Veitt í Elliðaánum Friðleifur Stefánsson tannlæknir veiðir í Höfuðhyl, efst í Elliðaánum. Flugusvæðið í uppánni hefur verið mjög sterkt.
Veitt í Elliðaánum Friðleifur Stefánsson tannlæknir veiðir í Höfuðhyl, efst í Elliðaánum. Flugusvæðið í uppánni hefur verið mjög sterkt. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Áfram er mjög góð laxveiði víða um land. Flestum löxum hefur verið landað í Norðurá, 2.450 á miðvikudagskvöldið, en í liðinni viku veiddust 235 laxar í ánni.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Áfram er mjög góð laxveiði víða um land. Flestum löxum hefur verið landað í Norðurá, 2.450 á miðvikudagskvöldið, en í liðinni viku veiddust 235 laxar í ánni. Það er heldur minna en í vikunni þar á undan þegar rúmlega 350 veiddust. Engu að síður afar fín veiði en nú hafa veiðst rúmlega þrisvar sinnum fleiri laxar en voru komnir á land á sama tíma á niðursveiflusumrinu í fyrra. Þá er aflinn um 500 löxum meiri í Norðurá nú en á sama tíma sumrin 2011 og 2010.

Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, fagnar þessum góða gangi og segir útlit fyrir að laxveiðin í sumar verði „gríðarlega góð. Veiðin í sumar er þannig um þriðjungi betri en hún hefur verið að meðaltali á þessum tímapunkti síðustu átta ár.“ Hann segir að á miðvikudag hafi verið búið að veiða um 21.000 laxa í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga en meðaltalið er um 15.500 laxar. Aðeins einu sinni á síðustu átta árum hefur veiðin verið betri í þeim 25 ám sem Landssambandið miðar við, en það var metárið 2010.

Síðasta vika gaf 250 laxa

Ein af þeim mörgu ám þar sem umskiptin eru mikil síðan í fyrra, er Þverá-Kjarrá, þar sem 2.107 laxar höfðu veiðst á miðvikudag og eru það um þrefalt fleiri fiskar en veiddust í allt fyrrasumar. Síðasta vika gaf 250 laxa á veiðisvæðinu og var veiðin víst einkum góð á fjallinu, í Kjarrá. Þar veiddust hátt í 60 laxar á miðvikudag. Á sama tíma fyrir tveimur árum höfðu veiðst 1.272 laxar í Þverá-Kjarrá en hinsvegar um 2.600 árið 2010, þegar veiðin var frábær og lokatölur 3.760. Ljómandi gott vatn mun enn vera í ánum en það jókst í þrumuveðrinu á sunnudaginn var.

Góður gangur er í Elliðaánum og veiðin jöfn og góð, að sögn Ólafs Jóhannessonar, formanns árnefndar Elliðaánna. „Á miðvikudagskvöld höfðu veiðst 792 og það er um 150 löxum betra en á sama tíma í fyrra. Við erum ánægðir. Nú hefur aðeins dregið úr göngum en flugusvæðið í uppánni er mjög sterkt, það er fiskur í hverjum hyl, að heita má. Menn eru mislagnir að fá fisk, eins og gengur, en heilt yfir er þetta gott.“

Morgnarnir eru sterkari en eftirmiðdagurinn og þegar blaðamaður leit í veiðibókina við Elliðaárnar í vikunni mátti sjá að rúmlega tugur fiska hafði veiðst daglega á morgnana en nokkru færri á kvöldin.

„Kvótinn er tveir laxar á stöng á vakt og margir eru að fá kvótann. Svo halda menn áfram og veiða og sleppa,“ segir Ólafur.

Vöxtur í Húnaþingi

Rangárnar hafa verið heldur hægari í gang þetta sumarið en stundum áður en ljóst er að nú sækja þær í sig veðrið, eins og venjulega á þessum tíma. Þannig veiddust yfir 100 laxar í þeim báðum á miðvikudag, síðasta dag júlímánaðar. Og tölurnar munu án efa halda áfram að stíga næstu vikur.

Laxar húnvesku ánna voru ekki jafn fljótir úr startblokkunum og þeir á Vesturlandi en dagsveiðin er stígandi í þeim öllum. Veiðin í Blöndu hefur verið framúrskarandi, eins og fram hefur komið undanfarnar vikur; nálgast 2.000 laxa og langflestir á neðsta svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Þresti Elliðassyni, leigutaka Hrútafjarðarár, er veiðin þar þegar komin fram úr lokatölum í fyrra, sem voru 180 laxar. „Ef fram fer sem horfir gæti nýtt met orðið í ánni, en það eru 642 laxar árið 2009. Vanir Hrútuveiðimenn tala um að þeir hafi aldrei séð svona mikið af laxi í ánni áður. Nánast fiskur um alla á og vatnið frábært og verður spennandi að fylgjast með næstu vikum því ekkert lát er á göngum í ánna,“ skrifar hann í fréttabréf sitt.

Á sex dögum í vikunni veiddust 31 lax í Svartá í Húnavatnssýslu, sem er alla jafna góð síðsumarsá, og var einn 20 punda. Er laxinn sagður orðinn dreifður um alla á. Í Víðidalsá hafa þegar veiðst fleiri laxar en allt sumarið í fyrra, eða 370, og eru það fleiri en á sama tíma árið 2011. Í Vatnsdalsá er síðan frábær gangur, 494 höfðu veiðst á miðvikudag og þar af gaf liðin vika 154. Er það sambærileg veiði og sumrin 2009 og 2010.