3. ágúst 1951 Umferðartafir urðu í miðbæ Reykjavíkur þegar kvikmyndin Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra var tekin upp. Meðal annars óku bræðurnir á dráttarvél á móti einstefnu. Kvikmyndin, sem Óskar Gíslason gerði, var frumsýnd um miðjan október. 3.

3. ágúst 1951

Umferðartafir urðu í miðbæ Reykjavíkur þegar kvikmyndin Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra var tekin upp. Meðal annars óku bræðurnir á dráttarvél á móti einstefnu. Kvikmyndin, sem Óskar Gíslason gerði, var frumsýnd um miðjan október.

3. ágúst 1969

Um tuttugu þúsund manns voru á Sumarhátíðinni í Húsafellsskógi, eða um tíundi hver Íslendingur. Þetta er talin fjölmennasta útihátíð sem haldin hefur verið um verslunarmannahelgina. Trúbrot var meðal hljómsveita sem skemmtu á hátíðinni.

3. ágúst 1975

Karl Bretaprins kom til landsins og dvaldist við veiðar í Hofsá í Vopnafirði í fimm daga. Hann veiddi 28 laxa. Karl kom nokkrum sinnum aftur næstu árin.

3. ágúst 1980

Hátíð var haldin á Hrafnseyri við Arnarfjörð til að minnast þess að hundrað ár voru liðin frá andláti Jóns Sigurðssonar. Kapella var vígð og minjasafn opnað en það var fyrsta embættisverk Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands.

3. ágúst 1984

Ringo Starr trommuleikari Bítlanna kom til Íslands. Hann var heiðursgestur á útihátíð í Atlavík. Þar tók hann lagið með Stuðmönnum og Gunnari Þórðarsyni. „Þetta hefur verið stórkostlegt,“ sagði Ringo í samtali við DV.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.