Lína Lilja Hannesdóttir fæddist í Reykjavík 14. september 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 18. júlí 2013.

Útför Línu fór fram frá Garðakirkju 29. júlí 2013.

Hinsta kveðja frá skólafélögum úr VÍ-53

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Birna G. Bjarnleifsdóttir.

Elsku amma mín hefur kvatt þennan heim. Amma var alveg einstaklega góð kona og umvafði mig hlýju. Hún var ein af þeim yndislegustu og bestu manneskjum sem ég hef kynnst og betri ömmu var vart hægt að hugsa sér. Enda vildi hún allt fyrir alla gera, sérstaklega okkur barnabörnin. Það var alltaf jafn notalegt að koma í heimsókn til ömmu og afa á Hagaflötina. Amma vildi auðvitað bjóða okkur allt það besta sem til var og hún þreyttist aldrei á að snúast í kringum okkur krakkana. Ef við vorum ekki að gæða okkur á einhverju góðgæti, þá var verið að baka, vökva blómin í gróðurhúsinu, veiða í læknum eða spila „rassinn úr buxunum“, eins og hún orðaði það. Við spiluðum marías, lönguvitleysu, manna og olsen olsen út í eitt. Og auðvitað passaði hún upp á það að láta mig vinna svo litla barnabarnið yrði ánægt og þá fékk ég titilinn olsen olsen meistari. Það má segja að amma hafi kennt mér dönsku, við sátum yfir dönsku skólabókunum þar sem við lærðum og lásum saman. Það er henni að þakka hversu vel mér gekk að læra dönskuna og ég er henni þakklát fyrir það í dag. Fastir punktar í tilverunni hjá okkur krökkunum var piparkökubakstur með ömmu fyrir jólin þar sem öll barnabörnin voru í aðalhlutverki. Í seinni tíð hittist öll fjölskyldan í kakói og kökum á aðfangadag kl. 14 til að skiptast á pökkum. Þrátt fyrir að jólamatur biði okkar kl. 18 þá var kaffiborðið hjá ömmu eins og ekki væri nein önnur veisla þann daginn.

Fyrir mér var amma Lína ekki bara amma heldur var hún alveg einstakur og traustur vinur. Nú kveðjum við þig, elsku amma, með söknuð í hjarta en minningar þínar munu lifa um ókomna tíð.

Langt úr fjarlægð, elsku amma mín,

ómar hinzta kveðja nú til þín.

En allt hið góða, er ég hlaut hjá þér,

ég allar stundir geymi í hjarta mér.

Ég man frá bernsku mildi og kærleik þinn,

man hve oft þú gladdir huga minn.

Og glæddir allt hið góða í minni sál,

að gleðja aðra var þitt hjartans mál.

Og hvar um heim, sem liggur leiðin mín

þá lýsa mér hin góðu áhrif þín.

Mér örlát gafst af elskuríkri lund,

og aldrei brást þín tryggð að hinztu stund.

Af heitu hjarta allt ég þakka þér,

þínar gjafir, sem þú veittir mér.

Þín blessun minning býr mér ætíð hjá,

ég björtum geislum strái veg minn á.

(Höf. ók.)

Elsku amma Lína, mér þykir óendanlega vænt um þig og er þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu.

Þín

Lilja Lind.