Missy Franklin
Missy Franklin
Bandaríska sunddrottningin Missy Franklin sem er aðeins 18 ára gömul þurfti að sjá á eftir gulli í 100 metra skriðsundi á heimsmeistaramótinu í Barcelona í gær en hún komst ótrúlegt en satt ekki á verðlaunapall, að því sögðu má taka fram að 100 metra...

Bandaríska sunddrottningin Missy Franklin sem er aðeins 18 ára gömul þurfti að sjá á eftir gulli í 100 metra skriðsundi á heimsmeistaramótinu í Barcelona í gær en hún komst ótrúlegt en satt ekki á verðlaunapall, að því sögðu má taka fram að 100 metra skrið er langt því frá hennar sterkasta grein en hún endaði í fjórða sæti.

Franklin er samt sem áður búin að stela senunni í Barcelona eins og búist var við en bjartsýnustu menn reiknuðu með átta gullverðlaunum frá henni þó að það væri heldur djarft.

Þessi 18 ára gamla mær frá Kaliforníu er engu að síður búin að vinna til ferna gullverðlauna á HM í Barcelona og er hún nú alls með ellefu gull og 16 verðlaun á stórmótum þrátt fyrir ungan aldur. Franklin skaust fram á sjónarsviðið á HM í Sjanghæ árið 2011, þá 16 ára gömul, þar sem hún vann þrjú gull, eitt silfur og eitt brons. Hún kynnti sig svo fyrir alheiminum á Ólympíuleikunum í London í fyrra þar sem hún vann fern gullverðlaun og eitt brons, þá 17 ára gömul, en ljóst er að Franklin er rétt að byrja safna verðlaunapeningum.

71. verðlaun Lochtes

Annar Bandaríkjamaður, Ryan Lochte, er einnig að gera það gott í Barcelona en hann vann í gær 200 metra baksund karla þriðja heimsmeistaramótið í röð en samlandi hans Aaron Peirsol á þó metið þar sem hann vann sama sund fjögur mót í röð.

Lochte er einn albesti sundmaður sögunnar en verðlaunin í gær voru hans 71. á stórmóti en hann á að baki fimm Ólympíugull.

Þá gerði Ungverjinn magnaði, Daniel Gyurta, sér lítið fyrir og vann 200 metra bringusund karla í þriðja skipti en hann varð einnig Ólympíumeistari í greininni í London í fyrra.

Bandaríkin unnu svo í gær 4x200 metra boðsund karla fimmta heimsmeistaramótið í röð en það virðist eitthvað í það að Bandaríkjunum verði ógnað í þeirri grein. tomas@mbl.is