Undanfarið hef ég verið að lesa erlendar bækur um bankahrunið íslenska 2008. Ein þeirra heitir „Meltdown Iceland“ og er eftir Roger Boyes, fréttaritara Lundúnablaðsins Times í Berlín.

Undanfarið hef ég verið að lesa erlendar bækur um bankahrunið íslenska 2008. Ein þeirra heitir „Meltdown Iceland“ og er eftir Roger Boyes, fréttaritara Lundúnablaðsins Times í Berlín. Þótt hún sé skemmtileg aflestrar, er hún afar óáreiðanleg, full af kjaftasögum, sumum tilhæfulausum, en flytur einnig ýmsar hæpnar kenningar. Ein er, að „kolkrabbinn“ hafi í samráði við „fjölskyldurnar fjórtán“ löngum stjórnað íslensku atvinnulífi. Ég hef áður bent á, að „fjölskyldurnar fjórtán“ er blaðamannamál, sem notað var um helstu landeigendur í El Salvador, en umdæmi þess lands eru fjórtán. Fyrst var það heimfært upp á Ísland, svo að ég hafi séð, 1987.

Kolkrabbinn er líka gamalt og útslitið vígorð. Það var oft notað í Bandaríkjunum fram undir 1900 um einokunarkapítalisma. Bandaríski rithöfundurinn Frank Norris skrifaði jafnvel skáldsögu undir hinu enska heiti, Octopus , árið 1901, um átök bænda og járnbrautareigenda. Fyrsta dæmið um staðfærslu þessa hugtaks, sem ég hef rekist á, er í kvikmyndagagnrýni í Þjóðviljanum 8. desember 1949: „Þá var kolkrabbinn í íslensku stjórnmála- og atvinnulífi, Thorsættin, ekki farinn að teygja arma sína yfir höfin til þess að þrýsta hendur verkalýðsböðla eins og Francos.“ Orðið var nokkrum sinnum notað næstu áratugina, ýmist til að tákna ofvöxt ríkisins, sem teygði anga sína í allar áttir, eða veldi Sjálfstæðisflokksins á vettvangi stjórnmálanna. Kolkrabbi í yfirfærðri merkingu kemur líka fyrir í skáldlegri heimsádeilu frá 1957, Jónsmessunæturmartröð á Fjallinu helga , eftir Loft Guðmundsson, blaðamann, rithöfund og hagyrðing.

Árin 1986-1987 sýndi Sjónvarpið þrjá leikna framhaldsþætti um ítölsku mafíuna, og nefndust þeir „Kolkrabbinn“. Þaðan hefur Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður sennilega haft líkinguna, þegar hann skrifaði fréttaskýringuna „Kolkrabbinn á gullkistunni“ í Pressuna 2. september 1988, en hún var um Íslenska aðalverktaka. Í mars 1990 birtist síðan fréttaskýring eftir blaðamennina Óskar Guðmundsson og Pál Vilhjálmsson í tímaritinu Þjóðlífi , „Kolkrabbi eða kjölfesta. Íslenska fyrirtækjaveldið. Átök og ítök.“ En þjóðþekkt varð hugtakið þó ekki, fyrr en Örnólfur Árnason rithöfundur gaf út metsölubókina Á slóð kolkrabbans haustið 1991. Þar hélt hann því fram, að fámennur hópur kaupsýslumanna réði íslensku atvinnulífi og sæti yfir hlut annarra, og væri Halldór H. Jónsson húsateiknari helsti forvígismaður hans. Gagnrýnendur sögðu, að Örnólfur gerði of mikið úr einum hópi á kostnað annarra, til dæmis þeirra kaupsýslumanna, sem ótengdir væru vinahópi Halldórs H. Jónssonar, að ógleymdri samvinnuhreyfingunni, sem var mjög öflug á Íslandi allt frá 1920 til 1990. En hvað sem öllum ýkjum líður, hvarf þessi „kolkrabbi“ úr sögunni á síðasta áratug tuttugustu aldar, þótt hann gangi nú aftur í bók Boyes.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is