Guðmundur Á. Auðbjörnsson fæddist á Eskifirði 4. október 1928. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 19. júlí 2013.

Útför Guðmundar fór fram frá Eskifjarðarkirkju 27. júlí 2013.

Elsku besti afi minn. Það vakna svo margar góðar minningar þegar ég hugsa til þín að ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Þú, elsku afi, varst alltaf til staðar fyrir mig, veittir mér hjálparhönd við hvert tækifæri og gerðir allt sem þú gast til að gera mig og fjölskylduna hamingjusama. Hvort sem það var að lána mér bílinn þinn, en ég fékk hann svo oft og þú tókst það sko ekki í mál að ég tæki bensín á hann, bjóða mér í skúffuköku sem þú fórst sérferð út í búð að kaupa því þú vissir að hún væri uppáhaldið mitt eða þá bara að lauma smápening í vasann minn. Í kringum þig ríkti svo mikill kærleikur og þótt þú hafir alltaf verið að gera öðrum gott varstu svo þakklátur þegar eitthvað var gert fyrir þig. Þú varst ekki bara afi minn, heldur einnig vinur og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að njóta nærveru þinnar þessi nítján ár. Þú varst yndislegur í alla staði og ég minnist þess bara að hafa séð þig með bros á vör. Þú verður alltaf til staðar í hjarta mínu – þín verður sárt saknað.

Þín,

Ester.