Það gleður Víkverja þegar hann nær að sameina nýtni, notagildi og smekklegheit í kaupum á fataleppum og ekki skemmir fyrir ef fáum krónum er eytt í kaupunum á sama tíma.

Það gleður Víkverja þegar hann nær að sameina nýtni, notagildi og smekklegheit í kaupum á fataleppum og ekki skemmir fyrir ef fáum krónum er eytt í kaupunum á sama tíma. Slíkt er ekki sjálfgefið þar sem stundarhrifning og tískusveiflur stjórna oftar en ekki fatakaupum Víkverja.

Það er nefnilega frekar vinsælt núna að hugsa vel um peningana og kaupa frekar færri flíkur og betri. Þarna óma orð ömmu gömlu, saumakonunnar nýtnu sem sagði ógjarnan það skal vanda sem lengi skal standa.

Yfirlýsingagleði á það til að grípa Víkverja. Hann lýsti því yfir fyrir nokkru að hann skyldi láta sjá sig í flík sem keypt var honum til háðungar. Vinsæll partíleikur var stundaður hjá Víkverja og vinum hans árið 2007; að kaupa ljót föt handa hver öðrum og fyrirfram ákveðinni upphæð yrði eytt til kaupanna. Auðvitað skal tekið fram að þetta fór fram í Danaveldi og gengi krónunnar hagstæðara. Fötin voru keypt hjá stórum fatarisa sem hefur teygt anga sína um allan heim en þó ekki hingað á klakann. Þetta var ungt og lék sér.

Nú er Víkverji mættur í jakkanum fínum og er að sjálfsögðu sallafínn. Að sjálfsögðu skiptir samsetning fataleppanna miklu máli og brúnir, skrautlegir tónar pössuðu harla vel við hann, líkt og var um árið.

Lærdómurinn sem Víkverji dregur af þessu er sá; þrátt fyrir leikgleði og eyðslusemi sem getur gripið hvern sem er þá er hægt að nýta hlutina betur þegar timburmennirnir renna af manni. Að sjálfsögðu á þetta einnig við um tískuna sem fer alltaf í hring og kannski er aftur komið árið 2007 í tískunni? Ætli sérfróðir tískuspekingar væru ekki betur til þess fallnir að svara þeim spurningum.