[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hörður Ægisson hordur@mbl.is Slitastjórn Sparisjóðabankans (SPB), áður Icebank, vinnur nú að undirbúningi að nýju nauðasamningsfrumvarpi til að leggja fyrir kröfuhafa sem er talið líklegra til að hljóta samþykki Seðlabanka Íslands.

Fréttaskýring

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Slitastjórn Sparisjóðabankans (SPB), áður Icebank, vinnur nú að undirbúningi að nýju nauðasamningsfrumvarpi til að leggja fyrir kröfuhafa sem er talið líklegra til að hljóta samþykki Seðlabanka Íslands.

Samningskröfuhöfum Sparisjóðabankans var tilkynnt fyrir skemmstu að ekki myndi takast að ljúka við fyrirhugaðan nauðasamning sem var lagður fyrir kröfuhafa í marsmánuði á þessu ári. Ekki tókst að fá samþykki allra kröfuhafa svo nauðasamningsfrumvarpið næði fram að ganga. Seðlabankinn vildi ennfremur ekki veita samþykki sitt fyrir útgreiðslu gjaldeyris til samningskröfuhafa né heldur samþykkja sjálfan nauðasamninginn.

Slitastjórn Sparisjóðabankans vinnur nú að gerð rammasamkomulags í tengslum við frumvarp að nýjum nauðasamningi með stærstu kröfuhöfum, einkum Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ), en heildarkröfur Seðlabankans – reistar á veðlánum sem bankinn veitti fyrir fall fjármálakerfisins 2008 – nema yfir 210 milljörðum króna.

Gert er ráð fyrir því að með nýju nauðasamningsfrumvarpi verði ekki krafist samþykkis allra samningskröfuhafa SPB. Jafnframt verður reynt að hanna nauðasamninginn þannig að komið verði til móts við athugasemdir Seðlabankans. Að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála þá leggur Seðlabankinn mikla áherslu á að nauðasamningurinn, sem mun þurfa samþykki Seðlabankans vegna undanþágu frá fjármagnshöftum, verði ekki með þeim hætti að skapað sé óheppilegt fordæmi við mögulega nauðsamninga þrotabúa Glitnis og Kaupþings.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins völdu nokkrir erlendir kröfuhafar SPB að fá greitt í íslenskum krónum og nam sú upphæð hundruðum milljóna. Samkvæmt áður fyrirhuguðum nauðasamningi gátu erlendir kröfuhafar fengið um 13,5 milljarða í gjaldeyri að því gefnu að þeir kysu allir þá leið að fá útgreiðslu í erlendri mynt og kröfu á þrotabú Kaupþings. Líklegt þykir að þeir hafi fremur kosið að fá greitt í krónum en að taka á sig þá áhættu að fá borgað með kröfu á hendur Kaupþingi miðað við 16% nafnvirði krafna á búið. Mikil óvissa ríkir um endanlegar heimtur kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna.

Gjaldeyrir og Kaupþingskrafa

Sú staðreynd að sumir erlendir kröfuhafar kusu fremur að fá greitt í íslenskum krónum heldur en kröfu á Kaupþing var á meðal þeirra atriða sem gerði það að verkum að Seðlabankinn veitti ekki samþykki sitt fyrir nauðasamningnum. Heimildir Morgunblaðsins herma að í nýju frumvarpi að nauðasamningi verði samningskröfuhöfum aðeins boðið að fá greitt í gjaldeyri og kröfu á hendur Kaupþingi. Þannig séu auknar líkur á að samþykki fáist frá Seðlabankanum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins gæti frumvarp að nýjum nauðasamningi hugsanlega litið dagsins ljós á haustmánuðum.

Samþykktar almennar kröfur á Sparisjóðabankann, fyrir utan ESÍ, nema um 83 milljörðum króna. Rétt eins og greint var frá í Morgunblaðinu í apríl þá gerði nauðasamningsfrumvarp SPB ráð fyrir að samningskröfuhafar myndu fá greitt 22,8% samþykktra krafna sinna, eða sem nemur um 19 milljörðum.