Stúdentagarðar Nýir stúdentagarðar verða teknir í notkun um miðjan mánuðinn. 166 íbúðir eru í tveimur húsum við Oddagötu. Fleiri munu senn rísa.
Stúdentagarðar Nýir stúdentagarðar verða teknir í notkun um miðjan mánuðinn. 166 íbúðir eru í tveimur húsum við Oddagötu. Fleiri munu senn rísa. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is Um miðjan mánuðinn verða teknar í notkun 166 nýjar íbúðir fyrir stúdenta. Íbúðirnar eru í tveimur fjögurra hæða húsum neðan við Oddagötu í Reykjavík.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

Um miðjan mánuðinn verða teknar í notkun 166 nýjar íbúðir fyrir stúdenta. Íbúðirnar eru í tveimur fjögurra hæða húsum neðan við Oddagötu í Reykjavík.

María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), fagnar því að íbúðirnar séu teknar í notkun, en segir að biðlistar eftir íbúðum styttist sennilega lítið sem ekkert við þetta.

„Biðlistinn hættir aldrei, hann lengist alltaf,“ sagði María Rut. „Það virðist ekki sjá fyrir endann á honum, það hrúgast alltaf inn umsóknir.“ Samkvæmt upplýsingum frá Félagsstofnun stúdenta (FS), sem á og rekur stúdentagarðana, eru um 1.100 stúdentar að bíða eftir íbúðum.

María Rut segir að í gær hafi húsgögn verið borin inn í nýju íbúðirnar, sem verða með nokkuð öðru sniði en eldri stúdentaíbúðir FS.

Eldhúsið á ganginum

„Þarna fá stúdentar fullbúið herbergi með rúmi og skrifborði og öllu. Á ganginum er svo mjög stórt fullbúið eldhús með fjórum ísskápum, hnífapörum og öllu saman. Svo er þarna setustofa með sófum og borðstofuborði. Hver gangur deilir eldhúsi, og það eru þrír gangar á hverri hæð. Eldhúsin snúa öll inn í húsagarð, þannig að þú sérð hvað er um að vera í hinum eldhúsunum.“

Þá verður mögulega grill í garðinum, auk þess sem hægt verður að fara upp á þak hússins.

Maríu Rut grunar að fleiri stúdentar séu í húsnæðisvanda en þessi langi biðlisti gefi til kynna. „Það getur verið að fólk standi ekki í því að sækja um. Ég veit sjálf um fólk sem er hikandi, þetta er rosalega mikil óvissa. Já, ég held að hann gæti verið lengri,“ sagði María Rut.

Heimilt að framleigja

Hún segir að stúdentum sé heimilt að framleigja íbúðir sínar öðrum nemendum við Háskóla Íslands við ákveðnar aðstæður. „Það er þegar fólk fer í skiptinám og vill ekki missa íbúðina sína. Frumleigjandinn þarf þá sjálfur að finna leigjanda, sem dvelur þá í íbúðinni á ábyrgð upprunalegs leigjanda. Síðan þarf að koma með staðfestingu á að viðkomandi sé að fara í skiptinám.“