Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Hver mun meta tilsvarandi tjón almennings og hagkerfisins í heild sem hefur skapast vegna þess að Drómi o.fl. fóru ekki að lögum nr. 38/2001?"

Fulltrúi Dróma og Frjálsa fjárfestingarbankans birti grein í Morgunblaðinu 27. júlí sl. Taldi hann sig þar kristnari en aðra menn fyrir utan hugsanlega einn lögfræðing Landsbanka Íslands.

Hafa báðir þessir aðilar verið að draga úr fordæmi er felast í dómum Hæstaréttar Íslands sem fallið hafa í tengslum við gengistryggð lán.

Hvatning frá fjölmiðlum og spellvirki

Í Morgunblaðinu sama dag hvetur leiðarahöfundur blaðsins Landsbanka Íslands, sem og aðrar fjármálastofnanir á Íslandi, að hraða málum varðandi endurútreikning lána. Liðin eru tæp fimm ár frá hruni og svipaður tími frá því að Hlynur Jónsson og fjöldinn allur af fólki fór á launaskrá hjá slitastjórnum og skilanefndum.

Í atvinnukálfi Morgunblaðsins, einnig sama dag, gefur jafnframt að líta stutta endursögn úr The Wall Street Journal varðandi leiðir sem njósnurum Bandaríkjanna var gert að fara eftir á erlendum vettvangi svo hægja mætti sem mest á hagkerfum óvinaríkja. Mátti þar auka flækjustig heiftarlega og þvæla hagkerfin til að eyðileggja mætti sem allra mest fyrir uppbyggingu og framför. Nokkuð snjöll aðferð gegn andstæðingi.

Hvað um Ísland?

Ísland ágætt dæmi

Eftir þessum sígildu leiðbeiningum njósnara til spellvirkja virðist holdgervingur skilanefnda og slitastjórna hafa farið og litið á aðra í því efni sem trúlausa afdalamenn tækju þeir ekki þátt. Þannig hljómaði grein þessa kristinboða Dróma með augljósu yfirlæti gagnvart öðrum í hans eigin landi í drottins nafni.

Rétt er að svokölluð Árna Páls-lög, er dugðu reyndar skammt, voru mikil ólög en varla ollu þau meira tjóni en þeir röngu útreikningar sem Drómi og Frjálsi fjárfestingarbankinn o.fl. unnu að um margra ára bil og fóru í bága við gildandi lög sem standa enn vel fyrir sínu, þ.e. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Virðast nú fjölmargir lögmenn falla í lögfræði þessa dagana eða var menntunin aðeins til þess gerð að læra þæfingar og stunda fjárhagslega aðför að eigin þjóð? Eru þetta hugsanlega allt yfirborgaðir spellvirkjar upp til hópa?

Ekki má gleyma vel meinandi lögmönnum og sérfræðingum á því sviði er vilja vel og virðast nú skilja samhengið. En hafa þeir allir kjark?

Hver metur tjón almennings?

Hver mun meta tilsvarandi tjón almennings og hagkerfisins í heild sem hefur skapast vegna þess að Drómi o.fl. fóru ekki að lögum nr. 38/2001?

Það að Drómi hafi ætlað að gæta hagsmuna kröfuhafa, sem virðist alla tíð hafa verið Seðlabanki Íslands og Hilda ehf., er engin afsökun á því að fara gegn lögum sem Seðlabanki Íslands sjálfur mæltist til að yrðu að lögum þegar íslenskri krónu var fleytt árið 2001.

Allt var þetta gert eftir ábendingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, áralangar rannsóknir núverandi seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og núverandi yfirhagfræðings Seðlabanka Íslands.

Hvaðan er aðförinni stýrt?

Sá sem tók við stól seðlabankastjóra eftir hrun var fyrst Norðmaður, sérfræðingur í spellvirkjafræðum, og svo Már Guðmundsson er lagði til ýmsar leiðir fyrir Dróma og aðrar fjármálastofnanir svo hafa mætti meira af fólki en lög og reglur á Íslandi heimiluðu, t.a.m. lög nr. 38/2001 og reglur kröfuréttarlegs eðlis. Mælti hann m.a. með tilkomu Árna Páls-laganna frægu ásamt dósent við Háskóla Íslands og þv. ráðherra.

Hver mun sæta ábyrgð og rannsókn vegna veðtökunnar í eignasafni sem var ónýtt? Hver veitti ráðgjöfina? Hví má ekki afhenda gjaldeyrisjöfnunarskýrslur bankanna sem þeir, ásamt endurskoðendum sínum, sendu Seðlabanka Íslands fyrir hrun?

Almannatjón

Samhliða aðgerðum og aðgerðarleysi stjórnvalda skapaðst umtalsvert tjón, almannatjón, sem seint verður bætt. Eitt af því er t.a.m. það tjón, sem reyndar margir í blindni mæltu með, er fólst í því að reka úr seðalbankastjórastólum menn sem settu þau lög er síðar stóðust skoðun, lög nr. 38/2001.

Hættan á gjaldeyrisáfalli var raunveruleg 2001 skv. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, því voru sett lög en þau voru brotin og ollu hruni, eyðilögðu áhrif stýrivaxta og spiluðu stóran þátt í að keyra hagkerfið í þrot.

Því vekur furðu þegar menn koma fram með dylgjur og aðdróttanir gegn þeim sem hugsanlega eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja hagsmuni almennings.

Lokauppgjör ekki fyrirsjáanlegt

Þessu borgarastríði í lögum er greinilega ekki lokið á Íslandi og munu sár seint gróa á meðan sérmenntað fólk í lögum sparkar sífellt í liggjandi samborgara sinn sem berst fyrir velferð sinni og fjölskyldunnar.

Þau stjórnvöld sem nú eru við völd hafa nú kjörið tækifæri til að sanna sig í þessum málum og geta nú sýnt hvað í þeim býr.

Þetta ferli sýnir svo um munar hve ríkar skyldur löggjafinn hefur við að vernda eignarrétt, gæta að almannahagsmunum, vanda til lagasetningar og styrkja neytendarétt á Íslandi.

Það er aldrei of varlega farið en hverjum klukkan glymur næstu misserin skal ósagt látið.

Höfundur er MSc í fjármálum, MBA, BA í heimspeki og hagfræði.