Biðraðir Þegar verslun Nettó á Grandanum var opnuð klukkan 13 í gær myndust langar biðraðir viðskiptavina.
Biðraðir Þegar verslun Nettó á Grandanum var opnuð klukkan 13 í gær myndust langar biðraðir viðskiptavina. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Margrét Jóhannsdóttir mariamargret@mbl.is Ný verslun Nettó var opnuð í gær við Fiskislóð í Reykjavík. Nettó hefur lengi reynt að opna verslun í vestari hluta Reykjavíkur en án árangurs þar til nú.

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Ný verslun Nettó var opnuð í gær við Fiskislóð í Reykjavík. Nettó hefur lengi reynt að opna verslun í vestari hluta Reykjavíkur en án árangurs þar til nú.

Árið 1998 var gerð tilraun til þess að opna Nettóverslun í húsi Jóns Ásbjörnssonar við Geirsgötu 11 í Reykjavík en hafnarstjórn Reykjavíkur hafnaði þeirri umleitan þar sem þetta þótti ekki nógu hafnsækin starfsemi. „Þetta er lóð sem er algerlega frammi á hafnarbakka og verslunarstarfsemin fellur einfaldlega ekki undir þá skilgreiningu. Hún er ekki hafnsækin starfsemi. Við værum þá að gjörbylta í raun og veru öllu skipulagi og þróunarvinnu hafnarinnar ef við hefðum samþykkt þetta erindi,“ sagði Árni Þór Sigurðsson, þáverandi formaður hafnarstjórnar á sínum tíma. Fjórir nefndarmenn studdu tillögu um að hafna erindinu, Árni Þór Sigurðsson, Rúnar Geirmundsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Guðmundur Gíslason, varamaður Sigrúnar Magnúsdóttur, vildi hins vegar leyfa breytta notkun á húsinu.

Nú horfir öðruvísi við enda er hafnarsvæðið orðið eitt blómlegasta svæði Reykjavíkur eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Morgunblaðinu undanfarið. Þá voru líka áform um það að byggja Nettóverslun í Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg árið 1999 en það gekk ekki eftir.

Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa sem á Nettóverslanirnar, segir þá lengi hafa verið á höttunum eftir hentugu húsnæði á þessu svæði í Reykjavík og því megi segja að langri þrautagöngu sé lokið. „Já, við erum alltaf að leita að stöðum og tækifærum á höfuðborgarsvæðinu en góðir staðir eru vandfundnir. Stærsta verslunin okkar er í Mjóddinni og þegar Nettó var að hefja innreið sína á höfuðborgarsvæðið var reynt að kaupa húsnæði við Geirsgötu og BSÍ en það gekk ekki eftir og við höfum aldrei komist vestar í Reykjavík en í Mjódd þar til nú,“ segir Ómar. Samkaup er hlutafélag sem er að stærstum hluta í eigu Kaupfélags Suðurnesja og Kaupfélags Borgfirðinga og rekur 47 verslanir og af þeim eru 11 Nettóverslanir. Flestar verslanir Samkaupa eru fyrrverandi verslanir kaupfélaga víða um land og þar á meðal eru verslanir KEA en þegar Nettó var að reyna að komast inn á höfuðborgarsvæðið var Nettó í eigu KEA en ekki Samkaupa.

„Við finnum það á fólki að það vill meiri fjölbreytni og erum að reyna að sporna við þeirri einsleitni sem ríkt hefur á markaði,“ segir Ómar.

Aukið mannlíf við höfnina

Guðmundur Gíslason, varamaður í hafnarstjórn, lýsti yfir vonbrigðum með afgreiðsluna og vildi leyfa breytta notkun á húsi Jóns Ásbjörnssonar við Geirsgötu. Í bókun hans á fundi hafnarstjórnar 1998 kom m.a. fram: „Rekstur matvörumarkaðar á Miðbakka myndi auka mannlíf við höfnina...Ég vek athygli hafnarstjórnar á því að aukin samkeppni á matvörumarkaði á undanförnum árum hefur leitt til lægra matvöruverðs neytendum til hagsbóta.“