Inga Ólafía Haraldsdóttir (Inga Lóa) fæddist á Akureyri 28. nóvember 1943. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 16. júlí síðastliðinn.

Útför Ingu Lóu fór fram frá Bessastaðakirkju 30. júlí 2013.

Nú er mín elskulega frænka og trygga vinkona, Inga Lóa, fallin frá eftir áralanga baráttu við erfiðan sjúkdóm. Á þeirri þrautagöngu sem nú er lokið, í birtu sumars, vann hún þó sigur. Til marks um óbilandi kjark hennar og baráttuvilja náði hún, í byrjun júlí, að vera viðstödd giftingu sonar síns, sem var henni afar mikilvæg stund. Inga Lóa átti því láni að fagna að hafa sér við hlið umhyggjusama fjölskyldu og einstakan lífsförunaut, hann Jón sinn. Þau kynntust í Menntaskólanum á Akureyri og giftust ung. Hjónaband þeirra Ingu Lóu og Jóns var afar farsælt og í návist þeirra fannst manni alltaf ríkja andrúmsloft nýgiftra hjóna enda mjög samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Jón var þungamiðjan í lífi Ingu Lóu og var alla tíð hennar stoð og stytta, sem kom berlega í ljós í veikindum hennar, en þar stóð hann sem klettur við hlið hennar, allt til hinsta dags. Á kveðjustund lifna í huga mínum bjartar minningar frá áhyggjulausum æskudögum okkar á Akureyri, um hlýlegt heimili Ingu Lóu í Goðabyggðinni, þar sem ég upplifði gleði og hamingju í glaðværu umhverfi. Ég minnist einnig notalegra samverustunda og gönguferða á götum og stígum við Pollinn, þar sem við á lognkyrrum kvöldum létum okkur dreyma um framtíðina. Samveru okkar í sveitinni góðu, í Eyjafirði, þar sem lagður var grunnur að þeirri vináttu, sem aldrei bar skugga á. Heimsóknir á Álftanesið voru sannar gleðistundir, þar sem börnin okkar, sem fæddust á svipuðum tíma, léku sér saman í fallegu umhverfi. Heimili Ingu Lóu og Jóns stóð vinahópnum alltaf opið og var ætíð gott að sækja þau hjón heim. Hin síðari ár var svo búið að stofna frænkuklúbb, sem hittist einu sinni á ári til þess að rifja upp gamla tíma og gæða sér á góðum veitingum og var þar alltaf glatt í góðra vina hópi. Inga Lóa var góðum gáfum gædd, sem urðu samferðafólki hennar til gagns og gleði. Hún hafði gott tóneyra og hafði mikið yndi af tónlist. Hún lærði á píanó og söng í mörg ár í kirkjukór Bessastaðahrepps. Hún var einstök vinkona, hógvær, umhyggjusöm en viðkvæm. Hún var ósérhlífin og alltaf gott að leita til hennar með ráðleggingar. En það var stutt í hláturinn á gleðistund og oft var hún í hlutverki sögumannsins við slík tækifæri. Hún hafði ríka réttlætiskennd á líðan annarra og sýndi það oft í verki. Hún var einstaklega náin börnum sínum og barnabörnum sem nutu umönnunar hennar í ríkum mæli. Ég kveð þig með ást og þakklæti. Hvíl í friði við hið eilífa ljós.

Við sjáum, að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóstið þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Jón og fjölskylda, við Kolbeinn sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Megi fagrar og góðar minningar styrkja ykkur í sorginni.

Þín Kristín (Lillagó).

Klökk horfi ég á eftir Ingu Lóu vinkonu minni yfir móðuna miklu.

Við áttum samleið frá blautu barnsbeini, þ.e. í barnaskóla, tónlistarskóla, íþróttafélagi, menntaskóla, síðar á sama vinnustað, í sama sumarbústaðahverfi og í lokin í sama bæjarfélagi. Vinskapurinn þróaðist og varð mjög náinn síðustu ár.

Ég lít á það sem forréttindi að hafa fengið að kynnast svo vel þessari frábæru fallegu konu. Hún bar vott um glæsimennsku, smekkvísi og var falleg og heil í gegn. Ég heyrði hana aldrei segja styggðaryrði um nokkurn mann og henni þótti betra að gefa en þiggja. Augljóst er að hún unni mjög Jóni sínum og börnum, hélt vel utan um alla fjölskylduna og dáði barnabörnin. Alltaf hlakkaði hún til að fara norður á bernskuslóðir, einkum í Vaðlaheiðina í fallegt sumarhús þeirra hjóna. Jón var hennar stoð og stytta gegnum alvarleg veikindi sem hún bauð birginn. Hún var algjör hetja í þeirri baráttu og kepptist við að þjálfa sig til að ná síðasta markmiðinu sem var að vera viðstödd brúðkaup sonar þeirra og það tókst.

Við ætluðum að halda saman upp á stórt stúdentsafmæli á næsta ári en höfðum þó hent gaman að því að við gætum líka kallað hópinn saman á öðru tilverustigi síðar.

Elsku Jón, Halla, Áslaug, Halli, Ása, Helga og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, elsku vinkona, og takk fyrir allt.

Kalla Signý Malmquist.

Í Goðabyggð tvö á Akureyri bjuggu heiðurshjónin Ninna og Halli, ásamt heimasætunum, Ingu Lóu, Helgu og Ásu og Stefaníu langömmu í kjallaranum. Á unglingsárunum myndaðist náinn vinskapur með undirritaðri og Ingu Lóu og ég varð daglegur gestur í Goðabyggðinni. Auk þess að öðlast vináttu og trúnað Ingu Lóu hlaut ég umhyggju og vináttu Ninnu og Halla. Í Goðabyggðinni var alltaf veisla, allir velkomnir, þar var spjallað og hlegið fram á nótt, þar voru spiluð Bítlalög um leið og fyrsta Bítlaplatan kom til landsins, Ninna var eins og ein af stelpunum, en Halli hristi höfuðið góðlátlega og kímdi. Vinir og skólasystkini Ingu Lóu fóru ekki varhluta af gestrisni og örlæti fjölskyldunnar, ekki bara meðan Inga Lóa var í föðurgarði, heldur líka á stúdentsafmælum, en þá blésu Ninna og Halli til veislu.

Inga Lóa og Jón Gunnlaugsson urðu par í menntaskóla, stóðu þétt saman, áttu hamingjuríkt hjónaband og farið að styttast í gullbrúðkaup. Heimili þeirra einkenndist af alúð, smekkvísi og rausn. Þrjú myndarleg og vel gerð börn komu til sögunnar og síðar tengdabörn og barnabörn, fallegt og mannvænlegt fólk. Inga Lóa unni fjölskyldu sinni mjög og hélt fast utan um hana. Hún studdi Jón heils hugar í atvinnurekstri og lagði þar til margar góðar hugmyndir. Hún var afar farsæl í sínu starfi og vel liðin.

Inga Lóa var glæsileg, aðlaðandi og falleg kona, skynsöm og heilbrigð að eðlisfari, hógvær og hófstillt, vönduð, vammlaus og vinmörg. Hún var sérlega myndarleg til verka, lagin, harðdugleg og skipulögð og virtist hrista stórveislur fram úr erminni. Á skólaárunum unnum við oft saman hjá pabba hennar í Kaupfélagi verkamanna. Hún kunni þar skil á öllum daglegum rekstri, gekk í öll störf, var eldsnögg að leggja saman í huganum og sagaði kjötskrokka eftir kúnstarinnar reglum í kjötsöginni eins og ekkert væri.

Inga Lóa bjó yfir lunkinni kímnigáfu. Hún varpaði oft fram meinfyndnum athugasemdum um menn og málefni og átti til að gera skemmtilegt grín að sjálfri sér.

Inga Lóa bar tilfinningar sínar ekki á torg. Hún var yfirveguð, trygglynd og traust. Það var enginn einn, sem átti Ingu Lóu að. Inga Lóa naut góðs fjölskyldu- og heimilislífs, hún og Jón undu glöð við sitt og væntu saman góðrar uppskeru af ævistarfinu. Skyndilega læsti vágestur í hana klónum. Það var sárt að sjá hve sjúkdómurinn var Ingu Lóu óvæginn og lék hana harkalega, en jafnframt aðdáunarvert að sjá hana halda innri reisn og virðingu. Með henni bjó sterkur lífsvilji og lífslöngun, margt var ógert og margt sem hún vildi njóta. Hún barðist af öllum kröftum gegn meininu en mátti lúta í lægra haldi fyrir vágestinum grimma.

Ingu Lóu verður sárt saknað. Traustur hlekkur í fjölskyldunni er brostinn, ástkær eiginkona, umhyggjusöm móðir og amma, sem barnabörnin fá ekki að njóta lengur, en þar áttu þau elskuríka stoð og styttu og fagra fyrirmynd.

Að leiðarlokum er hugur minn fullur þakklæti fyrir að hafa öðlast vinátta Ingu Lóu og fengið að vera hluti af lífshlaupi hennar.

Bergþóra Einarsdóttir.

Angur í hjarta.

Endurminningar

líða um hugann

líkt og svipmyndir.

Gáskafull skólaár.

Gæðastundir síðar

í góðum hópi.

Ljúf og einstök

í lífi og starfi.

Fjölskyldu, börnum,

félögum og vinum,

sinnti hún öllum

af sömu natni.

Ógn steðjaði að.

Á henni var tekið

af æðruleysi.

Lokins kom nóttin

með líknandi hönd

og lokaði augum.

Góðvina er gengin

geymi hana faðir

í hæstu hæðum.

Kallið er komið, Inga Lóa vinkona okkar er horfin úr hópnum og söknuðurinn er sár. Við undirritaðar áttum samleið með henni í rúmlega hálfa öld og nutum vináttu hennar, gæsku og trygglyndis. Margs er að minnast og minningarnar streyma fram, ein af annarri. Minningar um glaðar stundir við skemmtan, útivist, söng og spjall á síðkvöldum munu ylja okkur um ókomin ár.

Við kynntumst Ingu Lóu fyrst haustið 1960 við upphaf náms í Menntaskólanum á Akureyri. Við komum alls staðar að af landinu og margar okkar bjuggu í heimavist skólans. Inga Lóa var innfæddur Akureyringur og bjó í foreldrahúsum í Goðabyggðinni. Foreldrar hennar, Haraldur og Áslaug, sýndu okkur mikla ræktarsemi og gestrisni og opnuðu okkur heimili sitt og faðm alla tíð. Slíkt var ómetanlegt fyrir unglinga sem voru að fóta sig í lífinu fjarri heimahögum. Inga Lóa erfði góða eðliskosti foreldra sinna, hún var blíðlynd og fáguð, hnyttin í svörum og vel máli farin. Í MA kynntist hún lífsförunaut sínum Jóni Gunnari Gunnlaugssyni sem nú hefur misst eiginkonu sína og besta vin.

Þau Jón voru einna fyrst úr hópnum til að stofna sitt eigið heimili og þegar frá leið urðu þau fastir punktar í tilveru okkar. Þau kunnu þá list að taka vel á móti gestum og heimsóknir til þeirra á Álftanesið, í „Gleðihúsið“ niðri á túni og í sumarbústaðinn Brekkukot í Vaðlaheiðinni, eru okkur ógleymanlegar. Þau hjón voru samhent og börnin þrjú voru augasteinar þeirra. Ekki minnkaði ánægjan þegar barnabörnin komu til sögunnar og það var stolt amma sem sagði okkur sögur af þeim. Fyrir margt löngu stofnuðum við stelpurnar úr árgangi okkar í MA félagsskap – sem við í gríni kölluðum stundum saumaklúbb – og gáfum honum heitið Flittige hænder og tavse munde, skammstafað FHOTM. Inga Lóa var virk í starfsemi klúbbsins enda félagslynd og hugmyndarík en það eru eiginleikar sem nýtast vel í samskiptum við okkur. Með sitt fallega bros og bjarta yfirbragð varð hún fljótlega ein af skrautfjöðrum klúbbsins. Og þá er nú mikið sagt. Við höfum gert ótrúlegustu hluti saman og treyst vináttuböndin í blíðu og stríðu.

Líf sem vel er nýtt, er langt líf. Inga Lóa gat litið sátt yfir farinn veg. Hún hafði verið farsæl og heilsteypt í lífi og starfi og í glímunni við erfið veikindi sýndi hún mikinn kjark og æðruleysi. Við dáðumst að baráttuþreki hennar og erum þakklátar fyrir að hafa átt hana að vini. Hún stóð á meðan stætt var og miklu, miklu lengur.

Við þökkum Ingu Lóu áralanga vináttu og vottum Jóni, börnum og öðrum ástvinum innilega samúð.

Hvíl í friði.

Fyrir hönd vinkvenna í FHOTM,

Ingibjörg Möller, Ingibjörg Símonardóttir og Hlín Daníelsdóttir.

Í dag kveð ég Ingu Lóu Haraldsdóttur. Ég var svo heppinn að fá að vinna með Ingu Lóu um árabil. Hún stýrði ritaraþjónustu Barnaspítala Hringsins og undanfarinn áratug var hún skrifstofustjóri og ritari prófessors. Öll samskipti voru ánægjuleg, auðveld og þægileg og aldrei bar þar skugga á. Inga Lóa var vinnusöm, vandvirk og samviskusöm. Hún lagði mikla alúð í öll störf. Það var meðal annars greinilegt í verkefnum er sneru að nemunum en hún gætti vel að öllum málum er snertu skipulag náms í barnalækningum. Oft sá hún fyrir verkefni sem komu upp og hafði jafnvel lokið þeim þegar ég bryddaði upp á hugmyndinni. Var þá jafnvel svolítið kankvís: „Þetta er tilbúið í skúffunni.“

Inga Lóa var einnig skemmtileg og stundum glettin. Þegar við starfsfélagarnir sögðum glaðir frá því hvernig við höfðum að sumarlagi farið yfir Sprengisand, meira að segja í þoku og slæmu skyggni, kom í ljós að Inga Lóa hafði nýlega farið með Jóni sínum upp í Grímsvötn um hávetur. Og þegar við rifjuðum upp veiðisögur liðins sumars, stoltir að hafa landað einum þrátt fyrir lítið vatn í ánni, kom í ljós að Inga Lóa hafði nýlega verið uppi á hálendi með Jóni í 20 stiga frosti að dorga í gegnum ís. Og þetta sagði hún okkur eins og þetta væri fullkomlega eðlilegt – að vísu með léttum, skemmtilegum hlátri og glettni í augunum.

Inga Lóa var einlægur og góður félagi. Hún var einnig mikil fjölskyldumanneskja, sagði stolt frá börnunum og barnabörnunum og sögur af ferðalögum með Jóni. Ferðirnar norður í húsið þeirra í Vaðlaheiðinni voru henni mikils virði undanfarin ár þar sem hún naut samvista við fjölskylduna.

Ég sakna Ingu Lóu. Ég minnist margra góðra stunda og er þakklátur fyrir að hafa átt hana að vini og samstarfsmanni. Ég tala fyrir hönd allra samstarfsmanna Barnaspítala Hringsins, öll söknum við góðs félaga.

Fjölskyldu Ingu Lóu sendi ég mínar bestu samúðarkveðjur.

Ásgeir Haraldsson.

Kveðja frá félögum í Álftaneskórnum

Við kveðjum nú kæran og tryggan félaga í Álftaneskórnum til áratuga, hana Ingu Lóu. Það er stórt skarð höggvið í okkar raðir. Við höfum ríghaldið í vonina um að hún myndi sigrast á veikindum sínum og koma aftur í hópinn, en það er ekki liðið nema rúmt ár síðan við vorum öll saman á Ítalíu í söngferð sem hún tók fullan þátt í.

Inga Lóa var afar tryggur félagi, glæsileg, hreinskiptin og glaðlynd. Söng altrödd, var ein af styrkustu stoðum þess hóps innan kórsins og vantaði mikið þegar hún var ekki, hvort sem það var við æfingar eða þegar kórinn kom fram og söng.

Kórinn naut gestrisni hjónanna Jóns og Ingu Lóu í ríkum mæli og eigum við góðar minningar um samverustundir í garðhúsinu þeirra þar sem við grilluðum, sungum og skemmtum okkur. Í vor komum við síðast á heimili þeirra til að syngja saman og var vel tekið á móti okkur að venju.

Um leið og við syrgjum góðan félaga og söknum, berum við jafnframt gleði og þakklæti í hjarta fyrir allar samverustundirnar sem við höfum átt með henni í kórstarfinu.

Við vottum Jóni Gunnari eiginmanni Ingu Lóu, börnum þeirra og fjölskyldum innilega samúð okkar allra.

Fyrir hönd Álftaneskórsins,

Hallfríður Erla Guðjónsdóttir.