Heiðar Róbert Ástvaldsson
Heiðar Róbert Ástvaldsson
Eftir Heiðar Róbert Ástvaldsson: "Mikið rusl er á staðnum og er það til skammar „Hrein torg fögur borg“. Var einhver að hlæja."

Mér finnst mjög gaman að fá mér daglegan göngutúr frá heimili mínu sem er á Bárugötu og labba Laugaveginn upp á Hlemm og til baka. Þetta tekur mig klukkutíma og ég segi án þess að roðna að ég hitti og sjái miklu skemmtilegri fugla á þessari leið en þegar ég labba kringum Tjörnina og er þó sú leið líka skemmtileg. Hinn 24. júlí var ég að koma úr einni slíkri ferð og dáðist þá að því að búið er að mála og pússa öll húsin á Laugaveginum svo það er borginni til sóma að sjá hvað einkaframtakið hefur staðið sig vel. Svo kom ég á Ingólfstorg sem ég held svo mikið upp á. Þar er gosbrunnur sem líkist hörpu og oft hefur mér sviðið að sjá sóðaskapinn þar í kring. Oftar en ekki er bréfarusl í tjörninni en nú tekur út yfir allan þjófabálk. Þennan dag voru bekkirnir á þessu litla hringtorgi aðeins ein fjöl, en eiga að vera tvær í sætinu og bakið alveg horfið. Mikið rusl er á staðnum og er það til skammar „Hrein torg fögur borg“. Var einhver að hlæja. Ekki ég. Mér finnst grátlegt hve nokkrir rugludallar geta skemmt mikið. Borgin verður að koma þessu í lag í hvelli og setja reglur um það að allir sem rusli út í Reykjavík skuli umsvifalaust sendir til dvalar í einni af þessum eyjum Reykjavíkur sem hvort sem er enginn býr í. Þar megi þeir rífa upp grasið og spýta út úr sér eins miklu tyggjói og þeir vilja. Allavega gera eitthvað dramatískt til að kenna parti af þjóð vorri að haga sér eins og siðuðu fólki sæmir.

Höfundur er danskennari.