Sólrún Arna Erlingsdóttir fæddist 12. desember 1954. Hún lést á heimili sínu í Mt. Vernon í Washingtonfylki í Bandaríkjunum 24. júní 2013.

Kjörforeldrar Sólrúnar, eða Lillu eins og hún var kölluð meðal náinna ættingja, eru Lofthildur Kristín Hjálmtýsdóttir, f. 22. júní 1933, og Erlingur Theodórsson, f. 17. júní 1934, d. 1. janúar 2004. Systir Lillu er Margrét Theodorsson Haynes, f. 9. nóvember 1961.

Lilla giftist Daniel Ray Henderson. Þau eignuðust fjögur börn sem eru: Jesse Ray, f. 1973, Kristinn Ray, f. 1977, Shauna og Shannon, fæddar 1978. Barnabörnin eru orðin fimm talsins. Lilla og Dan skildu. Lilla var í sambúð með Charles Redford (Chuck). Lilla útskrifaðist úr high school þegar hún var 18 ára.

Útför Sólrúnar Örnu fór fram í Vesturheimi.

Nú er hún Lilla frænka mín horfin á braut af þessu tilverustigi. Lilla, eða Sólrún Arna eins og hennar skírnarnöfn var, var búsett á vesturströnd Bandaríkjanna í Washingtonfylki. Lilla hafði átt við veikindi að stríða síðustu árin. Það verður að segjast að enginn veit hver örlög manns verða fyrr en yfir lýkur. Það má segja í tilviki Lillu frænku, að hún hafi ekki haft svo mikið um örlögin að segja þegar hún fluttist með foreldrum sínum um fermingaraldurinn vestur til Bandaríkjanna, sem ákváðu að freista gæfunnar í þessu fyrirheitna landi tækifæranna. Það er erfitt að setja sig í spor Lillu, að allt í einu rífa sig upp og yfirgefa ættingjana, vinina og fósturjörðina. Lilla sýndi fljótt afburðaaðlögunarhæfni í landi hinna miklu andstæðna. Hún fæddi fjögur mannvænleg börn sem öll búa í fæðingarfylkinu. Eftir því sem sagan segir, þá var ekkert gert nema búið væri að leggja það undir hana þegar mikilvægar ákvarðanir voru teknar í fjölskyldunni. Hún var dugnaðarforkur og afar ósérhlífin. Hvort rekja megi það til genatískra áhrifa, ofvirkni eða annarra þátta, þá var hún fram úr hófi hjálpsöm og greiðvikin. Ég man í gamla daga þegar hún hringdi í okkur á Baldursgötunni og spurði hvort ekki væri þörf á að þrífa á heimilinu. Hún var ekkert að hafa fyrir því að bíða eftir svari, heldur geystist af stað. Nokkrum andartökum síðan var hún byrjuð að taka allt skótau og henda því út á gangstétt og lét hendur svo sannarlega standa fram úr ermum við þrifin. Lilla var einstaklega gjafmild. Í þau skipti sem hún kom til Íslands var hún klyfjuð gjöfum til að gefa ættingjunum. Þetta lýsti henni vel. Hún var einnig mjög stolt af sínum uppruna. Afi hennar, Jón Kr. Lárusson, gaf út bók um miðja síðustu öld (Ævisaga Breiðfirðings). Lilla átti eintak af bókinni. Hún hafði áhuga á að gefa hana út á ensku. Henni entist því miður ekki aldur til að koma því í verk. Á þessum tímamótum er mér efst í huga eftirsjá og söknuður af Lillu, þessari fíngerðu, rösku og hjartahlýju frænku minni sem ekkert aumt mátti sjá.

Að lokum vil ég votta öllum hennar nánustu ættingjum og vinum mína dýpstu samúð. Minningin lifir um góða frænku.

Hjálmtýr Rúnar Baldursson.