Skattadagurinn var haldinn hátíðlegur hér á landi 7. júlí 2013, en hann er sá dagur, þegar einstaklingar hætta að vinna fyrir ríkið og fara að vinna fyrir sjálfa sig.

Skattadagurinn var haldinn hátíðlegur hér á landi 7. júlí 2013, en hann er sá dagur, þegar einstaklingar hætta að vinna fyrir ríkið og fara að vinna fyrir sjálfa sig. Á Norðurlöndum rennur röskur helmingur sjálfsaflafjár manna í skatta til hins opinbera, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Eftir skattadaginn geta menn keppt að eigin áhugamálum, en ekki aðeins markmiðum stjórnmálamanna og embættismanna.

Margt hefur verið sagt um skatta og ríki síðustu tvö þúsund árin. Tíberíus Rómarkeisari skrifaði forðum einum landstjóra sínum, sem honum þótti fara heldur mikinn í skattheimtu, að góðir fjárhirðar kynnu að rýja fé sitt án þess að flá það. Mætti heimfæra það til þeirrar nútímakenningar, að yfirvöld ættu að stefna að efsta markinu á Laffer-boganum svokallaða, en það merkir, að þau ættu að reyna að hámarka skatttekjur, en ekki nauðsynlega skatthlutfall. Til dæmis eru skatttekjur á mann svipaðar í Sviss og Svíþjóð, en skatthlutfallið miklu hærra í Svíþjóð. Væri þess vegna væntanlega hægt að lækka skatthlutfallið talsvert í Svíþjóð, án þess að skatttekjur ríkisins minnkuðu. Sumir myndu vilja ganga lengra og lækka skatthlutfallið enn frekar.

En Benjamín Franklín andvarpaði, um leið og hann skrifaði í einkabréfi 1789: „Þegar er frá talinn dauðinn og skatturinn, á maður ekkert víst hér í heimi.“

Og ríkið, sem tekur við sköttunum? Franski blaðamaðurinn Frédéric Bastiat skrifaði 1848: „Ríkið er hin mikla sjálfsblekking, sem allir reyna að nota til að lifa á kostnað allra.“ Sænska Nóbelsskáldið Werner von Heidenstam sagði síðan 1941: „Ríkið er gamall ræningjabarón, sem skoðar í kistu vegfarenda, heimtar skatt og heldur á sunnudögum bænastund með þjónum sínum. Á mánudagsmorgun ræðst hann á náunga sinn og rænir.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is