Lífstíð Málið komst upp þegar Berry tókst að flýja ásamt 6 ára dóttur sinni.
Lífstíð Málið komst upp þegar Berry tókst að flýja ásamt 6 ára dóttur sinni. — AFP
Chicago. AFP. | Strætóbílstjórinn Ariel Castro, sem rændi, pyntaði og nauðgaði þremur konum í um áratug á heimili sínu í Ohio í Bandaríkjunum, var á fimmtudag dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Chicago. AFP. | Strætóbílstjórinn Ariel Castro, sem rændi, pyntaði og nauðgaði þremur konum í um áratug á heimili sínu í Ohio í Bandaríkjunum, var á fimmtudag dæmdur í lífstíðarfangelsi. Castro, 53 ára, játaði sök í síðustu viku gegn því að saksóknarar færu ekki fram á dauðarefsingu.

„Herra, það er enginn staður í þessari borg, enginn staður í þessu landi og sannarlega enginn staður í veröldinni fyrir þá sem binda aðra í ánauð, þá sem misnota aðra kynferðislega og þá sem misþyrma öðrum,“ sagði dómarinn Michael Russo við dómsuppkvaðningu.

Castro var fundinn sekur um að hafa rænt Michelle Knigth, Amöndu Berry og Ginu DeJesus þegar þær voru 20, 16 og 14 ára og haldið þeim föngnum. Við réttarhöldinn sagðist Knight ánægð með samkomulag Castro og saksóknara og sagði að dauði hefði verið kvalara hennar léttbærari.

„Ég eyddi ellefu árum í helvíti og nú er þitt helvíti rétt að byrja,“ sagði hún við Castro.

Sagði konurnar ljúga

„Ég er ekki skrímsli. Ég var veikur,“ sagði Castro, sem bar í bætifláka fyrir gjörðir sínar og sagðist þjást af kynlífsfíkn. Hann sagðist ekki skilja hvað hefði valdið því að hann ákvað að halda konunum föngnum en hélt því fram að það hefði ríkt samlyndi á heimilinu.

Þá sagði hann að konurnar lygju því að hann hefði lamið þær og nauðgað. „Ég er ekki ofbeldisfull manneskja,“ sagði hann og hélt því fram að kynlíf hans og kvennanna hefði í flestum tilfellum verið með þeirra samþykki.

Geðlæknirinn Fran Ochberg sagði hins vegar að meðferð Castro á konunum jafngilti lífstíðardómi fyrir þær. Amanda Knigth varð fjórum sinnum þunguð eftir Castro, sem svelti hana og barði þar til hún missti fóstrin, en Berry eignaðist stúlku sem er 6 ára. Castro óskaði eftir því að fá að hitta dóttur sína en var neitað.

Skrímsli
» Saksóknari byggði mál sitt m.a. á dagbókum stúlknanna, þar sem þær skrifuðu m.a. að Castro færi með þær eins og dýr.
» Stúlkurnar fengu að borða einu sinni á dag og fengu sjaldan að fara á salernið en gerðu þarfir sínar í fötu sem var sjaldan tæmd.
» Þær dreymdi um daginn sem þær slyppu og hittu fjölskyldur sínar aftur.