyma maðkinn í daginn eftir. Eftir á að hyggja er ekki ósennilegt að hann hafi haft alveg jafn gaman af þessu og við, enda veiðieðlið sterkt.

Við bræðurnir erum þakklátir fyrir þann tíma sem við fengum með afa. Þakklátir og auðmjúkir enda forréttindi að hafa fengið að njóta samvista við hann svona lengi. Það er ómetanlegt að hafa kynnst slíkum manni sem hann var. Við erum líka þakklátir fyrir þá arfleið sem við fengum frá honum í gegnum móður okkar. Verkheift og ákveðið skapferli er nefnilega ekki öllum gefið.

Ömmu færum við innilegar samúðarkveðjur.

Þorgeir og Teitur

Sveinssynir.

Elsku afi.

Eftir langa bílferð frá borginni var alltaf dýrðlegt að hlaupa upp stigann í Lundi, inn í eldhús í fangið á þér og ömmu. Sama hvort við vorum börn eða fullorðin, tilhlökkunin og tilfinningin var alltaf sú sama að koma heim í Lund. Þú þóttist ekki skilja hvað við vorum að segja þegar við vorum nýkomin norður, spurðir okkur hvort við kynnum ekki almennilega íslensku, við vorum ekki nema dagstund að ná upp norðlenska hreimnum og töluðum harðar en dæmigerðir Svarfdælingar þér til ómældrar ánægju.

Eldhúsið var hjartað í Lundi, þar sátum við og sungum með þér og hlustuðum dolfallin á sögurnar þínar. Ekki skemmdi fyrir þegar þú gafst okkur ís í bolla með sögustundinni, þú sast í stólnum þínum við eldavélina og við krakkarnir á gólfinu. Þú kenndir okkur svo margt, þú sást til þess að við yrðum hörð af okkur t.d. með því að leyfa okkur sjaldnast að vinna í kasínu, það voru engin grið gefin.

Minningarnar sem streyma um hugann á svona stundu eru óteljandi, veiðiferðirnar á trillunni þinni, garðurinn sem þið amma ræktuðuð af alúð, bletturinn í fjallinu, bryggjuferðirnar, brasið í bílskúrnum, harðfiskurinn sem þú kenndir okkur að berja, ormatínslurnar seint á kvöldin með vasaljós í garðinum, tómatarnir og rósirnar í eldhúsglugganum, raulið við uppvaskið, vasahnífurinn sem þú varst alltaf með við höndina, sixpensarinn þinn, pípan, axlaböndin, blái vinnusloppurinn, vísurnar, ljóðin og stökurnar þínar, handverkið sem þú dútlaðir við, pennasafnið þitt, bílferðirnar í Svarfaðardalinn, berjamó í fjallinu, kenna okkur að blístra, indíánatjaldið, fjársjóðsferðirnar í dimma kjallarann í Lundi, dagbækurnar sem þú hélst í tugi ára og gaman var að skoða hvað þú skrifaðir þá daga sem við fæddumst.

Afi, takk fyrir allar stundirnar sem við áttum með þér, takk fyrir allt sem þú kenndir okkur, takk fyrir að vera afi okkar.

Ásta Brynja, Sigurlaug María, Jóhann Páll.

Sigurpáll Anton, föðurbróðir minn, var vafalítið saddur lífdaga er hann féll frá. Hann var síðastur á lífi alsystkinanna, Guðlaugsbarna, frá Miðkoti á Upsaströnd er þar ólust upp snemma á síðustu öld. Eftir lifir hálfbróðir þeirra á Dalvík, Arngrímur Ægir. Öll systkinin sem upp komust settust að á Dalvík og bjuggu fjögur þeirra þar í sömu götunni lengst af búskapartíð sinni ásamt mökum sínum og börnum. Við frændsystkinin af þessum ættlegg vorum 17 sem ólumst að mestu upp í Karlsbrautinni um miðja 20. öld. Eru þar þá ekki meðtalin eða gleymd þau frændsystkini af sömu kynslóð sem ólust upp í næsta nágrenni, á æskuslóðum foreldranna í Miðkoti.

Ekki er það nýlunda, að systkinum svipi saman til orðs og æðis. Svo var það um systkinin frá Miðkoti. Röskleiki til allra verka var þeim í blóð borinn samfara skýru og ómenguðu tungutaki sem sumum gat á stundum virst bera vitni um hrjúft lundarfar. Kannski er það einkenni margra sem alast upp við kröpp kjör að geta svarað fyrir sig ef því er að skipta en þá verður jafnframt að búa að baki hæfileikinn til þess. Miðkotssystkinin áttu auðvelt með að koma fyrir sig orði, hvort sem var óundirbúið eða undirbúið. Þennan eiginleika má einnig sjá hjá öðru núlifandi ættfólki þeirra og auðvelt er að rekja hann aftur í aldir. Miðkotssystkinin beittu þessum meðfædda hæfileika sínum í meðferð málsins í ríkum mæli til þess að lífga upp á tilveruna eins og sagt er og einkum var oft glatt á hjalla er þau komu saman og sögur voru sagðar. Engu fólki hef ég kynnst er jafn auðvelt átti umbúðalaust að sýna hlýju og samlíðan með öðrum er við átti.

Toni frændi bar einkenni Miðkotsfólksins í ríkum mæli. Á seinni árum er um hægðist lét hann eftir meðfæddri löngun og hæfileikum til þess að vinna að ýmsu handverki og liggur eftir hann margt fallegra og haglegra gerðra muna er margir njóta nú. Ég hygg þó að ekki sé minna um vert ýmislegt það sem hann lætur eftir sig í rituðu máli, bæði bundnu og óbundnu. Margt af þessu eru sögur, sagnir og kvæði í léttum dúr eins og hans var auðvitað von og vísa; annað alvarlegra eðlis: frásöguþættir og atburðalýsingar sem hafa sagnfræðilegt gildi.

Í heimsóknum mínum til þeirra Tona og Laugu (Sigurlaugar), konu hans, síðustu árin, er þau voru í húsi sínu Lundi, var mikið spjallað og oft brugðið á glens. Ljóst var síðustu misserin að heilsu frænda míns tók allmjög að hraka. Tungutakið og orðkyngin var þó söm við sig meðan kraftar leyfðu.

Laugu, börnum hennar og öðrum afkomendum votta ég nú innilega samúð mína.

Atli Rafn Kristinsson.

Til moldar er borinn frá Dalvíkurkirkju í dag Anton Guðlaugsson frá Miðkoti. Toni í Lundi eins og hann var af flestum kallaður var sáttur og saddur lífdaga. Hann var búinn að skila sínu dagsverki og vel það, bæði til sjós og lands. Hann var einn af frumbyggjum og máttarstólpum Karlsbrautarinnar. Ég finn æ betur að það voru ákveðin forréttindi að alast upp í Karlsbrautinni á seinni hluta síðustu aldar í því fjölskyldusamfélagi sem þá ríkti. Allar götur frá því að undirrituð hafði líkamsburði til að ganga var trítlað yfir í Lund. Alltaf var pláss í Lundi fyrir okkur krakkana frá Reykholti. Milli fjölskyldu minnar og fjölskyldunnar í Lundi ríkti bræðraband og vinátta sem aldrei slitnaði. Hjónin í Lundi og börn þeirra hafa alla tíð verið mér og mínu fólki mikils virði.

Toni var meðalmaður á hæð, myndarlegur hvar sem á hann var litið, þéttur á velli og þéttur í lund og rammur að afli. Oft var fjör á eldhúsgólfinu í Lundi þegar frændur tókust á við Tona í krók, krumlu eða sjómann. Hann hafði þá alltaf. Toni var fastur í skoðunum og hvikaði ekki frá þeim ef hann áleit sig hafa rétt að mæla. Það var því ekki alltaf lognmolla í eldhúsinu í Lundi þegar skipst var á skoðunum um stjórnmál o.fl.

Tona var flest til lista lagt, hvort sem var til hugar eða handa. Því til vitnis eru fagurlega unnir munir úr efnum beint úr náttúrunni s.s. fiskibeinum steinum og skeljum. Þá lá bragfræðin vel fyrir honum og orti hann mikið af ljóðum og tækifærisvísum. Hann var sögumaður góður og unun var að hlusta á Tona á góðri stund segja sögur af sjónum, en þar starfaði hann um langa hríð. Eftir að sjómennsku lauk vann hann við fiskvinnslu í landi. Toni hafði sérlega fallega söngrödd. Hann söng bassa í áraraðir með Karlakór Dalvíkur og Kirkjukór Dalvíkur. Saman ræktuðu þau hjón garðinn í Lundi svo af öðrum görðum bar. Að lokum gef ég Tona orðið:

Drottinn minn ég þakka þér

allt það sem þú gefur mér.

Leið þú mig um lífsins braut

og líkna mér í hverri þraut.

Ég kveð Tona föðurbróður minn með virðingu og þakklæti fyrir allt.

Ég og fjölskylda mín sendum Laugu og krökkunum frá Lundi og fjölskyldum þeirra samúðar- og þakkarkveðjur fyrir allt og allt og biðjum Guð og góðar vættir að vernda ykkur.

Svanhildur Árnadóttir.

Fréttin um andlát Tona í Lundi kom mér ekki á óvart. Ég er þakklát forsjóninni fyrir að ég er stödd á landinu og get fylgt Tona til grafar í dag. Minningarbrotin eru mörg enda langt síðan ég kynntist þeim Tona og Laugu í Lundi. Ég, Reykjavíkurbarnið, tók þá ákvörðun vorið 1968, að fara í Menntaskólann á Akureyri. Ævinlega þakklát fyrir þá ákvörðun og þar með var ég farin að heiman og fjárhagslegt sjálfstæði mitt hafið, enda sagði pabbi að mér væri frjálst að fara norður en það þýddi að ég yrði að kosta mig sjálf. Í MA urðu kynnin við bekkjarfélagana að ævarandi vináttu sem með árunum varð skilyrðislaus. Á kvennavistum MA vorum við stelpurnar á Spena saman í bekk. Anna Dóra, dóttir Tona og Laugu í Lundi, var ein af þeim. Það mun hafa verið haustið 1969, sem ég kom fyrst í Lund. Anna Dóra bauð mér í helgarheimsókn til foreldra sinna. Helgarleyfið fékkst umyrðalaust, en þess verður að geta að okkur var gert að vera komin inn á heimavist eigi síðar en hálftólf. Móttökurnar í Lundi líða mér aldrei úr minni. Við Anna Dóra sváfum niðri og mér var gert að sænga með bestu og stærstu sæng heimilisins; sængina hans Tona. Frostrósir á glugga eru mér minnisstæðar enda búið lengst af við Hitaveitu Reykjavíkur. Annað var maturinn; heimilismatur af bestu gerð og er mér einna minnisstæðast soðna brauðið hennar Laugu. Við Anna Dóra vorum svo lúsheppnar að það skall á norðan stórhríð og dvölin í Lundi lengdist um sólarhring. Margt var spjallað og eitt er víst að ekki vorum við Anna Dóra sammála Tona í pólitíkinni enda reið vinstri bylgjan um héruð hins vestræna heims og stúdentabyltingin vorið 68 hélt innreið sína í MA af fullum krafti haustið 1969. Skoðanir Tona voru ekkert nýtt fyrir mér, hann var sjálfstæðismaður eins og hann pabbi, svo ég var nokkuð sjóuð í umræðunni, fannst mér þá alla vega. Held þó ég hafi virt skoðanir hans sem og ég virti skoðanir pabba míns. Báðir voru þeir sjómenn og tekið virkan þátt í síldarævintýrinu, unnu stundum en töpuðu líka.

Uppfrá þessu kom ég ævinlega við hjá þeim Laugu og Tona, ef ég átti leið um Dalvík og naut frábærrar gestrisni. Sumarið 1976 kom ég í mýflugumynd við í Lundi. Var í vinnuferð með Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins. Kortlagði gróður Hríseyjar og fjallendi Svarfaðardals. Ég fékk stærðarinnar rófu í nesti. Á leiðinni inn í Svarfaðardal deildi ég rófunni milli okkar vinnufélaga. Þessi rófa er sú besta sem ég hef borðað, safinn lak út úr munnvikunum.

Toni hélt uppá eitt stórafmæli sitt fyrir sunnan, sama ár og bók Birgis Sigurðssonar kom út; Svartur sjór af síld. Þar var ég heppin með gjöf.

Þegar ég flyt af landinu og sest að á Grænlandi 1992 voru Toni og Lauga komin með landspildu í landi Dalvíkur og hófu skógrækt. Lundinn sá ég fyrst sumarið 2012 og þar er skógur í dag.

Toni minn, ég kveð þig í dag, mér er efst í huga þakklæti fyrir allt sem þú gafst mér. Blessuð sé minning Tona í Lundi. Laugu og fjölskyldunni allri sendi ég samúðarkveðjur.

Kristjana Guðmundsdóttur Motzfeldt.