Ólafur E. Rafnsson fæddist í Hafnarfirði 7. apríl 1963. Hann varð bráðkvaddur í Sviss 19. júní 2013.

Foreldrar hans eru Rannveig E. Þóroddsdóttir leikskólakennari, f. 1. febrúar 1936 og Rafn E. Sigurðsson, fv. forstjóri Hrafnistu, f. 20. ágúst 1938. Systkini Ólafs eru: 1) Sigþór R. útgerðartæknir, f. 23. apríl 1961, synir hans og Sigríðar Andersdóttur leikskólakennara, f. 24. október 1963, (skilin) eru Anders Rafn og Óskar. 2) Elísabet snyrtifræðingur, f. 7. apríl 1963, börn hennar og Bergþórs I. Leifssonar rafeindavirkja, f. 10. júlí 1964, (skilin) eru Erna og Fannar Logi.

Hinn 1. júlí 1989 kvæntist Ólafur eftirlifandi eiginkonu sinni, Gerði Guðjónsdóttur endurskoðanda, f. 24. júlí 1963. Foreldrar hennar eru Auður Jörundsdóttir, fv. skrifstofumaður, f. 16. júní 1923 og Guðjón Júlíusson pípulagningameistari, f. 1. október 1925, d. 30. nóvember 1980. Börn Ólafs og Gerðar eru: Auður Íris, f. 29. ágúst 1992, háskólanemi, Sigurður Eðvarð, f. 29. nóvember 1997, framhaldsskólanemi og Sigrún Björg, f. 19. júní 2001, grunnskólanemi.

Ólafur útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1982, hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1990 og hóf þá störf sem fulltrúi hjá hjá Lögmönnum sf. í Hafnarfirði. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdóm á árinu 1993. Í febrúar 1994 stofnaði hann ásamt Inga H. Sigurðssyni héraðsdómslögmanni Lögmenn Hafnarfirði ehf. Á árinu 1996 varð Bjarni S. Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður meðeigandi í stofunni. Ólafur sat í stjórn Lögmannafélags Íslands á árunum 2003-2004. Árið 2012 lauk Ólafur meistaragráðu í „European Sport Governance“ frá Institut d'Études Politiques de Paris. Ólafur hóf ungur að æfa íþróttir, æfði hjá FH bæði fótbolta og handbolta en á unglingsárunum hóf hann að æfa körfubolta með Haukum. Með Haukum varð hann bikarmeistari á árunum 1985 og 1986 og Íslandsmeistari 1988. Ólafur spilaði nokkra leiki með landsliðinu í körfubolta. Ólafur kom að þjálfun yngri flokka í körfubolta sem og meistaraflokka karla og kvenna hjá Haukum. Hann var einn af þeim sem komu á fót skipulögðum æfingum í hjólastólakörfubolta og var þjálfari þar um tíma. Ólafur sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Hauka 1989-1990. Frá 1990-2006 sat hann í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands og þar af formaður frá 1996. Hann var kjörinn forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2006. Ólafur sat í stjórn Evrópska körfuknattleikssambandsins (FIBA Europe), frá árinu 2002 og var kjörinn forseti þess árið 2010. Frá þeim tíma sat hann jafnframt í miðstjórn Alþjóðlega körfuknattleikssambandinu (FIBA World). Ólafur var í ótal vinnuhópum, nefndum og ráðum á vegum Körfuknattleikssambands Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Evrópska- og Alþjóða körfuknattleikssambandsins.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 4. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku Óli minn.

Þú tekur þig svo vel út

hvar sem þú ert.

Ótrúlega dýrmætt eintak,

sólin sem yljar

og umhverfið vermir.

Þú gæðir tilveruna gleði

með gefandi nærveru

og færir bros á brá

svo það birtir til í sálinni.

Sólin sem bræðir hjörtun.

Í mannhafinu

er gott að vita

af englum

eins og þér.

Því að þú ert sólin mín

sem aldrei dregur fyrir.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Bestu þakkir fyrir frábær þrjátíu ár og þrjú yndisleg börn. Þín er sárt saknað en minning um góðan og traustan eiginmann og föður mun lifa.

Love.

Gerður.

Elsku pabbi.

Við vitum ekki hvar við eigum að byrja, það er svo mikið sem við gætum skrifað. Við trúum ekki enn að þú sért farinn frá okkur. Þetta gerðist allt svo hratt. Við eigum margar frábærar minningar um þig en hefðum af öllu hjarta viljað eignast fleiri minningar. Við viljum trúa því að þér var ætlað eitthvað meira og stærra hlutverk annars staðar þar sem þú varst mikill leiðtogi og fólk hlustaði á þig.

Þú kenndir okkur svo mikið – kenndir okkur á lífið og tilveruna, lést okkur pæla í öllu, vildir að við mynduðum okkar eigin skoðanir á okkar forsendum. Þú studdir okkur í skólanum og íþróttunum. Það var magnað að þú mættir á alla leiki sem þú mögulega komst á. Okkur fannst gaman þegar þú kíktir á æfingar hjá okkur en þá vildum við gera allt 200% þegar þú varst á staðnum. Þú varst góður leiðbeinandi, það var svo gott að setjast niður með þér og ræða leikina en þú fannst alltaf ljósu punktana, við spiluðum aldrei skelfilega í þínum augum þótt okkur hafi fundist við eiga okkar versta leik. Þú kenndir okkur að vera jákvæð og sjá alltaf góðu punktana í öllu og það mun hjálpa okkur að komast í gegnum þennan erfiða tíma núna. Það sem er samt frábærast er að þú gast sinnt okkur öllum, þremur börnunum og mömmu, verið í öllum þessum nefndum þínum og sinnt öllum störfum þínum. Við pældum oft í því hvernig þú færir að þessu og okkur þótti fjarvera þín frekar erfið.

En pabbi, þín verður svo sárt saknað að við eigum ekki til orð. Við eigum eftir að sakna þess að spjalla við matarborðið á kvöldin, við eigum eftir að sakna þín á leikjunum okkar, við eigum eftir að sakna þess þegar þú komst heim og byrjaðir strax að stríða okkur, purra okkur eða kitla. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna. Þessi tími er erfiðasti tími lífs okkar því það er svo sárt að hafa þig ekki hjá okkur. Við elskum þig óendanlega mikið og vitum að þú átt eftir að fylgjast með öllu sem við gerum. Þú verður alltaf til staðar í hjarta okkar.

Börnin þín,

Auður Íris (stóra-mús), Sigurður Eðvarð (Siggi piggi pottormur) og Sigrún Björg (pabbastelpa).

Kæri bróðir.

Tilfinningarnar, svefnleysið, vanmátturinn, ofsaleg reiðin og endalausar spurningar: af hverju, hvers vegna, hver er tilgangurinn með svona fráfalli hrannast upp í höfðinu.

Það eru náttúrlega hvorki til svör né rök fyrir svona hlut. Allavega hefðum við Óli ekki komist að neinni vitrænni niðurstöðu um þetta. Við hefðum líklega rökrætt þetta þangað til fólk væri farið að segja oft jájá eða labba fram og gera eitthvað annað. En stundum vorum við komnir í þann ham við matarborðið að hvorugur ætlaði að gefa sig og hætta. En eftir nokkrar mínútur var allt fallið aftur í ljúfa löð, því líklega höfðum við bara mest gaman af því að vera ósammála bara til að vera ósammála.

Síðast þegar ég kvaddi þig, Óli, var þegar þú hélst upp á 50 ára afmælið með okkur í fjölskyldunni á Argentínu steikhúsi. Maður getur yljað sér við það að síðasta faðmlagið var innilegt eins og alltaf.

Þú varst alltaf uppfullur af hugmyndum, enda alltaf að breyta og endurbæta og leitandi að nýjum hugmyndum og tækifærum. Þú hefur einfaldlega alltaf verið svona. Þú áttir svo margt eftir ógert þótt þú hafir áorkað miklu. Þú varst góður penni og hefðir örugglega náð langt á því sviði, enda var alltaf gaman að lesa pistlana frá þér á vef ÍSÍ.

Ég átti oft erindi á vinnustað Auðar, tengdamömmu Óla, og hafði þar af leiðandi kynnst henni aðeins. Allt í einu fór hún að spyrjast mikið fyrir um þig, Óli. Í fyrstu áttaði ég mig ekki á þessum áhuga hjá henni á þér en seinna kom í ljós að hún vildi bara vita allt um þennan dreng sem síðar varð tengdasonur hennar og hún varð örugglega ekki fyrir vonbrigðum.

Þín mesta gjöf í lífinu var að þú skyldir kynnast henni Gerði. Betri lífsförunaut, vin og ráðgjafa er vart hægt að fá og saman eignuðust þið þrjú börn, Auði Írisi, Sigurð Eðvarð og Sigrúnu Björgu.

Eftir að við yfirgáfum hótel mömmu, svolítið mikið dekraðir báðir tveir, tók alvara lífsins við. Ég fór aðeins á undan að heiman og gekk nokkuð vel en ég efast um að litli mömmustrákurinn sem þú varst, Óli minn, hafi nokkurn tímann kunnað að nota þvottavél. Við höfum alltaf búið nálægt hvor öðrum eftir að við fórum að búa, farið saman þvers og kruss um Norðurbæinn. Strákarnir mínir eru mikið heima hjá ykkur Gerði og öfugt, ef það er orðið framorðið þá bara sofa þeir, ekki málið. Og þeir kvarta í Gerði að þeir fái ekkert að borða heima hjá sér og hvort hún eigi ekki einhvern smá bita. Þú og Gerður höfðuð bara gaman af þessu og gáfuð þeim að borða.

Þú hringdir oft í mig bara til að spjalla, þá spurði ég: „Hvar ertu?“ Þá gat svarið verið: „Ég er nú bara heima hérna á Miðvangi 5“ eða í Istanbúl eða kannski að bíða eftir flugi einhvers staðar annars staðar, alltaf á ferðinni. Þetta voru alltaf skemmtileg símtöl og ég mun alltaf vera með símanúmerið þitt í símanum mínum á meðan ég hef síma. Kannski verður GSM-samband þar sem við hittumst næst.

Megi minning um góðan bróður lifa.

Þín verður sárt saknað.

Kveðja,

Sigþór.

Elsku Óli, það er ótrúlegt að við séum að kveðja þig í dag núna þegar fyrri helmingnum er rétt að ljúka og tími til að njóta afraksturs erfiðisins er rétt handan við hornið. Á svona tímum er þó gott að eiga góðar minningar til að ylja sér við, rifja upp og minnast.

Hlátur, húmor, ákveðni, nákvæmni og skilyrðislaus vinátta koma upp í hugann þegar við minnumst þín. Einnig varð okkur tíðrætt um það hvað þú þurftir að ferðast mikið og göntuðumst við oft með það að forsetar væru auðvitað önnum kafið fólk. Við nutum þess því meir þegar við hittumst að spjalla um það sem á daga okkar hafði drifið frá því síðast og hafðir þú áhuga á öllu því sem viðkom okkur og áhugamálum okkar. Þú varst einnig duglegur að leyfa okkur að fylgjast með því sem fram fór í þínu lífi, segja okkur stoltur frá afrekum barnanna og ferðalögum. Jólakortin ykkar Gerðar voru einstök og báru þess merki að allt sem þú gerðir gerðir þú vel.

Við kveðjum í dag góðan frænda og vin, minning um góðan dreng hlýjar hjörtum okkar á erfiðum stundum.

Elsku Gerður, Auður Íris, Sigurður, Sigrún, Sissa, Rabbi, Elísabet, Sigþór og fjölskyldur, hugur okkar er hjá ykkur.

Ykkar

Guðbjörg, Sigurður,

Rannveig og Þórdís.

Í dag kveðjum við Ólaf Rafnsson. Það eru 29 ár síðan hún Gerður okkar kynnti Óla fyrir fjölskyldunni, hávaxinn og dökkhærðan strák úr Hafnarfirði. Kynningunni fylgdi að hann væri körfuboltamaður úr Haukunum og okkur varð þar með ljóst að íþróttir voru honum hugleiknar. Óli féll vel inn í fjölskylduna enda var hann með góða kímnigáfu og góðlátlega stríðni sem hentaði okkur. Fljótlega komu þau sér fyrir í Hafnarfirði og hafa búið þar alla tíð síðan. Að námi loknu tóku við annasöm ár í starfi og svo komu börnin, þau Auður Íris, Sigurður og Sigrún. Óli var stoltur af börnunum, studdi þau í hvívetna og var ánægður við þá áfanga sem urðu í þeirra lífi. Hann var glaður yfir íþróttaáhuga þeirra og höfum við hann grunaðan um að hafa þar sáð einhverjum fræjum. Óli hafði gaman af fjölskylduboðum, bæði naut hann þess að taka á móti fólki á fallegu heimili þeirra Gerðar og að mæta í veislur. Sérgrein Óla í matargerð var sveppasteiking og sósugerð. Að hans mati var ekki hægt að ná lengra á því sviði og líklega er það rétt. Þegar við komum saman var hann einkar hlýr og ræðinn við alla hvort sem það voru börn eða fullorðnir. Þessir eiginleikar nýttust honum ekki síður í starfi enda valinn til forustu hjá íþróttahreyfingunni.

Það er gott að muna eftir utanlandsferðum sem við fórum öll í saman til að fagna stórviðburðum í fjölskyldunni eins og giftingum og stórafmælum. Þar var Óli í essinu sínu. Hann naut þess að vera í sól og hita, skoða sig um, borða góðan mat og spjalla á kvöldin. Óli tók margar myndir sem hann vann áfram og setti inn texta og útskýringar. Þannig liggur eftir hann stórt myndasafn sem gaman og gott er að skoða þegar rifja skal upp góðar stundir.

Við kveðjum góðan dreng allt of fljótt. Það er erfitt að hugsa sér að hann sé farinn. Söknuðurinn er mikill en við erum rík af góðum minningum. Auður tengdamamma minnist þess hversu hlýr og natinn hann var við hana alla tíð. Sömu sögu hafa börnin okkar að segja.

Mestur er söknuðurinn og missirinn hjá fjölskyldunni, þeim Gerði, Auði Írisi, Sigga og Sigrúnu. Þá syrgja foreldrar og systkini Óla góðan og traustan son og bróður. Hugur okkar er hjá ykkur. Megi góður Guð styrkja ykkur öll.

Hvíl í friði kæri vinur.

Auður Jörundsdóttir, Sigurður Guðjónsson, Guðríður Guðfinnsdóttir, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir, Ágústa Guðjónsdóttir, Gert Fisker Tomczyk.

Ólafur Rafnsson var einstakur maður og einn minn nánasti vinur. Ég mun sakna löngu símtalanna þar sem rætt var um flest milli himins og jarðar, ég mun sakna þess að hitta hann ekki í Íþróttamiðstöðinni í hádeginu eða þegar hann átti leið hjá. Ég minnist með þakklæti síðasta heimboðsins til Óla og Gerðar í vor, þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið. Ég er þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, vináttuna, hjálpsemina og væntumþykjuna.

Við kynntumst þegar hann kom til starfa í stjórn KKÍ, fyrst sem gjaldkeri og svo sem formaður. Við unnum náið saman allan þann tíma, bæði innanlands og utan. Körfuknattleiksíþróttin efldist jafnt og þétt og í mörg horn að líta. Við sóttum ótal fundi, þing og ráðstefnur, innanlands og utan, að ógleymdum landsliðsferðum. Fjárráð KKÍ voru ekki mikil og því gistum við venjulega saman á ferðalögum okkar í tveggja manna herbergi til að spara og grínuðumst með að við hefðum sofið oftar hvor hjá öðrum en hjá eiginkonunum. Í störfum sínum vildi Óli ræða sig niður á niðurstöðu. Hann kunni vel að meta góðar rökræður og fannst þær nauðsynlegar til að fá fram sjónarmið samstarfsfólksins. Fannst sumum að Óli legði sig of mikið fram við að ræða málin í þaula. Það var samt einn af hans meginkostum því þegar niðurstaða lá fyrir stóð fátt í vegi fyrir framkvæmdum. Ef niðurstaðan var hinsvegar sú að hugmyndin, þó hún væri hans, var ekki góð eða ekki framkvæmanleg, sætti hann sig auðveldlega við niðurstöðuna og snéri sér að næsta verkefni, næstu hugmynd.

Óli var forystumaður sem náði árangri í störfum sínum. Hann var valinn til forystu hjá KKÍ, ÍSÍ, FIBA Europe og FIBA World. Það gerðist ekki fyrir tilviljun. Ólafur var mannkostamaður sem menn vildu styðja vegna þess sem hann stóð fyrir. Hann lagði áherslu á heiðarleika, lýðræði og gegnsæi í sínum störfum. Minnisstæð eru orð hans þegar hann í ræðu þakkaði fyrir kjör sem forseti FIBA Europe. Hann sagði í lauslegri þýðingu: „Ykkur á ég allt að þakka, en ég skulda engum neitt,“ og átti þá við að kosningabarátta hans fór fram á heiðarlegan hátt, enginn átti inni hjá honum óeðlilegan greiða fyrir stuðninginn. Einn af styrkleikum Óla var að hann fór ekki í manngreinarálit. Það skipti hann ekki máli hvort hann var að tala við forseta Evrópuríkis, forseta alþjóðlegs sérsambands eða formann héraðssambands hér á Íslandi. Munurinn var kannski að honum hafi fundist sá síðastnefndi áhugaverðastur.

Óli var hrifinn frá okkur í blóma lífsins sem er sorglegra en tárum taki. Þrátt fyrir að Óli hafi náð afar langt innan íþróttahreyfingarinnar var hann aðeins fimmtugur þegar hann féll frá. Framtíðin blasti við og margir möguleikar í stöðunni. Svo margt var eftir ógert, svo mörg spennandi verkefni framundan.

Ég kveð minn kæra vin með söknuði og þakklæti.

Við Sigrún og okkar börn vottum Gerði, Auði, Sigga og Sigrúnu okkar dýpstu samúð. Ykkar missir er mestur.

Pétur Hrafn Sigurðsson.

Góður og kær vinur er fallinn frá í blóma lífsins. Þær eru ófáar gæðastundirnar sem fjölskyldur okkar hafa átt saman í gegnum árin. Óli á ríkan sess í huga dætra okkar hjóna en þær hafa átt erfiða daga ásamt okkur hinum eftir fregnirnar um skyndilegt og ótímabært fráfall. Óli var góður drengur sem bjó yfir miklum hæfileikum, dugnaði, persónutöfrum og mannkostum eins og dæmin sanna í öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem honum voru falin um ævina. Það er gott dæmi um elju hans og nákvæmni að hann var ætíð með öll smáatriði á hreinu s.s. afmælisdaga allra barna vina og vandamanna og hann hafði ekkert fyrir því enda vel af guði gerður. Við eigum eftir að sakna hans sárt um ókomna tíð, allra góðu stundanna, góðlátlegu stríðninnar og skoðanaskiptanna. Minningin um hann mun lifa með okkur sem vorum svo heppin að fá að kynnast honum. Hann var lánsamur í fjölskyldulífi sínu og mikill er missir hans einstöku eiginkonu og barna.

Guð gefi Gerði, Auði, Sigga, Sigrúnu, foreldrum og systkinum styrk til að takast á við sorg sína. Minning um elskulegan eiginmann, föður, son, tengdason og bróður mun lifa. Blessuð sé minning þín kæri vinur og takk fyrir allt.

Guðmundur Gylfi

Guðmundsson og

Helga Aspelund.

Elsku Óli, það er erfitt að lýsa í orðum þeim tilfinningum sem bærast í brjósti mínu á þessari stundu og hafa síðustu tvær vikur verið afar erfiðar, bæði mér, fjölskyldu minni og okkur öllum sem vorum svo heppin að fá að kynnast þér, eiga þig sem vin og frábæran félaga, og verður að viðurkennast að hugurinn hefur sem aldrei fyrr reikað til allra þeirra ára sem við spiluðum saman í Haukum. Ég var svo heppinn að fá að stíga mín fyrstu skref bæði sem leikmaður í meistaraflokki og þjálfari með þig mér við hlið.

Fregnir af andláti þínu voru reiðarslag fyrir alla sem þig þekktu og er ljóst að íþróttahreyfingin hefur misst frábæran leiðtoga og forsvarsmann. Það sem þú gerðir fyrir körfuboltaíþróttina, bæði sem leikmaður, þjálfari, formaður KKÍ og nú síðustu ár sem æðsti maður körfuboltans í Evrópu sem forseti FIBA, verður aldrei fyllilega hægt að meta og má með sanni segja að þú hafir lagt lífið að veði í þeirri viðleitni þinni að gera íþróttinni sem þú unnir meira en flestir aðrir hátt undir höfði. Þegar fram líða stundir mun þó minningin um frábæran dreng og góðan vin ylja okkur öllum sem þig þekktum um hjartarætur og þakka ég fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman. Það er greinilega þörf fyrir risastóran persónuleika eins og þig á æðra tilverustigi.

Sorg mín, fjölskyldu minnar og okkar félaganna bliknar þó í samanburði við þá raun sem elskuleg fjölskylda þín þarf nú að ganga í gegnum. Elsku Gerður, Auður, Siggi og Sigrún, ég bið guð að gefa ykkur styrk til að takast á við þetta mikla áfall. Kæri Óli, við sjáumst síðar.

Henning Henningsson.

„Dáinn, horfinn, harmafregn!“ (JH)

Hrikalegar fréttir bárust okkur bekkjarfélögum og vinum Óla miðvikudaginn 19. júní. Við höfum varla um annað hugsað og dauðleikinn blasir við. Óli er sá fyrsti úr okkar hópi sem fellur frá. Og hver hefði trúað því að það yrði hann? Þessi ótrúlega duglegi, jákvæði og góði maður með íþróttaáhuga og íþróttaanda á hæsta stigi. Var fyrstur til að láta vita að hann væri til staðar ef eitthvað bjátaði á, kunni að hrósa og kunni að þakka. Vinur vina sinna og gleymdi þeim aldrei, sama hvað hann hafði mikið að gera eða var orðinn „merkilegur“. Óli var alltaf Óli.

Minningarnar hafa hellst yfir. Við vorum svo heppin að lenda saman í mjög samstilltum og skemmtilegum bekk í Verzló þar sem flest okkar voru saman öll fjögur árin. Óli var góður námsmaður, skipulagður og sérlega vinnusamur. Hann vann t.d. á næturvöktum á Hrafnistu meðfram náminu í Verzló og HÍ og var á sama tíma á fullu í körfunni. Maður skildi ekki hvar hann fann tíma til að gera þetta allt þó hann hafi reyndar stundum náð að draga nokkrar ýsur í tímum. Óli nýtti tímann vel og tókst að vinna sér inn aukapening á næturvöktum fyrir ónefnda sleða bekkjarins með skilaverkefnum í vélritun (Albert er albata) og ritgerðum enda Óli frábær penni og fékk t.d. verðlaun fyrir færni í móðurmáli á stúdentsprófi. Ekki er heldur hægt að minnast gömlu daganna án þess að nefna nestið hans Óla sem allir bekkjarfélagar muna eftir. Þegar flestir voru með epli í nesti var hann með hálft samlokubrauð eða sex samlokur smurðar og einn lítra af Trópí. Fyrst hélt maður að þetta væri grín, en allt hvarf þetta í 15 mínútna frímínútum ofan í Óla sem var sérlega grannur og vel á sig kominn.

Eftir að stúdentsprófi lauk höfum við bekkjarfélagarnir haldið hópinn, þó mismikið. Óli var í innsta kjarna bekkjarins sem m.a. hefur hist árlega í útilegum með allan krakkaskarann, þar sem keppt er í hinum ýmsu íþróttagreinum. Óli var ómissandi í þessum félagsskap þó enginn vildi lenda í skriðtæklingum við hann. Hann innleiddi nýjar keppnisgreinar eins og Stinger og Ólapískar íþróttir sem var n.k. fjölþraut samin af honum með alvöru og gríni. Þessar samverustundir í útilegunum eru ómetanlegar okkur öllum og fjölskyldum okkar. Óli sinnti krökkunum alltaf sérlega vel. Hann var alltaf með á hreinu hvað hvert afkvæmi hét og hvað það var að gera, t.d. í íþróttum, og ræddi þau mál við krakkana af áhuga. Krakkarnir litu mjög upp til hans – enda var hann kallaður Óli forseti í okkar vinahópi og gantast var með að hann fengi að sofa inni í húsi meðan við værum í tjöldum. Vegna anna komst hann ekki alltaf og var þá ófrávíkjanleg regla að hringja í hann um miðja nótt sama hvar hann var staddur í heiminum.

Elsku Gerður, Auður, Siggi og Sigrún. Missir okkar er mikill en ykkar svo margfalt meiri. Megi Guð og góðar vættir og hlýjar hugsanir okkar veita ykkur styrk til að halda áfram. Minningin um elskulegan eiginmann, föður, vin og félaga mun lifa með okkur.

F.h. bekkjarfélaga 6-X í Verzló,

Klara og Þórir.

Vinarkveðja.

Drúpum höfði en ljósið lifir skært

í lífsins góðu verkum hans sem sefur vært,

vinarþel, alúð, mannvinurinn mesti,

þeir móta spor í sandinn, slíkir lífsins gestir.

Drúpum höfði en myndbrot ljóssins loga,

sú lifandi minning skapar himins boga

á kveðjunnar stundu, þakkir færum þeim

sem þennan góða dreng, færðu í okkar heim.

Drúpum höfði en ljósið leiðir för,

lifir björt minning þá bát er ýtt úr vör,

yfir munu vaka englar alla stund,

umvafinn kærleik á forfeðranna fund.

(Anna Karólína Vilhjálmsdóttir)

Með kærri þökk.

Innilegar samúðarkveðjur

til fjölskyldunnar.

Anna Karólína

Vilhjálmsdóttir.

„Hvernig er þessi strákur sem hún Gerður er að hitta?“ „Hann er hávaxinn, dökkhærður og mjög myndarlegur.“ Þessi einföldu orðaskipti eru mér minnisstæð, en þau áttu sér stað fyrir bráðum 30 árum þegar Óli kom inn í líf Gerðar vinkonu okkar. Nokkrum dögum síðar má segja að hann hafi komið inn í líf okkar allra hinna í vinahópnum. Þar kom fljótt í ljós hvaða mannkosti hann hafði að bera. Ég gæti sagt að hann hafi lagt sig fram um að kynnast okkur vinum Gerðar, en það væri einföldun. Persónuleiki hans var slíkur að hann, að því er virtist áreynslulaust, varð strax hluti af hópnum og fyrr en varði vorum við hætt að tala um hann sem Óla hennar Gerðar, og hann varð „bara“ Óli, hluti af hópnum og eini Hafnfirðingurinn í hópi sem í grunninn samanstóð af æskuvinum úr Kópavogi.

Þessi sextán manna vinahópur hittist fyrstu árin mjög reglulega, alltaf einu sinni í viku en stundum oftar og þá var gjarnan spilað. Óli var þar oftast sjálfskipaður regluvörður og lét okkur hin ekki komast upp með neitt múður. Með árunum fækkaði samverustundum eins og vill gerast þegar líf ungs fólks fer að snúast um börn, en vináttan hélst óbreytt.

Seinni árin hefur samveran oftar en ekki snúist um golf, og höfum við m.a. farið nokkrum sinnum saman til Spánar til golfiðkunar. Í fyrstu ferðinni var regluvörðurinn mættur strax í flugvélinni og útdeildi golfreglubókinni til okkar byrjendanna í íþróttinni. En hann var þó alltaf afslappaður og skemmtilegur spilafélagi og þessi mikla virðing fyrir lögum og reglum var hluti af hans stóra persónuleika sem okkur þótti öllum svo vænt um.

Óli hafði þann gagnlega hæfileika að muna öll nöfn, hvort sem um var að ræða örnefni eða mannanöfn, sem vissulega kom sér vel í þeim störfum sem hann gegndi. Þessi hæfileiki stafaði af einlægum áhuga á mönnum og málefnum og að kynnast þeim stöðum sem hann heimsótti. Hann hafði ótvíræða forystuhæfileika, dugnað og metnað sem engum duldist, en hann hafði líka til að bera mikla hlýju og skopskyn. Ef honum fannst rökræður okkar komnar í ógöngur hafði hann einstakt lag á því að snúa út úr á skemmtilegan hátt og skipta um umræðuefni.

Við ræddum mikið saman í síðustu golfferð og hann sagði okkur frá erfiðum verkefnum sem hann hafði verið að glíma við í sínum störfum. Þar skein í gegn hugsjón hans fyrir viðfangsefninu, en ekki síður þakklæti hans til Gerðar fyrir þann stuðning og skilning sem hún veitti honum alla tíð, en án hennar hefði hann ekki getað sinnt sínum hugðarefnum af þeirri ástríðu og elju sem hann einkenndi. Fjölskyldan var honum þó alltaf efst í huga og þau Gerður voru ávallt samhent í hverju því sem varðaði velferð barnanna.

Við höfum misst kæran vin og félaga en það er hjóm eitt hjá því sem fjölskyldan hefur misst. Elsku Gerður, Auður, Siggi, Sigrún og aðrir ættingjar, engin orð ná að tjá samúð okkar eða milda það mikla högg sem þið hafið orðið fyrir. En við munum ávallt standa við hlið ykkar og heiðra minningu góðs manns.

Sigríður María Torfadóttir og Arinbjörn Clausen.

Þegar fréttatilkynningin barst frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands um andlát Ólafs Rafnssonar þurfti ég að lesa hana þrisvar áður en sannleikurinn síaðist inn. Samt gat ég ekki trúað því að vinur minn Óli Rafns væri látinn.

Síðasta viðtalið sem ég tók á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg rúmum tveimur vikum áður var við Óla þar sem hugur hans var þegar við næstu leika í Reykjavík eftir tvö ár, en hann var formaður undirbúningsnefndarinnar. Síðasta fólkið sem ég knúsaði bless á flugvellinum í Brussel þegar hópurinn hélt heim á leið voru Óli og Gerður. Ekki grunaði mig að það yrði síðasta faðmlagið.

Óli var mikill leiðtogi sem sést best á því hve ungur hann valdist til trúnaðar- og forystustarfa í íþróttalífinu, bæði hér heima og erlendis. Hann var harðduglegur og skipulagður og náði á einhvern óskiljanlegan hátt að sinna með stökum sóma öllum störfunum sem hann tók að sér. En fyrst og fremst var Óli yndislegur drengur, góður vinur og mikill fjölskyldumaður. Alltaf þegar ég hitti hann skein hlýjan úr brúnu augunum og breiða brosinu. Í kjölfarið fylgdi síðan sannkallað bjarnarfaðmlag. Alltaf gaf hann sér tíma til að spyrja um fjölskylduna. Ekki af vana eða skyldurækni, heldur af einlægum áhuga.

Eins var manni alltaf ljós ást hans á eigin fjölskyldu og stolt yfir börnunum sínum. Þrátt fyrir mikla fjarveru og annir vegna starfa sinna var fjölskyldan alltaf efst í huga hans. Þau Gerður voru höfðingjar heim að sækja á fallegt heimili þeirra og mér er minnisstæð alúðin sem Óli sýndi við að steikja sveppina og velja rauðvínið áður en kjötinu var skellt á pönnuna og máltíðin fullkomnuð. Eftir á tóku síðan við samræður um lífið og tilveruna þar sem víðsýni hans og fordómaleysi nutu sín.

Óli hafði ríkan skilning á störfum íþróttafréttamanna og sem formaður KKÍ og síðar forseti ÍSÍ gekkst hann fyrir því að samstarfið við okkur var ávallt til fyrirmyndar. Hann gerði sér fyllilega grein fyrir erfiðum aðstæðum sem við vinnum stundum við og hjá honum fengum við fullan stuðning í okkar verkum.

Það er kaldhæðni örlaganna að stærsti kostur Óla, hlýja, stóra hjartað, skuli um leið hafa verið veikleikinn sem kostaði hann lífið og varð til þess að hann var hrifsaður frá okkur langt fyrir aldur fram.

Mér er heiður að því að hafa kynnst Óla og ég er stoltur af því að geta kallað hann vin minn. Ég sakna hjartahlýju hans og faðmlagsins, en get ekki gert mér í hugarlund það ginnungagap sem hann skilur eftir í hjörtum sinna nánustu. Þeirra er missirinn mestur. Gerði og börnunum sendi ég innilegustu samúðarkveðjur mínar.

Adolf Ingi Erlingsson.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Þessi orð úr Hávamálum komu upp í hugann þegar mér barst sú hörmulega fregn að góður vinur minn til margra ára, Ólafur E. Rafnsson, væri látinn. Hvernig má þetta vera að maður á besta aldri, rétt fimmtugur, er hrifinn burt frá eiginkonu, börnum, vinum og starfi? Enginn á sjálfsagt svar við því en kannski er eitthvað til í því sem ágætur maður sagði við mig á erfiðu tímabili í mínu lífi: „Lífið er ekki endilega réttlátt, lífið er bara lífið!“

Kynni okkar Ólafs hófust er ég tók við að þjálfa unga körfuboltastráklinga í 2. flokki Hauka í Hafnarfirði sem þá höfðu unnið sig upp í 1. deild og stefnan var sett á úrvalsdeild. Þetta var glæsilegur hópur og 7 af þeim áttu eftir að klæðast íslenska landsliðsbúningnum. Óli vakti fljótlega athygli mína fyrir hraða sinn og leikni en ekki síður fyrir beinskeytta og heiðarlega framkomu. Foringjahæfileikar voru ótvíræðir og áttu svo sannarlega eftir að koma betur fram síðar. Hann var harður í horn að taka og gaf ekki hlut sinn fyrir neinum, hvorki á æfingum né í leikjum. Þetta var maður að mínu skapi, keppnismaður fram í fingurgóma og þoldi ekki að tapa. Hann hafði óbilandi trú á sjálfum sér og það var nokkuð sama hvað maður bað hann um í leikjunum eða hvern hann átti að taka. Hann hræddist aldrei neitt og vék sér aldrei undan ábyrgð, stór orð en sönn. Hann missti nánast aldrei af æfingu og það var jú í þeim anda sem ríkti innan hópsins í þessi 4 ár sem ég var með þá. Ástundun og óbilandi áhugi skilaði þessum hópi 2 bikarmeistaratitlum á þessum 4 árum, óteljandi titlum í yngri flokkunum, frábærri frammistöðu í Evrópukeppni og 1 Íslandsmeistaratitli ári seinna.

Samband mitt við Óla og Haukastrákana varð mjög náið enda kenndi ég mörgum þeirra líka í Flensborg. Þarna myndaðist taug sem aldrei mun rofna og þeir allir og karfan í Haukum mun ætíð eiga stóran sess í hjarta mínu. Á engan er hallað þótt ég segi að samband okkar Óla hafi orðið meira og nánara en hinna enda störfuðum við saman í stjórn KKÍ í mörg ár og hittumst oft eftir það til skrafs og ráðagerða bæði hér á landi og erlendis.

Gerður, yndisleg eiginkona og félagi til margra ára ásamt börnum hefur misst eiginmann í blóma lífsins, þungur og erfiður er þeirra harmur. Ísland hefur misst einn af sínum bestu sonum, körfuknattleikurinn í Evrópu sinn foringja og íþróttahreyfingin á Íslandi án leiðtoga síns er sem lömuð af sorg. Við vinirnir skiljum þetta bara ekki, eða viljum ekki skilja þetta. Vonumst kannski bara til þess að við vöknum og að þetta hafi allt verið draumur. Því miður er það ekki og við verðum að sætta okkur við að traustur félagi er ekki lengur á meðal okkar. Minningin mun lifa, minning um góðan dreng sem á allt of stuttri ævi afrekaði meira en flestir aðrir.

Gerði, börnum, foreldrum Ólafs og öðrum tengdum sendi ég innilegar samúðarkveðjur og bið Guð að vaka yfir ykkur og styðja í sorg ykkar.

Einar Gunnar Bollason, fyrrv. formaður Körfuknattleikssambands Íslands.

Mér barst boð frá Ólafi Rafnssyni og Gerði konu hans um miðjan júní um teiti þeirra hjóna í tilefni fimmtugsaldurs þeirra beggja. Ég var rétt búinn að þiggja þetta boð, þegar harmafregnin barst um andlát hans. Sorglegt og óvænt reiðarslag.

Ólafur tók við af mér sem forseti ÍSÍ árið 2006. Áður hafði hann gegnt formannsembættinu í Körfuknattleikssambandi ÍSÍ. Þar hafði hann haslað sér völl, með röggsemi og atorku og augljósum mannkostum. Eftir að Ólafur tók við forsæti í Íþrótta- og ólympíusambandinu áttum við náið samstarf innan sem utan skrifstofunnar og með okkur tókst vinátta. Ólafur var heiðarlegur og einlægur í framkomu, drengskaparmaður og hvers manns hugljúfi. Forystuhæfileikar hans nutu sín í fjölmennri og útbreiddri íþróttahreyfingu og öllum var ljóst að Ólafur var réttur maður á réttum stað. Þar að auki var hann jákvæður, glaðlyndur, hreinskiptinn. Fríður sýnum, myndarlegur á velli, ræðumaður góður og sáttasemjari í hvívetna. Áhugi hans á íþróttum var einlægur og augljós, sem naut sín í smáu sem stóru. Bæði hann og hreyfingin öll.

Til marks um hversu flestum var ljóst um hæfileika hans til forystu og verka var Ólafur kjörinn formaður Evrópusambands körfuknattleiksíþróttarinnar. Þrátt fyrir þessar annir við forystustörf hér heima og á erlendum vettvangi var hann góður félagi í golfíþróttinni og gaf sér tíma til að bregða á leik með okkur gömlu félögunum þegar færi gafst og þar var Óli einn sá snjallasti og glaðasti í góðra vina hópi.

Ólafur Rafnsson hverfur á braut löngu, löngu fyrir aldur fram. Hann átti margt ógert, einn af okkar bestu sonum, hafði verk að vinna og það er skarð fyrir skildi, þegar slíkur höfðingi fellur í valinn. Ég þakka mínum kæra vini fyrir samskiptin og þá jákvæðu og fallegu áru sem fylgdi honum alla tíð.

Ég votta Gerði og börnum þeirra hjóna innilegustu samúð mína. Blessuð sé minning Ólafs Rafnssonar.

Ellert B. Schram.

Við Óli áttum góða samferð í nær 20 ár. Kynntumst fyrst þegar hann var stjórnarmaður KKÍ og ég framkvæmdastjóri ÍSÍ. Seinna varð hann formaður KKÍ og árið 2006 tók hann við sem forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Það kom því í minn hlut að leiða hann fyrstu skrefin. Þar og fyrr áttum við alltaf afar gott samstarf og var vel til vina. Og eftir að ég flutti mig yfir til Getspár frá ÍSÍ 2007 töluðum við saman reglulega um ýmis mál sem tengdust íþróttahreyfingunni eða fyrirtækjum hennar, Íslenskri getspá og Íslenskum getraunum. Og áfram héldum við að spila golf á þriðjudögum þó að Óli hafi, starfa sinna vegna, átt erfiðara með það í sumar. Í hugann koma margar skemmtilegar ferðir þegar ég var að kynna hinn nýja forseta fyrir valdamönnum íþróttahreyfingarinnar í heiminum. Eins og vanalega kom kappinn vel undirbúinn og vakti athygli fyrir framgöngu sína og sterkan og bjartan persónuleika. Hann var opinn og jákvæður félagsmálamaður í bestri merkingu þess orðs.

Ólafur Rafnsson var einstaklega áhugasamur í starfi sínu sem forseti og setti sig inn í alla þætti starfsins og vildi vera vel upplýstur. Fyrir mann með fjölskyldu og rekstur eigin lögmannsstofu kallar starf forseta ÍSÍ á mikið álag. Með kosningu hans í embætti forseta FIBA Europe jókst álagið á hann enn frekar og var á tíðum ómannlegt. Við félagar hans minntum hann reglulega á að hann þyrfti að draga úr álaginu. En hann gaf sjálfum sér engan afslátt og var stöðugt á ferðinni í starfi og leik. Ábyrgðartilfinningin var sterk og hann vildi klára öll mál. Þannig var Óli.

Óli var góðmenni sem vildi öllum vel. Aldrei heyrði ég hann leggja illt til nokkurs manns. Hann var stoltur af Gerði og krökkunum og ljómaði þegar hann ræddi um sitt fólk.

Fráfall Óla er gríðarlegt áfall fyrir íslenska íþróttahreyfingu sem misst hefur mikinn foringja og leiðtoga. Fráfallið er þó sárast og mest fyrir Gerði, Auði, Sigga og Sigrúnu og hjá þeim er hugurinn.

Kæra fjölskylda, megi Guð vera með ykkur og styrkja í sorginni. Minningin um þennan góða dreng mun lifa.

Stefán Snær Konráðsson,

fyrrv. framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Það er með þakklæti og virðingu sem við kveðjum nú góðan félaga, Ólaf E. Rafnsson, forseta ÍSÍ. Ólafur var leiðtogi af Guðs náð. Hann veitti okkur styrk og kraft til að halda gangandi því öfluga íþrótta- og ungmennafélagsstarfi sem einkennir íslenskt samfélag í dag.

Héraðssamband Þingeyinga vottar fjölskyldu og samstarfsfólki Ólafs innilega samúð. Guð veri með ykkur.

F.h. HSÞ,

Jóhanna S. Kristjánsdóttir.

Kveðja frá Ungmennafélagi Íslands

Ólafur Eðvarð Rafnsson, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og FIBA Europe, lést langt fyrir aldur fram 19. júní sl. tæplega fimmtugur að aldri.

Íþróttahreyfingin á Íslandi og erlendis er harmi slegin yfir fráfalli mikilsvirts leiðtoga og góðs vinar. Missirinn og sorgin er mikil. Ólafur var farsæll leiðtogi íþróttahreyfingarinnar og var óþreytandi við að berjast fyrir málefnum hennar. Hann var traustur og ábyrgur leiðtogi, hæfileikaríkur og með ákveðna sýn sem gekk út á að gera veg íþrótta sem mestan. Sérstaklega var honum annt um starf sjálfboðaliðans og lagði áherslu á að mikilvægt væri að sýna fram á virðisauka hreyfingarinnar sem fælist í starfi sjálfboðaliðans þegar verið væri að óska eftir fjárframlögum til rekstrarins.

Hann var stór og mikill á velli og sterkur persónuleiki enda vakti hann athygli þar sem hann fór. Það var enda svo að honum var treyst fyrir ýmsum hlutverkum innan íþróttahreyfingarinnar hérlendis og erlendis. Hann fór ekki dult með skoðanir sínar og var óhræddur við að koma þeim á framfæri en á hógværan hátt. Er skemmst að minnast þess hvernig hann talaði fyrir auknum framlögum í afrekssjóð ÍSÍ og í ferðasjóð ÍSÍ sl. vetur.

Ólafur var heill í samskiptum sínum við Ungmennafélag Íslands enda féll aldrei skuggi á samskiptin og samstarfið í þau sjö ár sem þau hafa varað. Hreyfingarnar unnu saman að ýmsum málefnum sem hafa skilað miklum árangri íþróttahreyfingunni og samfélaginu til heilla. Ungmennafélag Íslands þakkar Ólafi gott og gæfuríkt samstarf innan íþróttahreyfingarinnar sem mun geymast en aldrei gleymast. Við syrgjum góðan félaga og vin og minningin um hann mun lifa með okkur.

Ungmennafélagshreyfingin sendir eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ólafs E. Rafnssonar.

Helga G. Guðjónsdóttir,

formaður UMFÍ.

„Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.“ Þessi fleygu orð flugu um huga mér þegar ég frétti af ótímabæru andláti Ólafs E. Rafnssonar. Þrátt fyrir að þessi öðlingur ætti að baki hartnær 20 ára feril sem farsæll stjórnandi í efsta lagi þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem bera uppi íslenska íþróttahreyfingu var ég þess fullviss að Óli ætti eftir a.m.k. önnur 20 ár í forystusveit okkar, bæði hér heima og erlendis.

Óli sagði oft á fundum og þingum þar sem hann mætti, „að hann væri kominn til að fleyta rjómann af góðum verkum okkar hinna“. Raunveruleikinn var auðvitað allur annar, það var hann sem dró vagninn og hvatti okkur áfram. Það geislaði af honum atorka og hlýja í senn. Hann var óþreytandi í hvatningu sinni til okkar félaganna, hvort heldur var í stjórnum sérsambanda eða héraðssambanda, alltaf jákvæður, alltaf uppbyggilegur, alltaf hvetjandi og, síðast en ekki síst, alltaf tilbúinn til að styðja okkur með ráðum og dáð í öllum okkar verkum. Óli var hreinn og beinn, hann sagði sínar skoðanir umbúðalaust ef svo bar undir, en ávallt af háttvísi. Aldrei heyrði ég hann leggja illt orð til nokkurs manns, en oft sá ég hann og heyrði leysa álitamál með því að leggja gott og skynsamlegt til mála.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast Óla í gegnum íþróttahreyfinguna, bæði þegar hann var formaður KKÍ og síðan öll árin sem hann gegndi annasömu starfi forseta Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Minningabrotin eru mörg og öll ánægjuleg. Óli var ósérhlífinn baráttumaður sem gerði fyrst og fremst kröfur til sjálfs sín og virtist eiga óþrjótandi brunn orku og áhuga þegar kom að íþróttunum. Hann var glæsilegur og umfram allt trúverðugur fulltrúi íþróttahreyfingarinnar í öllum samskiptum við stjórnvöld, en á þeim vettvangi naut hann mikillar virðingar fyrir málefnalega nálgun á úrlausnarefnin og rökfestu þegar kom að því að halda hagsmunum íþróttanna á lofti.

Missir íþróttahreyfingarinnar er mikill og við syrgjum sárt fallinn foringja. Mestur er þó missir fjölskyldunnar og er hugur okkar hjá Gerði og börnunum, foreldrum og öðrum ástvinum Óla á kveðjustund. Megi minningin um góðan dreng lifa í hjörtum þeirra og okkar allra um ókomna tíð.

Blessuð sé minning Ólafs Rafnssonar.

Páll Grétarsson.

Kveðja frá KSÍ

Falli menn frá í blóma lífsins er það ávallt harmdauði, en hafi þeir starfað í þágu þjóðar er það einnig mikill missir alls samfélagsins. Það á að sönnu við um vin okkar Ólaf Rafnsson, forseta ÍSÍ, en missirinn er ekki eingöngu íslensks samfélags heldur alþjóðlegu íþróttahreyfingarinnar allrar. Ólafur var öflugur málsvari íþrótta á Íslandi, það var honum í blóð borið enda sannur keppnismaður. Hann var leiðtogi okkar og miðlaði málum þannig að sátt og samlyndi ríkti innan vébanda ÍSÍ. Hann fylgdist vel með framgangi landsliða Íslands í knattspyrnu og sýndi stuðning í verki þegar tækifæri gáfust og mætti á völlinn. Ólafur var vel heima í málefnum knattspyrnunnar bæði innanlands og erlendis. Sýndi frumkvæði og lagði gott til mála. Þar kom sér vel þekking Ólafs, reynsla hans og innsæi á alþjóðavettvangi.

Knattspyrnuhreyfingin vottar fjölskyldu Ólafs, ættingjum, vinum og samstarfsfélögum dýpstu samúð. Ólafs verður sárt saknað en minning um góðan dreng lifir.

Geir Þorsteinsson,

formaður.

„Við þekkjum það bæði hvað íþróttirnar geta verið gefandi og ánægjulegar,“ sagði Ólafur Rafnsson, nýkjörinn forseti ÍSÍ, brosandi og kappsfullur en einnig örlítið dreyminn líkt og hann væri kominn í Haukatreyjuna að nýju úti á miðjum körfuboltavelli.

Það var alltaf gaman að hitta Ólaf. Hann var ávallt reiðubúinn að ræða landsins gagn og nauðsynjar og tókst á við erfið verkefni á heiðarlegan og lausnarmiðaðan hátt.

Leiðir okkar Ólafs hafa í gegnum tíðina víða legið saman, ekki síst í gegnum íþróttirnar. Eðli málsins samkvæmt varð samstarfið meira er Ólafur var kosinn forseti ÍSÍ á sama tíma og ég gegndi starfi ráðherra menntamála og þar með íþrótta- og æskulýðsmála. Skrifstofa ráðherra, íþróttahúsin og vellirnir voru iðulega vettvangur skemmtilegra umræðna um hin ýmsu þjóðfélagsmál þótt tilefni fundarhalda hafi verið íþróttirnar sjálfar og ómetanlegt starf íþróttahreyfingarinnar.

Verkefnið var ekki að sannfæra hvort annað um mikilvægi íþrótta fyrir börnin okkar og samfélagsgerðina, heldur að gera raunhæfa áætlun um hvernig unnt væri að gera betur til að njóta áfram þeirra lífsgæða sem felast í blómstrandi íþróttalífi.

Í heimi þar sem samkeppni er um tíma og athygli er það ekki sjálfsagt. Því gerði Ólafur sér manna best grein fyrir. Ólafur var einbeittur og fastur fyrir; á sinn jákvæða og sjarmerandi hátt hvikaði hann ekki frá markmiðinu um enn sterkari íþróttahreyfingu.

Veikleikar og styrkleikar voru greindir. Fókusinn var settur á ákveðna þætti. Þarna var Ólafur á heimavelli. Hann, ásamt öflugu starfsfólki ÍSÍ, gerði sér grein fyrir að ekki var hægt að gera allt í einu vetfangi en gaf þó ekkert eftir af þeim þrýstingi sem á þurfti að halda til að fara í brýn forgangsmál. Samstarf og gagnkvæmur skilningur voru hér lykilatriði. Mikilvæg skref voru tekin árið 2006 með stofnun ferðasjóðs íþróttafélaga og sjóðs til að styrkja innviði sérsambandanna. Samanlagt áttu þessir samningar að skila íþróttahreyfingunni hátt á fjórða hundrað milljóna króna til ársins 2009. Ólafur sleppti þó aldrei augum af afreksíþróttunum. Sammæltumst við um að taka afrekssjóðinn styrkari tökum við endurskoðun þessara samninga.

Ólafur var í senn bæði samherji og glæsilegur talsmaður íþróttanna. Talsmaður sem alltaf var hægt að reiða sig á til að auka skilning fólks innan stjórnkerfisins á mikilvægum verkefnum íþróttahreyfingarinnar.

Efast ég um að við, sem unnum íþróttum, hefðum á miklum umbrotatímum getað haft betri leiðtoga í stafni en Ólaf. Hann hélt fólki við efnið, hvað sem tautaði og raulaði. Á þann hátt að allir höfðu ánægju af.

Þótt grunnur Ólafs hafi legið í körfunni barðist hann sem forseti ÍSÍ ávallt fyrir framgangi allra íþróttagreina landshorna á milli. Og á alþjóðavísu var hann glæstur fulltrúi íslensku þjóðarinnar. Vænt þótti mér um að upplifa áhuga hans og virðingu fyrir íþróttastarfi fatlaðra. Hann hafði einfaldlega óbilandi trú á að íþróttirnar efldu börnin okkar öll og gerðu samfélagið betra. Það gerði hann með því að tala þær upp en ekki niður eins og stundum er lenska á öðrum sviðum þegar kemur að samkeppni um fjármagn og tíma fólks.

Íþróttahreyfingin hefur misst öflugan liðsmann og leiðtoga sem náði að hrífa fólk með sér til meiri verka og betra samfélags. Mestur er þó missir fjölskyldu Ólafs sem kveður nú einstaka persónu, eiginmann, föður, son, bróður, frænda og vin. Fyrir okkur hin situr eftir þakklæti fyrir að hafa kynnst Ólafi, hrifist af honum og lært.

Megi hið eilífa ljós fylgja Ólafi Rafnssyni.

Þorgerður Katrín

Gunnarsdóttir.

Kveðja frá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur

Íþróttahreyfingin syrgir öflugan leiðtoga og forystumann. KR-ingar minnast Ólafs með mikilli virðingu og þakklæti og viljum við þakka honum fyrir farsælt samstarf í gegnum árin sem og allt hans mikla framlag í þágu íþróttahreyfingarinnar í landinu. Við KR-ingar sendum eiginkonu Ólafs, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR.

Óli minn, þú ert farinn frá okkur og fjölskyldu þinni. Þú sem ert búinn að eyða ómældum tíma í íþróttirnar, bæði sem keppandi og stjórnandi, frábær faðir og eiginmaður. Þú áttir svo margt ógert.

Þú kemur inn í stjórn KKÍ 1991, 28 ára gamall. Þá ertu nýhættur sem leikmaður, ég að nálgast fimmtugt og sá þig stráklinginn komandi inn í stjórnina.

Það kom strax í ljós að stráklingurinn hafði skoðanir og fullt af góðum skoðunum. Allar tillögur þínar lagðar fram vandlega undirbúnar og útilokað að hrekja. Sem dæmi þegar þú lagðir fram tillögu um kaup á keppnisstólum fyrir fatlaða. Hvernig var hægt annað en að samþykkja það því þú varst einnig búinn að fjármagna kaupin?

Þú tekur við formennsku 1996 og gegnir því starfi í 10 ár. Þú stóðst þig frábærlega sem formaður og ekki skrýtið þótt þú næðir kjöri sem forseti ÍSÍ 2006 og síðan sem forseti Evrópusambandsins, FIBA, 2010.

Að ná kjöri sem forseti FIBA er ótrúlegur árangur hjá þér. Það hefur enginn Íslendingur náð slíkri viðurkenningu á erlendri grund, en FIBA eru trúlega næstöflugustu íþróttasamtök innan Evrópu. Þessum árangri nærð þú á eigin ágætum og hver eru þau:

Óli, þú ert einn vandaðasti maður sem ég hef kynnst. Heiðarlegur, nákvæmur, hugmyndaríkur, vandaður í orðavali og framkoma þín óaðfinnanleg og jafnframt varstu trúr samfæringu þinni.

Söknuðurinn er ómælanlegur og mér finnst eins og ég hafi misst son minn.

Gerður mín, ég er búinn að faðma þig og tjá þér hug minn til ykkar Óla. Ég lýsi dýpstu samúð til þín og barnanna ykkar og einnig til nánustu ættingja.

Ég trúi því Óli minn að þú sért ætíð nærri og veit að þú ert í góðum höndum.

Kolbeinn Pálsson.

Kveðja frá Körfuknattleikssambandi Íslands

Fallinn er frá kær vinur, traustur félagi, góður ráðgjafi, duglegur, hreinskilinn, hjartahlýr, ósérhlífinn og umfram allt óumdeildur leiðtogi og svona gæti ég haldið áfram upptalningunni á Ólafi Eðvarði Rafnssyni fyrrverandi formanni KKÍ eða Óla Rafns eins og hann var nefndur í daglegu tali.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir og þungir innan körfuknattleiksfjölskyldunnar og að Óli sé fallinn frá er okkur öllum ansi óraunverulegt. Það er alltaf óréttlátt þegar einstaklingur á besta aldri er tekinn svona fyrirvaralaust í burtu frá okkur.

Ekki fleiri hittingar, faðmlög, símtöl, tölvupóstar, sms – mikið getur þetta líf stundum verið ósanngjarnt og grimmt. Við vinirnir áttum eftir að ræða margt og koma ýmsu í verk fyrir okkar ástkæru íþrótt.

Óli var keppnismaður mikill og vann af miklum heilindum og ástríðu fyrir körfuboltann og íþróttahreyfinguna alla, bæði hér á Íslandi sem og í Evrópu. Það var ólýsanleg stund að verða vitni að því þegar tilkynnt var að Óli hefði verið kjörinn forseti FIBA Europe, eins stærsta álfusambands í heiminum. Enginn Íslendingur hefur gegnt stöðu sem þessari innan íþróttahreyfingarinnar sem sýnir vel hversu mikill leiðtogi Óli var.

Síðustu daga hefur verið ómetanlegt að finna þá samheldni og vináttu sem ríkir í körfuknattleiks- og íþróttahreyfingunni. Þrátt fyrir samkeppni innan sem utan vallar íþróttanna þá er það einmitt hin fjölbreytta og góða vinátta sem einkennir íþróttahreyfinguna og allt hennar starf. Óli á svo sannarlega stað í hjörtum fjölmargra einstaklinga hér á landi sem og erlendis.

Körfuknattleikshreyfinginn hefur misst svo mikið með fráfalli Óla og þá ekki bara á Íslandi eða í Evrópu, heldur í heiminum öllum. Það sýna fjölmargar samúðarkveðjur sem borist hafa á undanförnum dögum frá forráðamönnum körfuknattleikssambanda víðsvegar um heiminn.

Minning um sterkan leiðtoga og kæran félaga lifir hjá körfuboltahreyfingunni um allan heim.

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að starfa náið og mikið með Óla síðustu 15 árin og kveð því ekki bara góðan félaga heldur einstakan, hlýjan og traustan vin með mikilli sorg í hjarta og það eru ófá tárin sem hafa fallið síðustu daga. Eins og vinir gera þá spjölluðum við einnig mikið um fjölskyldur okkar og hvað væri að frétta af okkar fólki. Ég veit því eins og fleiri að án stuðnings Gerðar konu Óla og barna þeirra hefði hann ekki getað gert allt það sem hann gerði fyrir körfuknattleiks- og íþróttahreyfinguna.

Stærstur og sárastur er missirinn að sjálfsögðu hjá Gerði, börnum þeirra Auði, Sigurði og Sigrúnu, foreldrum Óla, tengdamóður og systkinum. Hugur okkar og bænir eru með ykkur og sendi ég ykkur, kæru vinir, innilegustu samúðarkveðjur körfuknattleiksfjölskyldunnar og þakkir fyrir allt það starf sem Óli vann. Guð blessi og varðveiti minningu Ólafs E. Rafnssonar.

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ,

Hannes S. Jónsson

formaður.

Það var óraunverulegt símtalið frá Hannesi vini okkar þegar hann hringdi í mig og sagði mér frá andláti þínu. Þetta er eitthvað sem erfitt er að meðtaka og átta sig á.

Minningar streyma fram, þú varst alltaf fullur af hugmyndum um hvernig hægt væri að gera körfuboltann og íþróttir almennt betri. Á lokahófi KKÍ í maí áttum við gott spjall og nú er það mitt að halda því sem við ræddum á lofti og jafnframt koma því í framkvæmd.

Það var sama hversu upptekinn þú varst, þú hafðir alltaf tíma til að svara og ræða hlutina. Fjölmargir tölvupóstar frá þér sýna að það var sama hvað ég var að velta fyrir mér, alltaf gafstu þér tíma til að svara af kurteisi og virðingu. Tölvupóstar sem byrja á orðum eins og „Heill og sæll félagi.

Langt síðan maður hefur heyrt frá þér – hef saknað þess“ eða „Sæll endalausi áhugasami kúturinn minn“ eða „Sæll kæri óseðjandi körfuboltaáhugamaður“ ylja manni um hjartarætur þegar maður móttekur þá og ekki minna í dag þegar maður rifjar upp allt sem við ræddum um.

Oftar en ekki endaðir þú tölvupósta til mín á því að minna mig á að koma með nýjan sögupistil, þar sem söguritun KKÍ var eitt af sameiginlegum áhugamálum okkar. Þó tölvupóstarnir verði ekki fleiri okkar á milli þá mun ekki standa mér að varðveita söguna og birta pistla í tengslum við það sem ég er að grúska í þá stundina.

Það hafa fáir Íslendingar komist jafn langt og þú Óli og þín verður sárt saknað af allri körfuboltafjölskyldunni. Þú leiddir okkur áfram í að efla körfuboltann sem var og er okkar stóra sameiginlega áhugamál. Þó ég komist aldrei með tærnar þar sem þú hafðir hælana þá mun ég alltaf muna þig og þínar hugsjónir og gera mitt besta til að starfa í þeirra anda.

Hugsjónir sem meðal annars gengu út á það að einingarnar vinni alltaf með framtíðina og heildina í huga og með sannan íþróttaanda að leiðarljósi. Með þetta að markmiði starfaðir þú innan forystu körfuboltahreyfingarinnar á Íslandi sem og í Evrópu og á heimsvísu. Þér var orðið vel ágengt og hefði það orðið alheimskörfuboltafjölskyldunni til góða ef þú hefðir fengið meiri tíma.

En þó við í körfuboltafjölskyldunni höfum misst góðan vin og mikinn leiðtoga þá er það svo að missir konu, barna og annarra ættmenna er mestur. Ég sendi þeim því mínar dýpstu samúðarkveðjur og bið Guð um að styrkja þau í þessari miklu sorg.

Rúnar Birgir Gíslason.

Fallinn er frá langt um aldur fram Ólafur E. Rafnsson, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Ólafur var ekki einungis óumdeildur leiðtogi íþróttahreyfingarinnar heldur einnig mikill áhugamaður um íþróttir fatlaðra og velgjörðamaður Íþróttasambands fatlaðra (ÍF). Hann var vinur sem sárt verður saknað. Nú, þegar hann hefur fyrirvaralaust kvatt okkur er ég ekki lengur svo viss um að ég skilji hina ýmsu hluti sem tengjast lífinu og tilverunni.

Allavega er ég ekki viss og skil ekki hvernig almættið velur í liðið hjá sér. Ólafi er þar eflaust ætlað stórt og mikið hlutverk þótt ég vildi heldur hafa hann í okkar liði hér á jörðinni.

Kynni okkar hjá Íþróttasambandi fatlaðra við Ólaf hófust er hann, sem ungur maður og þá þegar forystumaður körfuknattleiksins hér á landi, tók að sér að þjálfa og útbreiða hjólastólakörfuknattleik hér á landi. Þótt sú tilaun hafi ekki gengið sem skyldi þróaðist þar vinátta og tengsl sem seint verða þökkuð að fullu. „Þið leyfið mér að fylgjast með ef ég get eitthvað aðstoðað,“ var hann vanur að segja og sú varð raunin meðvitað og ómeðvitað. Tölvupóstföng okkar nafnanna voru æði lík sem gerði það að verkum að óafvitandi fékk hann pósta sem ætlaðir voru mér sem starfsmanni Íþróttasambands fatlaðra. Þannig fékk hann innsýn í ýmis mál er okkur tengdust, áframsendi skilaboðin með broskarli og kveðju til okkar hjá ÍF. Til Ólafs, sem leiðtoga íþróttahreyfingarinnar, var ávallt hægt að leita varðandi hina ýmsu hluti og gat maður ávallt reitt sig á hreinskilið svar og vegvísi um hvert, að hans mati, skyldi haldið.

Ólafur var maður hreinn og beinn, með stórt hjarta, sem hafði mikið að gefa. Slíku bera störf hans í þágu íþróttahreyfingarinnar allrar fagurt vitni. Þakklæti og söknuður er okkur hjá íþróttahreyfingu fatlaðra efst í huga nú þegar þessi góði drengur er fallinn frá. Blessuð sé minning Ólafs E. Rafnssonar.

Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra sendir eftirlifandi eiginkonu hans, Gerði Guðjónsdóttur, börnum og ástvinum öllum hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Íþróttasambands fatlaðra,

Ólafur Magnússon,

framkv.stj.

Það var fallegur morgunn á Suðurlandi miðvikudaginn 19. júní, sólin skein í heiði og fuglar sem og mannfólkið léku við hvern sinn fingur. Um miðjan dag dró ský fyrir sólu og það gerði úrhellisrigningu. Seinna þennan sama dag fengum við þær sorgarfregnir að góður félagi og vinur væri fallinn frá, langt um aldur fram. Það var eins og himinninn hefði grátið með okkur.

Þennan dag vorum við svo sannarlega minnt á hversu hverfult lífið getur verið. Kynni okkar af Ólafi hófust þegar hann var formaður KKÍ. Á þeim árum var hann óþreytandi við að hvetja okkur áfram og ávallt reiðubúinn að aðstoða þegar eftir því var leitað. Seinna þegar hann var kosinn forseti ÍSÍ var hann boðinn og búinn sem áður að gefa okkur góð ráð, hvetja okkur til dáða að halda merki íþróttahreyfingarinnar hátt á lofti þrátt fyrir að gefið hafi á bátinn í efnahagsmálum þjóðarinnar og íþróttahreyfingin fengið að finna fyrir því.

Þá stóð hann sem klettur úr hafinu á hverju sem gekk og reyndist okkur sem störfum innan íþróttahreyfingarinnar drengur hinn besti og traustur samherji í hvívetna. Hann blés okkur í brjóst baráttuanda með rökfestu sinni, einurð og festu.

Á kveðjustundu kemur okkur fyrst í hug þegar við hugsum til Óla einbeitni hans og óbilandi eljusemi.

Hann hafði mikla útgeislun og góða nærveru, spaugsamur, hlýr og gefandi persóna. Ólafur var maður sátta, rökfastur og skeleggur í allri framgöngu. Hann var sérstakt ljúfmenni og dagfarsprúður og okkur mikill heiður að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa undir hans forystu. Héraðssambandinu Skarphéðni sýndi hann mikinn velvilja sem og öllu íþróttastarfi á Suðurlandi. Ólafur var góður leiðtogi sem við mátum mikils og ljóst að margir sakna vinar í stað og verða þess áskynja, að nú er stórt skarð fyrir skildi, þar sem áður fór góður drengur og mikill leiðtogi.

Stór er sá hópur vina og kunningja sem nú drúpir höfði með söknuði vegna fráfalls Ólafs E. Rafnssonar. Hans verður minnst af hlýhug og virðingu allra þeirra er til hans þekktu. Eftir áratuga vináttu kveðjum við kæran vin þakklátum huga og þökkum vináttu og heilladrjúgt samstarf. Eiginkonu Ólafs, börnum og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

F.h. Héraðssambandsins Skarphéðins,

Guðríður Aadnegard og Engilbert Olgeirsson.

Fallinn er frá löngu fyrir aldur fram Ólafur Eðvarð Rafnsson, forseti Ólympíu- og íþróttasambands Íslands, rétt fimmtugur að aldri. Sú sorgarfregn barst til landsins 19. júní, að forseti ÍSÍ hefði andast skyndilega við skyldustörf á erlendri grundu; er hann syrgður innan íþróttahreyfingarinnar.

Ólafur Eðvarð Rafnsson var með hærri mönnum, vörpulegur á velli, bjartur yfirlitum og bar sig vel. Hann stundaði körfuknattleik um árabil og átti sess í landsliði Íslands. Mátti merkja íþróttaiðkun á limaburði hans og framgöngu allri, eigindi sem góður íþróttamaður tileinkar sér.

Fyrst bar fundum okkar Ólafs saman meðan hann var enn formaður Körfuknattleikssambands Íslands en samskipti urðu allnokkur eftir að hann varð forseti ÍSÍ. Einatt leitaði ég til hans á hátíðarstundum eða vegna merkra atburða í glímunni og ávallt var hollráð og góðan stuðning að fá hjá Ólafi, þegar eftir var leitað og tók hann þátt í slíku, væri þess kostur.

Ólafur var hógvær maður og skarpur og stefnufastur en óáleitinn og enginn veifiskati var hann.

Að leiðarlokum vil ég persónulega þakka Ólafi Eðvarði Rafnssyni fyrir góð kynni og samstarf og fyrir það mikla og óeigingjarna starf er hann lagði fram í þágu íþróttahreyfingarinnar í landinu. Þá flyt ég einnig þakkir Glímusambands Íslands og Glímudómarafélags Íslands fyrir umtalsverðan velvilja í garð glímunnar, þjóðaríþróttar Íslendinga.

Fjölskyldu hans og ástvinum eru fluttar samúðarkveðjur.

Hörður Gunnarsson,

heiðursfélagi ÍSÍ.

HINSTA KVEÐJA
Stjórn og framkvæmdastjóri Dansíþróttasambands Íslands þakkar Ólafi E. Rafnssyni fyrir ánægjulegt og gott samstarf gegnum árin. Ólafur var ávallt reiðubúinn að aðstoða, veita ráðgjöf og var það aðdáunarvert hversu mikinn tíma hann gaf sér til að setja sig inn í mál sérsambandanna og nutum við góðs af því. Á skilnaðarstundu eru eiginkonu, börnum og aðstandendum Ólafs færðar innilegar samúðarkveðjur, minningin lifir.
F.h. Dansíþróttasambands Íslands,
Ástríður S. Jónsdóttir.
Af djúpri virðingu og með þakklæti fyrir gjöfult samstarf, kveðja skátar traustan félaga.

Sofnar drótt, nálgast nótt,
sveipast kvöldroða himinn og sær.
Allt er hljótt, hvíldu rótt.
Guð er nær.
(Kvöldsöngur skáta)
Bragi Björnsson,
skátahöfðingi.