Sigurður Thoroddsen, fyrsti verkfræðingur landsins, fæddist að Leirá í Borgarfirði 16. júlí 1863. Foreldrar hans voru Jón sýslumaður og skáld Thoroddsen og Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, umboðsmaður Sívertsen í Hrappsey.

Sigurður Thoroddsen, fyrsti verkfræðingur landsins, fæddist að Leirá í Borgarfirði 16. júlí 1863. Foreldrar hans voru Jón sýslumaður og skáld Thoroddsen og Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, umboðsmaður Sívertsen í Hrappsey. Jón lést 1868 og fluttist þá Kristín til Reykjavíkur og kom sonum sínum til mennta og urðu þeir allir þjóðkunnir menn. Má þar nefna Þorvald prófessor og Skúla, bæjarfógeta og ritstjóra.

Sigurður varð stúdent frá Lærða skólanum 1882 og fór í nám til Kaupmannahafnar í verkfræði og útskrifaðist úr því fagi árið 1891.

Eftir útskrift starfaði Sigurður sem verkfræðingur í vegagerð í eitt ár í Kaupmannahöfn. Hann fór svo til Noregs til að kynna sér vegaframkvæmdir því talið var að aðstæður þar væru líkari þeim sem voru á Íslandi, og hlaut til þess styrk frá Alþingi. Þegar hann kom heim var hann skipaður landsverkfræðingur. Lítið hafði verið um verklegar framkvæmdir þegar Sigurður hóf störf, nær engir vegir voru hér og ein stór brú, hengibrúin yfir Ölfusá.

Gangskör var gerð að því að leggja vegi og byggja brýr og á starfsárum Sigurðar voru byggðar stórbrýr svo sem yfir Blöndu, Þjórsá, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá í Axarfirði. Það er þó ætíð erfitt að vera brautryðjandi, starfsskilyrði voru slæm og margir verkstjórar treystu frekar á brjóstvitið en einhver fræði utan úr heimi. Svo fór að Sigurður sagði stöðu sinni lausri eftir tólf ára starf og gerðist kennari í stærðfræði við Menntaskólann í Reykjavík. Hann varð síðan yfirkennari þar, en sinnti einnig verkfræðistörfum og gegndi stöðu bæjarverkfræðings í Reykjavík um tíma.

Eiginkona Sigurðar var María Kristín, f. 25.4. 1880, dóttir Valgarðs Claessen kaupmanns og síðar landsféhirðis. Meðal barna þeirra var Gunnar forsætisráðherra.

Sigurður Thoroddsen lést 29.9. 1955. Öll börn Sigurðar eru látin en 22 barnabörn ásamt mökum og fleira ættfólki ætla að koma saman í dag og minnast Sigurðar.