Hálfdan Helgason
Hálfdan Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hálfdan Helgason: "Hvernig það gerist að Valdimar Friðfinnsson, alias Walter Finsen, skýtur upp kollinum á Galapagos-eyjum?"

Meðal fjölmargra nemenda Latínuskólans í Reykjavík á árunum næstu fyrir aldamótin 1900 var ungur maður að nafni Valdimar Friðfinnsson, ættaður norðan úr Skagafirði. Fæddur var hann 1876, yngstur fjögurra barna hjónanna Friðfinns Bjarnasonar og Hólmfríðar Magnúsdóttur, búenda í Hvammi í Hjaltadal. Systkini hans voru Hólmfríður, síðar húsfreyja á Siglufirði, Gamalíel, faðir hins kunna athafnamanns Magnúsar Gamalíelssonar í Ólafsfirði, og Herdís, húsfreyja á Húsavík, síðar meir tengdamóðir skáldsins kunna á Húsavík, Egils Jónassonar.

Árið 1901, eða litlu síðar, hurfu þeir bræður Valdimar og Gamalíel af landi brott og var förinni heitið til Vesturheims. Af sérstökum ástæðum hef ég að undanförnu reynt að komast að því hvað um þá bræður varð, en dvöl þeirra fyrir vestan haf hefur verið þoku hulin að mestu og hvað Gamalíel varðar er undirrituðum ekki kunnugt hvar eða hvenær hann lauk sinni tilvist hér í heimi, þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan.

Hinn 6. júlí síðastliðinn ritaði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson grein í Morgunblaðið er hann nefndi Íslenskur huldumaður á Galapagos-eyjum. Nefndi hann til sögunnar íslenskan einsetumann er þar bjó um 1930 til 1945. Sá kallaði sig, eftir því sem Hannes Hólmsteinn ritar, Walter Finsen. Þótti mér við lestur greinarinnar sem þar væri kominn Valdimar Friðfinnsson, enda augljós líkindi með hinu framandi nafni og því íslenska, sem erlendir menn munu eiga í mesta basli með að taka sér í munn.

Hvernig það gerist að Valdimar Friðfinnsson, alias Walter Finsen, skýtur upp kollinum á Galapagos-eyjum, má ef til vill ráða af því sem hér fer á eftir.

Ævintýramennska

Af þeim rýru upplýsingum sem finna má um Valdimar, er þó ljóst að hann var hinn mesti ævintýramaður. Hinn 14. okt. 1914, birtir blaðið Ísafold litla frétt undir fyrirsögninni Landar í Kaliforníu og Mexíkó og hefur fréttina eftir Lögbergi í Winnipeg sem hinn 27. ágúst 1914 segir svo:

„Bjarni Johnson fékk nýlega bréf frá Jóhannesi Jóhannssyni, sem vestur að hafi flutti fyrir mörgum árum. Hann dvelur nú í bænum Fellows í California ásamt Hermanni Thorsteinsson.

Hann sagði frá því í bréfinu, að Valdemar Friðfinnsson, skólapiltur, sem flutti vestur um haf fyrir mörgum árum og enginn vissi lengi hvar var niður kominn, sé nú í Tampico í Mexico og láti vel af líðan sinni. Hann er að reyna að ná yfirráðum yfir olíulöndum þar syðra og hefir góða von um að það takist. Hann lætur ágætlega af Mexicobúum og loftslaginu þar. Hver veit nema hann eigi eftir að verða íslenzkur Rockefeller.“

Bjarni mun vera sonur Þorláks Johnson kaupmanns. Hann er í Ísl. æviskrám, sagður hafa dvalist eitt ár vestanhafs, að því er virðist einhvern tíma á bilinu 1910-1914.

Ljóst er að bréfið hefur lengi legið óbirt í skúffu blaðsins, eða hjá Bjarna og enginn munað eftir því að löngu áður, eða hinn 28. des. 1911, birti Lögberg athyglisverða grein er nefnist Íslendingar til Andesfjalla. Greinin sú er að mestu bréf frá fararstjóranum, J.J. Dalland cand.phil., sem var enginn annar en áðurnefndur Jóhannes Jóhannsson, og hafði tekið sér eftirnafnið Dalland. Trúlega var þetta bréf einnig sent til Bjarna Johnson, sem nefndur er hér að ofan.

Greinin í Lögbergi

Íslendingar eru elskir að norðrinu og kuldanum. Það er næsta sjaldgæft, að þeir leggi leiðir sínar suður í heitu löndin. Þó eru þar frá undantekningar. Má það marka af bréfi því sem hér fer á eftir. Bréf þetta er frá herra J.J. Dalland cand. phil. Hann fluttist hingað vestur um haf fyrir eitthvað 8 árum. Hefir hann lengst af dvalið vestur á Kyrrahafsströnd. Hann hefir fengist við trjáviðarhögg o.fl. í B. Col... í Yukon, Alaska, Washington og Californiu við námagröft, „contract“ vinnu og ýmislegt fleira. Hefir hann oft haft mikið fé handa á milli en orðið uppgangssamt.

Nú er hann í þann veginn að leggja af stað suður í Andesfjöll, með félögum sínum tveimur, öðrum íslenzkum, Valdimar Friðfinnssyni, norðlenzkum manni. Og hinum norskum. Er þetta hin mesta svaðilför og eigi heiglum hent, og alveg eins dæmi að Íslendingar hafi ráðist í jafn áhættumikla ævintýraferð. Mun slíkt fárra Íslendinga færi annara en Mr. Dalland og hans líka, því hann er afar úrræðisgóður, frábærlega hraustur og mikill fyrir sér, reglulegt íslenzkt karlmenni. Hann kveður svo að orði í bréfi sínu til Lögbergs:

Frá mér er það að segja, að eg hefi ekki enn þá náð í „það“, þ.e: afl þeirra hluta, sem gera skal, en samt í miðjum bardaganum ósærður og ólúinn og sífelt sannfærður um stóran, góðan sigur að lokum; en samt þætti mér vænt um, ef það færi að sjást til hans. Ég hefi ávalt haft hugfast, að ná í stórfé – ekki nokkrar þúsundir til þess að hafa nóg að éta og þurfa ekki að starfa – ónei – stórfé til þess að geta starfað svo um munaði. „Allt eða ekkert“ , hefir ávalt verið mitt heróp, þar til nú í seinni tíð stundum, er ég lít til baka, að mér hefir flogið í hug, að betra hefði kannske verið að vera ánægður með minna og hafa þá það.

Við erum þrír í félagi – Valdi, eins og þú veizt – og svo er með okkur „mining engineer“ norskur, Olav Strand, ágætismaður, norskur að lit, írskur í skapi og íslenzkur í dugnaði og ráðvendni. Við höfum bezta „prospecting outfit“, sem peningar geta keypt. Alt, sem margra ára reynsla okkar sagði nauðsynlegt og mjög margt, sem telja má „ luxurí „ á þessháttar ferðalagi. „Aha“ segir þú nú líklega við sjálfan þig, nú ætla þeir enn á ný að asnast til Alaska. Onei – við erum orðnir langþreyttir á Alaska, á Yukon, á B. C. og jafnvel á Estados Unidos og erum nú orðnir sannfærðir um, að hamingjan bíði okkar suður í hitabeltinu.

Anyhow, we want to give that part of the world a chance. Við förum þess vegna til Californíu í næsta mánuði með útbúnað og nægilega peninga, til þess að leita að gulli, olíu og dýrmætum steinum í Andesfjöllunum í tvö ár og trúi eg illa, að við finnum ekki neitt á því tímabili, ef sjúkdómar hitabeltisins eða viltir Indíánar sem sagðir eru þar grimmir og illir viðureignar, verða okkur ekki að bana.

Þann 23. Jan. stígum við á skip í Frisco, komum til Panama 6. Febrúar, verðum þar í nokkra daga; þaðan til Buenaventura, þá á járnbraut til Cali – drottningar Andesfjallanna. Þar kaupum við 6-8 hesta eða múldýr, and good bye to civilization. Við höfum tvær myndavélar með okkur og tökum óspart myndir, og skal eg senda þér við og við myndir af okkar ferðalagi. Eg er búinn að koma mér niður í spönsku, svo eg get vel fleytt mér, en hún er bráðnauðsynleg í löndum Suður-Ameríku. Eg tók próf í Osteopathiu – mig minnir að eg hafi skrifað þér það; einnig tók eg próf í dýralækningum, og lækna nú jafnt menn og skepnur, þegar eg hefi ekkert annað fyrir stafni.“

Eflaust drífur margt sögulegt á daga þeirra félaga á þessu ferðalagi þeirra suður í hitabelti. Teljum vér víst, að marga fýsi að frétta hversu för þeirra tekst.

Lögberg óskar þeim farsællegrar ferðar og heillar afturkomu og til að geta flutt lesendum sínum frekari fréttir áður langt um líður af þessum hugdjörfu Íslendingum, sem fyrstir vorrar þjóðar hafa borið þrek til að leita gulls og gæfu suður í torfærur og ferlegar óbygðir Andesfjallanna.

Frekari fréttir

Næst fréttist af þeim félögum, er bréf frá Sigurði nokkrum Magnússyni í San Pedro í Kaliforníu birtist í Lögbergi 28. mars 1912.

„Eg fékk nýlega bréf frá þeim Colombia förunum J.J. Dalland og félögum hans. Er það skrifað frá Panama 20. Febr. og eru þeir þá nýlentir þar. En frá San Francisco lögðu þeir um mánaðamótin Janúar og Febrúar. Láta þeir vel yfir sjóleiðinni og lentu í glaumi miklum og gleði í Panama, því þar stóð þá yfir kjötkveðjuhátíð (carnival). Er eg nú að búast við bréfi bráðlega, því eg tel víst, að þeir séu nú komnir til Colombiu, en vænti fastlega að þeir sendi mér línu áður en þeir leggja upp i Andesfjöllin. Eg skal láta þig vita, hvað þeim líður, við og við, ef eg veit eitthvað um þá, og ef Dalland ekki skrifar þér, sem ekki væri ótrúlegt. Þó efast eg um það, því helzt höfðu þeir á orði að skrifa lítið fyrst um sinn, og máske þeir skrifi ekki einu sinni mér.“

Og enn skrifar Sigurður Magnússon í Lögberg, 13. júní 1912 og úr bréfi hans er þetta að lesa:

„Aðallega skrifa eg þér nú til þess að segja þér af Dalland og þeim félögum. Þegar þeir komu til Panama breyttu þeir hinni upphaflegu fyrirætlan sinni, hættu við að fara til Colombia en héldu lengra suður, alla leið til Bolivia. Þaðan skrifaði Dalland mér fyrir æði löngu frá höfuðborginni La Paz, en síðar skrifaði Norðmaðurinn að þeir Dalland og Valdemar lægju veikir á spítala af hitasótt illkynjaðri, en þó í afturbata. Voru þeir þá á leiðinni upp til fjalla.

Það var auðvitað við því að búast að þeir sýktust, því hjá því kemst tæplega neinn, er kemur þar suður og upp í landið í fyrsta sinn. En Norðmanninn bíta engin járn, enda er hann einn sá hraustasti og harðgerðasti náungi, sem ég nokkru sinni hefi kynst, og auk bezti drengur. Eg er nú að búast við bréfi og sendi þér þá línu.“

Valdimar fundinn?

Engar fleiri fregnir er að finna af þeim félögum í vestur-íslensku blöðunum og því ekki vitað hvernig þeim varð ágengt í leitinni að „gulli, olíu og dýrmætum steinum í Andesfjöllunum“. Þó segir mér hugur að ekki hafi þeir fundið „það“, sem Jóhannes J. Dalland taldi í fyrsta bréfi sínu, vera „afl þeirra hluta, sem gera skal“.

Jóhannes sneri aftur til Kaliforníu, lauk læknaprófum 1914 til 1915 og gerðist sérfræðingur í augnlækningum. Hann var læknir í bandaríska hernum í heimsstyrjöldinni fyrri og hlaut viðurkenningar fyrir þátttöku í orrustum í Frakklandi og Belgíu.

Af Valdimar Friðfinnssyni fréttist hins vegar ekkert meira, en trúlega hefir grein Hannesar Hólmsteins um huldumanninn á Galapagos-eyjum orðið til að varpa ljósi á afdrif ævintýramannsins úr Hjaltadal.

Á mynd sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 24. des. 1941 og tekin var af nemendum Latínuskólans vorið 1895 má sjá þá Valdimar Friðfinnsson, Jóhannes Jóhannesson og Bjarna Johnson.

Höfundur er tæknifræðingur, áhugasamur um ættfræði. halfdan@halfdan.is