[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir aslaug@mbl.

Baksvið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

aslaug@mbl.is

„Þetta stefnir í óefni, því er ég sammála,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, en hann tekur undir áhyggjur Einars Stefánssonar og Sigurðar Guðmundssonar, starfandi lækna á LSH, um verulega slæma stöðu heilbrigðiskerfisins, en þeir skrifuðu grein um málið í Morgunblaðið í gær. Þar ítrekuðu þeir að auk úrelts tækjabúnaðar og gamalla húsa væri langmesta áhættan í mannauðnum þar sem ungir læknar hika við að snúa aftur til Íslands og margir sérfræðilæknar hafa snúið aftur til útlanda. Þeir segja að að óbreyttu munum við vakna upp við að heilbrigðisþjónusta landsins verði komin langt undir OECD-meðaltal í gæðum, en hún hefur verið í fremstu röð í heiminum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tekur einnig undir áhyggjur þeirra og segir ráðuneytið vera að útfæra aðgerðir til að gera spítalann og heilbrigðiskerfið samkeppnishæft á nýjan leik. „Við ætlum að vinna í heilbrigðismálum með þeim hætti að við stöndumst samkeppni. Það gerist hinsvar ekki á einu ári, þetta er stórt verkefni og er lengri tíma verk miðað við stöðuna á kerfinu í dag.“

„Það eru ákveðnar greinar innan spítalans sem hafa átt í verulegum vandræðum með mönnun, þar má nefna krabbameinslækningarnar sem hafa átt í erfiðleikum í nokkur ár, bæði lyflækningar og geislalækningar, er þar verða t.d. aðeins tveir geislalæknar eftir í haust,“ segir Þorbjörn og bætir við að þetta eigi einnig við um nýrnalækningar og ýmsar greinar með fáum læknum sem hafa átt í erfiðleikum með að manna sig, en þá munar mikið um hvern lækni, en það er misjafnt eftir sérgreinum. Þorbjörn telur orsakirnar vera almennt lélegan aðbúnað og meira vinnuálag, ásamt því að tækjabúnaðurinn hérlendis fer versnandi.

„Allt verður þetta til þess að yngra fólk sem búið er að sérmennta sig erlendis er síður tilbúið að koma heim,“ segir Þorbjörn, og segir unga fólkið vilja geta sinnt fólki með sama hætti og það er vant að gera erlendis.

Samdrátturinn orðinn of mikill

„Læknar hafa varað við þessari þróun frá 2008, samdrátturinn er orðinn of mikill þannig að spítalinn hefur engan sveigjanleika til að bregðast við,“ segir Þorbjörn og nefnir dæmi um umbun fyrir aukið vinnuálag og þegar menn leggja aukalega á sig er afskaplega takmörkuð.

Í upplýsingum frá Læknafélaginu hafa 208 læknar skráð sig úr félaginu á síðustu þremur árum en aðeins 71 skráð sig í félagið. Þorbjörn segir það gefa góða mynd af veruleikanum þó að það sé ekki tæmandi.

Þá hefur samnorrænn vinnuhópur um mönnun lækna á Norðurlöndunum gefið út að Ísland sé að dragast aftur úr öðrum löndum á Norðurlöndunum hvað varðar læknafjölda. Á Íslandi eru 300 íbúar á bak við hvern starfandi lækni, en þeir eru 220-240 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. „Þetta er áberandi munur,“ segir Þorbjörn

„Það er búið að skera það mikið niður í heilbrigðiskerfinu að það er ekki hægt að skera meira niður, það þarf að fara byggja upp kerfið að nýju,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Hann segir þetta nauðsynlegt til að halda áfram að fá unga sérfræðinga til landsins eftir að hafa verið að vinna annars staðar.

Þörf á endurskipulagningu

„Þau viðbrögð sem við þurfum að grípa til er að gera meira fyrir þá fjármuni sem í kerfið eru settir og reyna að forgangsraða með öðrum hætti og endurskipuleggja þá þjónustu sem við höfum verið að veita og ætlum að veita,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Kristján segir að útfærslur á aðgerðum séu í undirbúningi í ráðuneytinu. „Við erum að ræða við fólk í heilbrigðiskerfinu, bæði starfsmenn og notendur.“

Hann ítrekar að af mörgu sé að taka og að það gefi auga leið að í svona stóru og viðamiklu kerfi sem heilbrigiðskerfið er samanborið við önnur þjónustukerfi ríkisins, sé verkefnið mjög víðfermt, flókið og samspil margra þátta.

„Grundvallaratriði fyrir ríkisfjármálin er að verðmætasköpun í íslensku þjóðfélagi aukist, þar til verðmætasköpunin tekur við sér verðum við einfaldlega að vinna í þeim fjárhagsramma sem okkur er skapaður miðað við núverandi þjóðarframleiðslu.“